Við skildum við Björninn þar sem hann hafði misst af loftbelgsferð dagsins og beið þess að komast að því hvort hann gæti fært skoðunarferð föstudagsins fram til miðvikudags og nýtt daginn.

Skemmst er frá að segja að skoðunarferðin var bara alls ekki bókuð, þetta var fyrir lágmark tvo, og ekkert hafði verið dregið af korti, þrátt fyrir staðfestingarpóst

Og loftbelgjafélagið átti ekkert pláss næstu daga!

Það var allt í volli!

En hótelið kom til bjargar og græaði leigubíl sem tók ekki mikið meira en hefði kostað á mann í tveggja manna skoðunarferð. Reyndar vantaði þá gædinn en það var bara betra að rölta um áfangastaðinn með bók í hönd.

Og já, áfangastaðurinn? Hattusa, eða Hattusaş eins og Tyrkir kalla hana eru rústir, og ég meina rústir höfuðborgar Hittíta, sem voru eitt helsta veldi þessa heimshluta á 15-12 öld fyrir Krist, ásamt Egyptum og Assyríngum.

Ég var með takmarkaðar væntingar fyrir. Ég vissi að eitthvað stóð en ekki mikið. En þegar á staðinn var komið var upplífunin mun meiri en myndirnar sem fylgja gefa til kynna. Svæðið sem borgin, efri og neðri, náði yfir er gríðarstórt og það er áhrifaríkt að sjá hvernig útsýnið af borgarstæðinu er. Enn standa þrjú hlið:

Ljónahliðið (annað ljónið er endurgert),

Sfinxhliðið (Þjóðverjar tóku þá og ég sá annan sfinxinn í Pergamonsafninu í Berlín 2007, en hafa skilað báðum og þeir eru nú í safni í bænum næstum Hattusas),

og konungahliðið. Hluti veggjanna stendur enn við sfinxhliðið og áhrifaríkur langur gangur gegnum þá þar.

Hér er klöpp sem var sléttuð, svo síðasti stórkonungur Hittíta gæti skráð stórvirki sín, ekki nema hluti af þessum myndtáknum hefur verið lesinn.

En það er víðar en á Íslandi sem tilgátuhús eru byggð og við innganginn á svæðið hafa verið reistir veggir sem eru eins og þeir munu líklegast hafa verið. Aðeins undirstöður húsa, halla og mustera voru steinn, en síðan voru veggir úr leirsteinum og viði sem löngu er horfið.

Hér koma tvær yfirlitsmyndir, annarsvegar frá efsta punkti svæðisins þar sem göngin eru, og sfinxhliðið uppi á veggnum

og svo frá konungshöllinni, séð austur, efsti hlutinn er á vinstri hönd, en neðri borgin sést hægra megin

Hér er svo mynd þar sem konungshallarhæðin sést vel

Á myndinni frá efstu veggjunum sést vegurinn sem liggur umhverfis svæðið. þetta er um fimm kílómetraganga og flestir fara hana á bíl Ég sá þrjár rútur og sex bíla, flest leigubíla, þessa þrjá tíma sem ég var á svæðinu, og það var því fjarri að þetta væri túristastaður, amk ekki um miðjan apríl. Ég labbaði auðvitað, leigubílstjórinn minn keyrði mig reyndar upp að stæðinu við neðri borgina, en þegar ég var búinn að skoða hana veifaði ég honum í burtu, og gekk þetta, enda 100x skemmtilegra. Þegar ég kom til baka hafði hann lagt sig í bílnum, ég sem var að vona hann hefði skroppið í bæinn. Kannske gerði hann það.

Við innganginn var lítil minjagripabúð sem einn gaur var að selja dót úr, ég keypti eitthvað, en það var reyndar hoggin mynd af veggmynd úr litlum hofum sem eru í klettum þarna nálægt. Ég reyndi að fara þangað eftir gönguna, en það virtist girt af, hefur verið opið. Kaffiterían sem var með meira túristadóti var hins vegar lokuð. Til að auka á fámennis-og einangrunartilfinninguna missti ég allt símasamband um hálftíma áður en bíllinn kom að Hattusa og sömuleiðis hálftíma frá. Bilstjórinn var með samband þannig þetta var eitthvað tengt símafyrirtækinu sem Síminn hefur á sínum snærum

Þið sem þekkið mig, þekkið mitt rústablæti og þessi upplifun stóðst samanburð að mestu við Mýkene, og slagar upp í Persepólis og Akrópólis. Ég sé ekki eftir þessum degi eða peningnum sem kostaði að láta ferja mig þangað. En þetta var langur dagur og ég var sofnaður um sjö.

Það kom líka til af góðu, enda hafði ég á leiðinni til Hattusa (sem verður að minnast á var utan þjónustusvæðis, allt frá hálftíma áður en ég kom þangað og hálftíma til baka, amk hjá viðskiptafyrirtæki Símans) fengið WhatsApp skilaboð: Þú átt pláss í belg á morgun!

Ég fór því snemma að sofa með væntingar í brjósti.

Dagur þrjú í Istanbúl var göngudagurinn mikli. Byrjaði á að ganga nýja leið út að bazar, framhjá Litlu Ægissif

Gekk síðan um bazarinn þveran og endilangan, villtist alltaf svolítið og dáðist að því sem ég tel hljóti að vera mesta magn glingurs á einum stað í heiminum. Keypti ekkert þó vissulega heilluðu te- og kaffibollasettin smávegis. Sjáum til hvað setur ef ég hef tíma á bakaleiðinni.

Útaf bazarnum og niður að Gullna horninu, og gekk auðvitað gegnum Kryddbazarinn. Yfir hornið á brú og síðan tók við að ganga upp að Taksim torgi. Það er óhætt að segja að þó að gamla Istanbul sé smá brött, þá er þetta eitthvað allt annað og vel á fótinn. Veðrið var skýjað og frekar svalt, einni gráðu hlýrra en heima.

Snæddi mjög góðan mat á veitingastað sem fékk góðar einkunnir (af 200 veittum) á TripAdvisor, og uppgötvaði tel kadayıf, sem er einhver sætasti desert sem ég hef smakkað.

Hér í Tyrklandi víla menn sér það ekkert fyrir sér að byggja þakið fyrst.

Tók göngutúr í kringum Taksim og gekk síðan eina verslunargötu til baka. Beið í 10 mínútur til að komast upp í Galata turn og það var vel þess virði þó vissulega hljóti útsýnið að vera betra í björtu veðri.

Til baka gekk ég yfir sömu brú og fyrr, upp að Ægissif og Hippodrome og heim á hótel. Sem fyrr segir var staður nr 1 rétt hjá hótelinu. Kannske var það sá, en þegar ég skoðaði á sunnudagskvöld var staður nr 1 að því er virtist aðeins fjær, en staðurinn upp á horni kominn í 4ða sætið. Ég nennti ekki langri göngu og smellti mér á þennan næst mér og sá ekki eftir því, fékk fínan pottrétt sem framreiddur var með mikilli dramatík, borinn fram í lokaðri leirkrukku hitaðri í eldi í pönnu sem borin var upp á efrihæðina tíl mín, krukkan svo brotin og öllu hellt á diskinn minn.

Ég var auðvitað hangandi á netinu og á þessari stundu fóru fyrstu fréttir af brunanum mikla í Notre Dame að berast sem voru auðvitað skelfilegar. Þjónninn sá hvað ég var að horfa á og hans fyrstu viðbrögð voru einlæg gleði og léttir þegar ég sannfærði hann um, sem var augljóst, að þetta hlyti að vera útfrá viðgerðinni, en ekki sprenging. Svo sorglega skiljanleg viðbrögð

Síðan heim að sofa, enda kom rútan að sækja mig um morguninn kl 5:40. Ferðinni var heitið út á flugvöll fyrir næsta áfangastað.

Ég var í gær smá dularfullur með það og ætlaði að koma á óvart. En ferðinni skemmtilegu sem ég ætlaði í í morgun var aflýst og ekki hægt að draga þetta lengur.

Það er nefnilega hún Nanna Rögnvaldardóttir sem er áhrifavaldur að þessum hluta ferðarinnar. Ég flaug til Kayseri í gær, og fékk svo bíl til Hezen Cave Hotel í Ortahizar, litlu þorpi skammt frá Göreme.

Og það var loftbelgsferðinni minni sem var aflýst í morgun, þegar ég var kominn út kl 4:20 að bíða eftir bílnum og reyndar kominn smá á leið.

Eins og nafnið gefur til kynna eru herbergin hér eins og á mörgum ef ekki öllum hótelunum hér hoggin inn í kalksteininn og ég er því uppi í rúmi, undir sæng að skrifa þetta, enda mjög svalt í herberginu.

Ég kom upp úr hádegi í gær og ákvað, með tilliti til snemmbúinnar ræsingar að taka hvíldardag. Ég fór þó út í gærkvöld og gekk hér snarbratta vegi og krákustiga, fyrst niður í dalinn og svo upp, um 10 mínútna gang, til að komast á veitingastað sem er í beinni sjónlínu hér á móti. Það var vel þess virði! Mjög góður matur en í fyrsta skipti í ferðinni lenti ég í því sem Nanna nefndi í annarri færslu, forréttur og aðalréttur komu um leið á borðið!

Síðan fór ég heim, var að hugsa um að fylgjast með Barcelona-United sem byrjaði kl 10 að staðartíma en náði því ekki, sofnaði 10, rumskaði 20 mínútum síðar og sá 2-0 stöðuna og þurfti því ekki að hafa frekari áhyggjur

En núna bíð ég þess að komast að því hvort ég geti fært skoðunarferðina sem ég á bókaða á föstudag til dagsins í dag svo ég hafi bæði fimmtudag og föstudag uppá að hlaupa!

Sofnaði snemma á laugardaginn, vaknaði á skikkanlegum tíma til að taka venjulega morgunnetrúntinn, sami beisik morgunverðurinn og út i áttinna að Grand Bazaar. Sem er auðvitað ekki opinn á sunnudögum þannig það var bara að taka strikið út að Topkapı höllinni! Sem ég tók sveiginn kringum Ægissif byrjaði að rigna. OG RIGNA. Þó ég væri ekki kominn að innganginum fyrr en um hálf tíu var samt tiltölulega stutt röð gegnum fyrsta hliðið sem var bara öryggisleit. Þegar ég var kominn í gegn ákvað ég að beita skynsemi og bíða af mér sturtuna.

Það tókst, varði ekki nema um tíu mínútur.

Við tók ganga yfir fyrsta forgarðinn, engin bið í miðasölunni og beint inn. Höllin er ekki eins gígantískt hlaðin og evrópskar hallir á sömu öldum, þó skreytingarnar séu (oftast nær) gríðarfallegar. Ég skoðað vopnasafnið (mjög töff), helgiminjasafnið (sá suðupott Abrahams og er ekki samur eftir), aðalminjasafnið var lokað vegna viðgerða, og borgaði mig svo sérstaklega inn í haremið og það var vel þess virði. Það var ekki bara kvennabúr heldur líka híbýli súltansins, súltansmóðurinnar og aðaleiginkvennanna. Móttökuherbergið og íverustaður súltansins voru alveg sérstaklega flott herbergi en almennt var gríðar gaman að koma þarna, margt mjög flott.

Þegar nóg var skoðað rölti ég til baka (og nú var miðasölubiðröð og haugur af fólki alls staðar. Ég gekk hinu megin Ægissifjar og bláu moskunnar frá gærdeginum, stoppaði á þokkalegum veitingastað og fékk mér calamari og kjúklingakebap sem var hvort tveggja mjög gott. Læt fylgja mynd af þrengstu götu sem ég hef gengið með umferð, það var rúta við rútu sem fór þessa leið, á meðan ég skaust milli þeirra til að velja þann vegarhelming sem virtist þó vera mannsbreidd milli veggjar og bíls.

Heim á hótel og beið eftir næsta verkefni.

Það var að fara á Fenerbahçe – Galatasaray. Þegar ég ljóstraði ferðaáformum mínum upp við Þórmund vin minn var það hann sem for og fann út að af einskærri tilviljun væri ég hér í Istanbúl þegar þessi einn af þrem mögnuðustu borgarslögum heims færi fram.

Ég af venju hummaði hlutina fram af mér og pantaði samt á endanum svokallað Passolig kort sem er nauðsynlegt til að fá miða og komast inn á völlinn, og keypti síðan miða af traustri en siðferðilega vafasamri síðu á netinu. Kortið átti að afhendast á vellinum en miðinn rafrænt.

Á fimmtudaginn kom fyrsta höfnunin, miðasalinn gat ekki afhenti miðann til sölusíðunnar og þau buðu mér nýjan sem ég þáði.

Sama gerðist á föstudaginn!

Og þrátt fyrir mikla bið þá gerðist það að rafræna afhendingin gerðist ekki í þessari þriðju tilraun, án þess að sölusíðan segði það sama og í fyrri skiptin.

Í millitíðinni var ég kominn á völlinn (tók taxa auminginn sem ég er) og varð vitni að þessu, nokkuð frá vellinum.

Í almenningsgarði skammt frá vellinum var stemmingin enn svaðalegri, blysin á lofti og sungið af krafti.

Ég fór inn á öryggissvæðið kringum völlinn og fann á endanum Passolig afhendingarpunkt. Hitti Þjóðverja og Hollendinga sem voru í svipuðum erindagjörðum. Drengurinn í afgreiðslunni vildi ekkert fyrir mig gera, ég var ekki með miða og Passolig kortið mitt? Jú, kemur á morgun.

Þá gafst ég eiginlega upp, en var þó ekki tilbúinn að fara, fylgdist með stemmingunni við völlinn þangað til leikurinn hófst og notaði þá leigubílaapp Istanbúl til að koma mér heim.

 

Rétt er að benda á að Şükrü Saracoğlu völlurinn er í Asíu, ég fór bílagöngin þangað, en langa hringinn á brú til baka og sá mikið af borginni fyrir vikið.

TripAdvisor segir mér að staður nr 1 í Istanbúl sé hér á næsta horni, 30 metrum frá, fer á hann í kvöld en í gærkvöld fór ég á númer 7, sem er í næstu götu við, steinsnar frá herberginu mínu sem snýr jú út að bakgarðinum (eða ekki garðinum). Það var ágætt, reyndar fékk ég fyllt nautakjöt ekki kjúlla, er of latur til að gera athugasemdir við svoleiðis, en tónlistarvalið var einkennilegt, fékk að heyra í beit Life is live; Brother Louie; Cherie Cherie Lady; og Modern Talking. Evródiskó af bestu gerð.

En ég svaf vel í nótt og vaknaði nógu snemma til að taka netrúnt og blogg, áður en farið er í þennan létta morgunverð og svo basarinn.

Istanbúl – Dagur eitt

Það góða við að heyra illa og ekki neitt að ráði af tilkynningum í flugvélum var í gær að þegar við bíðum í klukkutíma úti í vél eftir að taka af stað ákvað ég að hafa engar áhyggjur heldur bara bíða.

Enda komumst við í loftið á endanum, ekki eins og Bragi, Tomas, Aðalsteinn og eflaust fleiri. Ástæðan fyrir hvað ég var slakur var sú að mín beið sjö tima bið á Heathrow hvort heldur er. Ég þurfti að sækja töskuna en á móti kom að ég gat tékkað hana inn strax og hefði því getað skroppið inn í bæ en nennti ekki að stressa mig á því og hékk heldur á börum og kaffihúsum. Fór loksins inn á öryggissvæðið, keypti þau rafmagnstengi sem gleymst hafði að pakka og steig loks um borð í vélina til Istanbúl.

Einhver seinkun var á henni og það var vel rúmlega miðnætti að staðartíma þegar við lentum. I vegabréfaskoðuninni var ég að vorkenna foreldrum með stráka sem virtust sex, fjögurra og hálfs, þriggja og eins árs þegar sá yngsti var að grenja en sú vorkunn hvarf því þau voru næst á undan mér… og tók hátt í tíu mínútur að koma pappírunum þeirra á hreint.

Síðan tókst mér að fara á vitlaust band að bíða eftir töskunni og eyddi hálftíma þar. Vildi til að annar úr sömu vél gerði það sama og hann fattaði.

Þá loksins fékk ég töskuna og fór út þar sem átti að bíða mín hótelpikköpp. Kom í ljós að það var hópafgreiðsla. Við vorum tíu sett af farþegum sem þurfti að smala og svo fara og hreinlega finna bíla fyrir okkur úr venjulegu leigubílaröðinni. Mjög efficient. Not.

Lagði sumsé af stað frá flugvellinum kl 2 og var kominn á hótel 2:40. Og í svefn um 3. Stillti vekjarann á 11. heh. heheh. hehehe.

Auðvitað vaknaði ég svo kl sjö í morgun og var bara hress. Spændi í mig morgunmat af ódýrari buffet gerðinni og óð út vel fyrir níu.

Er ekki langt frá megintúristastöðum gamla bæjarins og var kominn í tiltölulega stutta röð fyrir utan Ægissif fyrir opnun kl níu.

Ég get eiginlega ekki lýst þessari fimmtánhundruð ára byggingu. Hún er að hluta geysilúin, stillansar inni, og svolítið skrýtið að ganga þar um.

En engu að síður og þrátt fyrir allt þá sést  hvað hún er ægifögur og áhrifamikil.

Næsta stopp var fyrsta moskan af þrem: Bláa moskan. Falleg!

Meira um moskur síðar í pistlinum. Næst leit ég inn í grafhýsi Sultans Ahmed. Myndirnar þar tók ég allar á myndavélina og þær bíða. Lítið grafhýsi en afskaplega fallegt! Stílhreint eins og múslimskar trúarbyggingar en ótrúlega haglega skreytt.

Næst ætlaði ég í vatnsgeymslu basilikunnar – Basilica Cistern. Stutt röð! EN! Reiðufé eingöng og minns ekki búinn að taka út. Þá var bara að finna veitingastað, fá sér grillaðan hal… hellim ost og lamb ŞiÅŸ Kebap. Síðan í hraðbanka og í miklu lengri röð. En niður í vatnshýsið komst ég og þó að vantaði svolítið upp á Bond stemminguna, þá var þetta ansi magnað! Eins og víðar er verið að gera við og eitthvað um afgirt svæði og stillansa.

Þá var að steðja út að Bazar. Á leiðinni leit ég inn í eina minni mosku, Nuruosmanyie moskuna og fannst gaman að því, með því að sjá eina aðeins minni í sniðum kemst maður nær kjarnanum.

Ég labbaði inn í Bazarinn, og beina leið í gegn. Stefni á að eyða aðeins meiri tíma þar á morgun. Tók í staðinn strikið út að stærstu mosku borgarinnar, Süleymaniye moskuna og dáðist að henni og umhverfi hennar, en það er eins og vera ber með þjónustu við trúaða á borð við baðhús, skóla og spítala.

Eftir að hafa skoðað ófáar moskur í Íran og nú þessar þrjár (og Ægisif) þá er ég alltaf að verða hrifnari af þessum stíl. Skreytingarleysið er afskaplega einkennilegt þeim sem skoðað hafa helst kaþólskar risakirkjur útlöndum, en þegar nánar er skoðað, og ekki síst þegar maður sér trúaða við bænir þá kemur betur í ljós hversu viðeigandi umhverfið er. Fegurðin ríkir þó hún sé oft í mynstrum og skrautskrift eingöngu en minnir þannig á til hvers byggingin er, að færa tilbeiðandann nær guði. Það eru engir dýrlingar að þvælast fyrir, að ert bara þú, og guð, og spámaðurinn.

Gríðarlega áhrifamikið.

Tók svo strikið heim, lét plata mig að skoða teppi á leiðinni og endaði á að vera snuðaður þegar ég keypti bara sætindi af sölumanninum en ekkert teppi. Ojæa, ég fékk allavega nammi. Þó það hafi verið í dýrari kantinum. Miðað við hér á landi á. Ekki heima. Ef einhver elskar lokum, eða ‘turkish delight’ er viðkomandi velkominn þegar ég kem. Nei, þetta er minnst af þessu rósadóti sem Englendingar þekkja best. Prýðisstöff.

En ég er allavega heima á herbergi að reyna að ákveða hvort ég eigi að nenna út að finna mér mat. Að lokum er hér vel beygð panorama sem horfir til austurs frá Suleymanyi moskunni