Brasilía – São Paulo

Posted July 9th, 2011. Filed under Uncategorized

Eins og Ríó er São Paulo ansi hreint stór og mörg hverfi. Ég var þó ekki lengi í borginni og verð að viðurkenna að ég fór ekki víða. Ég var á gistiheimili í Jardins hverfinu sem skv ferðahandbókinni er eitt það notalegasta í borginni og held það hljóti að vera rétt. Þarna voru litlar götur með búðum og ein þeirra greinilega flottust, öll helstu tískumerkin, að mestu í litlum búðum, mjög fínt.
Hverfið liggur vestan við eina aðalbreiðgötu borgarinnar, Avenida Paulista og föstudagurinn fór í að rölta þá götu. Þar tókst mér þó að fara í fyrsta skipti í ferðinni á safn, listasafn meira að segja. Museu de Arte de São Paulo, MASP Þeir eru með ágætt safn af minni verkum evrópsku meistaranna sem var gaman að skoða, og í kjallaranum var verið að sýna ‘6 milljarðar annara’. Geysilega athyglisverð sýning byggða á viðtölum við hundruðir eða þúsundir? jarðarbúa sem greina frá lífi sínu, draumum og hugsunum. Eyddi dágóðum tíma í þetta.
Museu de Arte de São Paulo, MASP
Um kvöldið fór ég út á næsta götuhorn, hvar var fínn írskur bar. Þar var sjónvarp sem ég horfði á Argentínu spila fyrsta leikinn í Copa America og gekk vægast sagt illa. Aðrir á staðnum voru í meira djammstuði en ég en ég fékk þó að horfa óáreittur. Fékk mér ágætissvínarif, nokkra bjóra og fór heim þegar hæst lét.
Á laugardeginum hafði ég ætlað að fara í klukkutímaferð til hafnarborgarinnar Santos, og skoða Pelé safnið þar, en komst að því að það var lokað um helgar, til allrar hamingju áður en ég lagði í hann þó. Þess í stað gekk ég austur frá Paulistabreiðgötunni og yfir í það sem kalla má miðbæ. Má kannske segja að það sýni hvað mér þótti fátt áhugavert þar að ég tók engar myndir. Þetta var samt ágætisgöngutúr og ég fékk ágæta steik á ferðahandbókarmeðmæltum stað i hádeginu.
Um kvöldið fann ég pizza stað í Jardins og naut ágætrar pizzu á uppsprengdu verði, enda var allt geysilega dýrt, bæði í Ríó og í São Paulo. Sunnudeginum eyddi ég í ráf um Paulista og Jardins, endaði á að fara inn á bar og horfa á Brasilíu eiga í mesta basli í sínum fyrsta Copa leik. Ekki voru margir þarna að horfa en einn hópur þó og gátu þeir lítið fagnað 0-0 jafntefli. Hef smá áhyggjur af hvort Brasilíu tekst að vinna sinn riðil sem er jú nauðsynlegt fyrir mig þar sem fjórðungsúrslitaleikurinn sem ég á miða á er einmitt með téðum riðilssigurvegara.
Þannig nýtti ég tímann í São Paulo illa að sumu leyti en naut þess samt ágætlega og hvíldi mig vel. Á mánudeginum var síðan komið að næsta landi, haldið í veturinn í Montevideo.

Brasilía – Ríó, annar hluti

Posted July 9th, 2011. Filed under Uncategorized

Við skildum við hetju okkar á á mánudegi í Ríó. Seinni part mánudagsins fór ég í miðbæinn og rölti nokkuð um. Verð að viðurkenna ég var ekkert upprifinn af þessu, en samt alltaf gaman að koma á nýja staði.
Þriðjudaginn tók ég síðan túristapakkann með trukki. Tók strætó út að Sykurhleif, Pão de Açúcar. Síðan kláf upp á minna fjall og þaðan annan upp á sjálfan hleifinn og naut þaðan mikilfenglegs útsýnis yfir Ríó.
Rio de Janeiro 114
Síðan aftur niður, strætó út að Botafogo metróstöð, niður í bæ og út að sporvagnastöðinni sem gerir ekki annað en að þjóna Santa Teresa hverfinu. Þetta er lítið og sætt hverfi þar sem er víst ágætt að taka fyrsta drykk á djammkvöldi, en ég gerði ekki annað en að leita uppi matsölustað og fá mér að borða. Þetta var Norður-Brasilískur staður og ég fékk hálfþurrkað og steikt nautakjöt, mikill og stór skammtur með steiktum yams, svörtum baunum, og manioc mjöli. Gat næstum klárað!
iphone Sao Paulo 019
Síðan næsta skref, tók strætó niður í Lapa hverfið (sem er staðurinn til að fara á eftir fordrykkinn í Santa Teresa, en sem fyrr segir djammaði ég ekkert) og þaðan annan strætó út að endastöðinni fyrir lestina sem fer með mann upp á tind Corcovado. Einhverjum bjöllum kann það nafn að hringja hjá sumum, en allir þekkja staðinn, því þar er Jesústyttan fræga sem gnæfir þarna yfir í 710 metra hæð. Útsýnið yfir borgina er enn frábærara þarna og ég var þarna fram yfir sólsetur til að sjá borgina ljóma. Aðrir en ég geta komið með beittar athugasemdir um kaldhæðni þess að stærsta Jesústytta í heimi horfi niður á alla þá mannlegu eymd sem fátækrahverfin í Ríó hafa að geyma, ég hef ekki alveg hugmyndaflug í að koma hugsunum mínum um það fram á hnitmiðaðan hátt.
Rio de Janeiro 171
Einhver hefði haft vit á því að það gæti verið kalt þarna uppi, en ekki ég og það var orðið ansi napurt að vera þarna á stuttbuxum og stuttermabol. Ég tók síðan aftur strætó út á Ipanema, tók um klukkustund og var feginn að komast í ból.
Á miðvikudeginum gerði ég ekki neitt. Ég var eiginlega búinn að taka svona Greatest Hits af Ríó, og ákvað að ég gæti lifað án þess að taka favela tour, eða leiðsögn um fátækrahverfi. Það er eflaust einstök upplifun, en ég gat ekki horfst í augu við það. Nóg er nú samt. Þannig ég rölti um strandveginn, síðan upp í ekki-mjög-flottan almenningsgarð og sat þar í sólinni, hlustaði á músík á iSímanum og las af honum einhverja reyfara. Í hádeginu fór ég á TexMex stað sem hét Rota 66. Eins og sjá má:
TexMex á Rota 66
Eins og þeir sem fylgja mér á Foursquare vita, var ég búinn að finna bar og veitingastað sem var þarna alveg við hliðina á hótelinu sem var með ókeypis WiFi, ágætan mat og frábærar caipirinhur, og nýtti ég mér hann vel. Á miðvikudagskvöldið fór ég þar, borðaði og tók nokkra drykki að auki. Verið var að sýna fótbolta í sjónvarpinu, Flamengo vann Minas Gerais, og á næsta borði voru Flamengostyðjandi strákar sem ég tók á tal og við gátum spjallað vel um boltann það sem eftir lifði kvölds. Fór meira að segja að dæmi þeirra og fékk mér cachaça skot í stað þess að drekka það blandað í caipirinha og það var bara eðaldrykkur sem auðvelt var að dreypa á. Eftir að þeir voru farnir kom Botafogo mér síðan vel á óvart og vann topplið deildarinnar, São Paulo, 2-0 og voru eitthvað skárri en á sunnudeginum.
Á fimmtudeginum var síðan kominn tími til að pakka saman og fara til São Paulo.

Eins og fyrr var drepið á lenti ég í Río rétt eftir miðnættið á föstudagskvöld/laugardagsmorgun og komst ekki á gistiheimilið fyrr en um 2 leytið og fékk í fyrsta sinn að reyna að vera í 9 manna herbergi (átti að vera í 6manna, smá mistök, skipti litlu). Það var bara þokkalegt. Hafði ekki hengilás þannig ég svaf með litlu töskuna í stað þess að geta geymt hana í skáp. Þetta var á Copacabana ströndinni og á laugardeginum gerði ég hvort tveggja að rölta um nágrennið og strandveginn, og að slappa af uppi á hosteli. Dreif mig samt út um kvöldið og fékk mér steik og síðan einn öl uppi á gistiheimili. Vaknaði um 7 leytið á sunnudeginum og dreif mig niður, og var mjög ánægður þegar bakpokinn minn lét svo fljótlega sjá sig. Þá var lítið annað að gera en að drífa sig yfir á næsta hótel. Hafði splæst í gott hótel á næstu strönd við, Ipanema. Það er ágætt… en auðvitað eins og á alvöru hótelum kostar netaðgangur. Bú! En stutt frá er ágætis bar og veitingastaður með frítt WiFi sem eru núna mínar aðrar bækistöðvar (ágætis trúbador að taka alla standardana núna, Girl from Ipanema og allt það) Rak augun á laugardaginn í auglýsingu um gæded túr á leiki, hafði ekki spáð í að brasilíska deildin tekur ekki Copa pásu. Fór ekki á Flamengo á laugardaginn, held að Ronaldinho hafi átt stórleik. hmm. Skv hostelinu var ekkert mál að fara sjálfur, túrinn með gæd og ferðum kostaði 85 reais (72kr per real) og á nýja hótelinu var sams konar ferð auglýst á 150. Þannig ég dreif mig bara með metró upp á Central stöðina, og þaðan með tram. Virtist reyndar um tíma að það kerfi væri lokað, en svo opnuðu þeir og ég elti bara KR búningana…
Leikurinn var Botafogo – Gremio á Olympíuleikvanginum Joao Havelange. Þar komast nú fyrir um 46þúsund manns, en hann verður stækkaður í 65 þúsund fyrir Ólympíuleikana 2018. Allir helstu leikir í Ríó fara nú þar fram þar sem Maracanã er lokaður vegna breytinga. Það voru rúmlega 13 þúsund manns á leiknum og nær allir í svarthvítum búningum Botafogo. Stemmingin var svakalega góð, en leikurinn ekki mikið svo. Veit ekki hvort mikið vantaði í liðin útaf Copa, en þó að stöku spilarar sýndu sólótilþrif, var samspilið ekki mikið betra en heima. Botafogo voru miklu meira með boltann, en markvörðurinn þeirra bjargaði tvisvar maður á mann í fyrri hálfleik.
Rio de Janeiro Olympic Stadium
Um miðjan seinni hálfleikinn misstu Gremioar mann útaf yfir 2 gul, og verður að segjast að menn ‘hlupu vel á’ eins og pabbi gamli orðaði það alltaf þegar líkamsburðir voru látnir ráða.
2 mínútum síðar náðu Botofogomenn að skora, í þetta sinn tókst að sóla næstum boltann inn sem hafði reynst þeim ofviða áður. Svo klikkuðu flóðljósin þannig við fengum 20 mínútna aukapásu. Eftir að leikurinn byrjaði aftur skoruðu Botafogo aftur og þó Gremiomenn kæmu sterkir inn bjargaði markmaðurinn enn og aftur Botafogo og þegar hann klikkaði (missti bolta frá sér og Gremio skoraði) var of lítið eftir, 2-1 og heimamenn fögnuðu.
Í morgun fór ég svo í staðlaða pílagrímsferð á Maracanã. Skoðaði safnið þeirra (sem er í tímabundnu húsnæði vegna breytinga) og fékk flotta yfirsýn yfir völlinn. Búið er að rífa upp allt opnasvæðið og mestöll stæðin og verið að endurbyggja allt fyrir HM. Kostar einhverja 50ma kr.
Rio de Janeiro 064
Spurning um að drífa sig 2014?

Í öllum plönum mínum fyrir þessa ferð hafði Venesúela hlutinn alltaf verið stærsta spurningin. Í upphafi hafði ég gert ráð fyrir fjórum vikum í Guatemala, þrem í Perú og einni auðri, og vissi að Galápagos var ofar á listanum fyrir auðu vikuna. Ég var samt bara með bókaðan skólann í Guate í þrjár vikur, og vissi að ég myndi geta stytt Perú með smá vilja. Þannig að ég var í raun alltaf með eina viku auka. Og eins og komið hefur á daginn hef ég nýtt það þannig.
En frá því ég sá þetta myndskeið úr bestu náttúrúlífsþáttum allra tíma vissi ég að mig dreymdi um að sjá Salto Angel, hæsta foss í heimi.

Ferðahandbókin mín var ekki alltof skýr, og ekki heldur gúgl, nákvæmlega hvernig best væri að skoða fossinn og lengi bjóst ég við að ég myndi bara taka flug frá Canaima flugvelli og hringsóla um fossinn í fimmtán mínútur, þar sem ýjað var að bátsferðin þangað væri erfið. En á fimmtudaginnn í síðustu viku þegar ég var í Puerto Ayora dreif ég mig í að velja eina ferðaskrifstofu sem mælt var með í Footprint bókinni minni, Bernal Tours, finna hana aftur á vefnum (sem ég hafði reyndar gert áður, ásamt um 20 öðrum Salto Angel síðum) og bóka þriggja daga/tveggja nátta ferð.
Ég hafði síðan ekkert heyrt frá þeim á sunnudeginum þegar ég var á Bogotá flugvelli, (hefði átt að kíkja í kæfumöppuna í póstinum) og hringdi og staðfesti. Þá reddaði gaurinn mér líka og bókaði flug þá um kvöldið frá Caracas til Ciudad Bolivar. Ég hringdi lika í gistiheimili í Ciudad Bolivar og bókaði herbergi.
Eina vesenið var að það var ekki nema tveir tímar frá því að vélin mín lenti frá Bogotá og þangað til vélin fór til CB. Síðan seinkaði auðvitað vélinni til Caracas og þegar ég komst að farangursbeltinu var um klukkutími til stefnu. Taskan mín kom síðan um fjörutíu mínútum síðar. Aldrei á ævinni hef ég séð jafnhægvirk farangursskil. Ég var auðvitað alveg að fara á límingunum og í stöðugu símasambandi við minn mann. Loksins kom bakpokinn (fór reyndar framhjá mér tvisvar á bandinu af því hann var svo miklu minni vel innpakkaður í plast en venjulega)
Við tók svakalegur sprettur yfir í innanlandsflugstöðina og einhvern veginn tókst mér að finna leið sem leiddi mig beint inn að hliði án þess að fara í gegnum tékkinn. Þar var fullt af fólki þannig að ekki var byrjað að fara um borð. Eftir smá vesen við hliðið var mér bent á að fara að tala við yfirmann. Þá þurfti ég auðvitað að fara út um öryggishlið og útað tékkinninu. Þar reddaðst þetta allt og minn maður var meira að segja búinn að borga ferðina fyrir mig. Ástæðan fyrir að allir nema ég voru salírólegir yfir öllu þegar tekið var á móti mér var auðvitað sú að fluginu hafði seinkað um meira en klukkutíma!
Þannig að ég komst á leiðarenda um kvöldið og var ánægður að hitta ferðaskrifstofugaurinn sem hafði hjálpað mér að halda einhverjum sönsum í öllu þessu. Þá kom í ljós að ég hafði átt að vera búinn að fá póstinn frá honum áður og hann hafði bókað hostel og alles, en ég fór nú samt á það sem ég hafði valið. Ekki vandamál.
Á mánudagsmorgni var hann svo mættur kl 7 og skutlaði mér út á flugvöll. Eftir nokkra bið fór ég loks um borð í litla Cessnu og flaug í klukkutíma til Canaima. Það er miðstöð þjóðgarðarins og er við lítið lón sem áin Rio Carrao rennur í fram af litlu hamrabelti í nokkrum breiðum og ægifögrum fossum.
Canaima021
Ég var sem fyrr segir nokkuð seinn og var drifinn niður að lóni þar sem þrír aðrir ferðalangar biðu og með okkur var siglt yfir lónið að búðum Bernal Tours þar. Við fengum hádegisverð og síðan var smá hvíld áður en við gengum í um klukkutíma að Salto Sapo fossinum. Hann var um helmingur af venjulegri breidd enda ekki rignt í nokkra daga. Regntíminn byrjaði þó í maí þannig að hálf breiddin var ágæt. Stóri punkturinn þarna var gönguleið bak við fossinn. Hann er ekki hár en þeim mun breiðari þannig þetta var svaka fjör.
Canaima085
Síðan var gengið til baka og byrjaði að rigna þegar við lögðum frá fossinum og fengum við að kynnast óspart hvernig hitabeltisrigning. Vorum auðvitað gegndrepa eftir fossgönguna (og sumir höfðu stukkið í ána, ég sleppti því, þurfti að stökkva soltið frá hamrinum og ég treysti mér ekki) Göngustígarnir sem við fórum eftir voru eins og lækir og það var gott að komast í búðirnar. Eg hafði ekki bókað herbergi þarna þannig að ég svaf í rúmi sem var þarna með öðrum rúmum og hengikojum undir þaki en ekki innan veggja. Hin þrjú voru í herbergi þannig ég var einn þarna og það var bara ágætt.
Canaima049
Hefði verið gríðarlega heitt ef ekki fyrir rigninguna sem entist fram á nótt og kældi allt niður þannig ég var ánægður undir þrem teppum (og moskítóneti). Ræs var rólegt morguninn eftir því við þurftum að ná í fleiri ferðalanga út á flugvöll.
Þau þrjú sem voru með mér fyrir voru Spánverji… fyrirgefið Katalóni frá Barcelona sem vann í Caracas, vinnufélagi hans frá Trinidad og vinkona hans frá Barcelona. Átta manna hópur sem við sóttum út á flugvöll var spænskur hópur frá Baskalandi, eða eins og ég orðaði það, þið eruð öll spænsk án þess að vera spænsk. Keyrðum upp með ánni til að komast upp fyrir fossana og síðan var farið um borð í bátinn og stímt af stað. Það var alveg búið að gera okkur ljóst að við myndum holdvotna i bátnum. Farangurinn var allur vafinn í þykkt plast og allt sem við vorum með var í plastpokum, verst að það var alltaf vesen að draga fram myndavélina úr þrem plastpokum þegar myndefni birtist. Ekki höfðum við siglt lengi þegar við tókum land og þurftum að ganga í um 20 mínútur – hálftíma meðan báturinn fór yfir verstu flúðir ferðarinnar. Væntanlega hefur regn gærdagsins hjálpað vel til að ekki voru fleiri verri.
Auðvitað var lítil minjagripabúð innfæddra á gönguleiðinni, en ég sleppti að kaupa blásturspípur þar.
Næsta stoppp var við frábærlega fallegan foss úr hliðará, alveg við megin ána. Þar stungum við okkur til sunds í litlum hyl og tókum smá sturtu undir fossinum. Síðan voru samlokur á röðina.
Canaima104
Eftir þetta stopp fóru að birtast stórfengleg hamrabelti Auyantepui fjallsléttunnar. Þetta er 650 ferkílómetra fjall sem gnæfir þarna yfir og það tók alveg um klukkutíma eða meira (ekkert úr) frá því við komum að fyrstu hömrunum þangað til við komum að Salto Angel og myndavélin var mikið munduð á leiðinni en myndir gera í raun lítið til að gefa í skyn hvernig er að sigla þarna undir. Útsýnið var fullkomið, nær ekkert mistur og skýin voru rétt yfir fjöllunum og náðu sjaldnast niður í hlíðarnar.
Canaima131
En loks birtist Salto Angel í fjarska.
Orð fá ekki lýst…
Canaima147
Við tókum síðan land og gengið var í klukkutíma gegnum regnskóginn. Seinni hlutinn var ansi mikið á brattann og það var stórkostlegt að sjá fossinn loksins í gegnum þykknið.
En meginútsýnispallurinn var aðeins ofar, með fullkomnu útsýni.
Canaima176
Fossinn er 983 metrar en þá eru meðtaldar flúðirnar þarna og þessi líka fallegi foss sem sést þarna neðst.
Frjálsa fallið mun þó vera hæsti foss veraldar þó hitt sé ekki með talið.
Við áðum þarna í einhverjar 20 mínútur, hálftíma, öll þessi ferð til Venesúela í raun bara fyrir þá stund. Þetta var svo þess virði. Bátsferðalagið og fegurð fjallgarðsins og hin fossaskoðunin var í raun bara frábær bónus.
Síðan var farið sömu leið til baka, niður að á, yfir ána í búðirnar þar. Þær voru mun frumstæðari en hinar, ekkert rafmagn, salernin sturtuð með fötu sem flaut í vatnstunnu fyrir framan, hengikojur undir þaki svefnstaðurinn. Maturinn var samt ágætur, steiktur kjúklingur og hrísgrjón. Alveg kominn tími á að ég væri ekki í góðu prívatherbergi. Þrátt fyrir að ég hefði smá áhyggjur af því að sofa í hengirúmi í fyrsta skipti á ævinni var áreynsla dagsins alveg næg og ég svaf eins og engill. Ræs var í birtingu sem var ansi mjúk ef svo má segja enda alskýjað og mikið mistur og við sáum ekki fossinn frá búðunum sem hafði verið flottur þaðan daginn áður. Gott að vera ekki í svoleiðis útsýni.
Canaima206
Bátsferðin til baka var síðan ekki í frásögur færandi og við vorum komin í búðir um 10 leytið. Afslapp, hádegismatur og klukkan eitt fór ég enn yfir lónið og út á flugvöll og í Cessnunni til Ciudad Bolivar og aftur á sama gistiheimili og fyrr. Í morgun var síðan ræs fyrir fimm, út á flugvöll og flogið til Caracas.
Ég tek enga sénsa hér í Caracas, fór beint af flugvellinum yfir á hótelið ekki langt frá flugvellinum (og langt frá miðborginni). Þetta er fínt og nokkuð dýrt hótel, en ég hef ekkert að gera hér annað en að vera á netinu og slaka á, Caracas er ekki til þess að skoða svona upp á einsdæmi, amk ekki ef maður er áhættufælinn.
Í fyrramálið fer ég síðan út á flugvöll, flýg til Panama og vona að fjörutíu mínútur séu nægur tími til að koma mér yfir í flugvélina til Rio de Janeiro. Fór um flugvöllinn á leiðinni frá Kúbu þannig ég kannast við hann, og ef ekki verður seinkun ætti þetta alveg að takast.
[viðbót: Flickr upphlaðið var svo hægvirkt þarna í Caracas að ég beið með að setja inn þessa færslu þar til nú, er í Ríó, rétt búinn með morgunmat á gistiheimili á Copacabana, kom 2 í nótt… en farangurinn kemur víst og vonandi í dag…]

Galápagos eyjar

Posted June 19th, 2011. Filed under Ekvador ferðalög frí Galápagos Túrinn 2011

Frá Perú flaug ég til Guayaquil, stærstu borgar Ekvador. Ég hafði pantað mér siglingu um Galápagos eyjar gegnum ferðaskrifstofu tengda hostelinu sem ég var á þannig þetta var vonandi allt að ganga upp. Eina babbið í bátnum var að gemsinn minn vildi ekki tala við nein símafyrirtæki þarna, og var svo út Ekvadordvölina, og ekki fann Síminn neitt út úr því.
Snemma á fætur á sunnudagsmorgni og út á flugvöll þar sem tók við flug til Baltraflugvallar á Galápagos. Þar tók við stutt rútuferð niður að lítill bryggju, 2ja mínútna sigling yfir lítið sund milli eyja og þá var ég kominn á norðurströnd Santa Cruz eyjar og þaðan var um 40 km ferð með rútu til Puerto Ayora, 10 þúsund manna bæjar á suðurströndinni og stærsta bæjar eyjanna.
Ég hafði pantað flugin á undan bátsferðinni og hafði haft vaðið fyrir neðan mig hvað tímasetningu varðaði og átti ekki að halda á hafið fyrr en á mánudag. Því var fyrsta mál á dagskrá að finna hótelherbergi og tókst það með ágætum, svo vel að ég bókaði það líka fyrir þær tvær nætur sem ég þurfti að bátsferðinni lokinni.
Á mánudeginum var ég mættur á hádegi út á bryggju en enginn var að taka á móti mér. Þóttist ég þó sjá bátinn minn, Yate Darwin. Leið og beið og loksins brá ég mér frá og fann síma og hringdi á ferðaskrifstofuna sem tékkaði á málinu og sagði mér að taka leigubát út á Darwin. Sem ég kom niður á bryggju sá ég hóp fólks í björgunarvestum merktum Darwin og stóð heima þar voru samferðamenn mínir sem höfðu tafist vel við að komast frá flugvellinum vegna flugtafa. Þannig að ég komst um borð.
Fyrsta daginn var dagskráin einföld. Farið var frá Puerto Ayora í rútu upp í hæðirnar á Santa Cruz eyju og farið í skjaldbökuskoðun. Það var stórfenglegt að sjá þessa hægfara risa í sínu eðlilega umhverfi. Mikil vinna hefur verið unnin í björgun sem flestra tegunda þeirra, enda ein eða fleiri tegund á hverri eyju. Sú vinna er unnin í Darwin rannsóknarstöðinni sem ég kem að síðar.
Í fyrsta en ekki síðasta skipti komst maður að hversu laus dýrin þarna eru við styggð. Ef ekki væri fyrir reglur þjóðgarðsins sem nær um stærstan hluta eyjanna væri eflaust svo ekki, en bannað er að koma nær dýrum en nemur 2 metrum. Kom fyrir að maður var aðeins nær en enginn í mínum hóp braut reglur illa.
Síðan var haldið til baka í bátinn, kvöldverður snæddur og ég fór snemma í háttinn eftir að hafa gripið eina sjóveikipillu sem voru þarna í skál eins og hvert annað nammi. Ekki fann ég þó til sjóveiki, en um nóttina var siglt til næsta áfangastaðar, sem var Rapida eyja.
Þar var byrjað á að ganga um eyjuna, okkur sýnt hálfsalt lón sem áður var flamingóa aðsetur en sæljónin höfðu eyðilegt það með að róta upp jarðvegi og breyta því. Næst kom okkur skemmtilega á óvart þegar ungur Galapagosfálki settist í tré rétt við okkur og hreyfði sig ekki þó við gengjum í kring og tækjum myndir í gríð og erg.
Galapagos 068
Annað markvert var auðvitað landslagið sem minnti um margt á Ísland, t.d. móbergsfjallið sem var hálf niðurbrotið nálægt bátslæginu okkar.
Eftir gönguferðina var fyrsta snorklferðin og komst maður þá í kynni við alla þá litfögru fiska sem þarna svömluðu um. Vatnið var ofurtært og mikil upplifun.
Síðan um borð, smá hvíld, hádegisverður og siglt til Puerto Egas. Bátnum fylgi tugur freigátufugla sem sveimuðu yfir, en lentu fæstir.
Í Puerto Egas var sama dagskrá, ganga og snorkl.
Nú komst maður verulega í kynni við sæígúönurnar, sæljónin og loðselina. Það er eitt að vera sagt að dýr séu í góðum felulitum, nokkuð sem manni finnst oft ekkert augljóst í náttúrulífsmyndum, enda fókuserað vel á þau en ég er enn steinbitoghissa á að enginn í hópnum hafi stigið á iguönu, svo vel falla þær að klettunum. Jafnvel stórir hópar hverfa.
Á snorklinu sást sama og áður og síðan rákumst við á sæljón.
Aftur um borð, matur, og um kvöldið var stímt á næsta stað, Bartolomé eyju.
Galapagos 228
Gangan þar var upp á hæsta punkt og sást þar víða að. Þetta var að mörgu leyti afskaplega íslenskt landslag, enn lítt gróið. Snorklið var frábært, sáum mörgæsir og sæljón og margt fleira. Sem fyrr var þetta eins og að synda í fiskabúri með ótrúlegri litadýrð fiskanna.
Síðari áfangastaður dagsins var Kínahatturinn, Sombrero Chino. Er það bara ég eða lítur þetta út eins og Eldborg?
Galapagos 2 046
Þar voru fleiri selir og sæljón og allar tegundir hrauns. Í snorklinu var hins vegar að líta sæskjaldböku, syndandi igúönu, tvo litla hákarla og fleira.
Enn var snæddur kvöldverður og síðan siglt um nóttina á síðasta áfangastað , Isla Seymour. Dagurinn var tekinn eldsnemma enda þurfti að koma flestum í flug, en á þessu rölti var tvennt sem skipti máli, að sjá bláfætta búbba, bluefooted boobies, og freigátufugla með þandan rauða belginn. Hvort tveggja tókst með ágætum, auk fjölda köngulóa, landígúana, og sæljóna.
Galapagos 2 108
Síðan var lent við Baltra, farið í rútu á flugvöllinn þar sem flestir fóru, en ég fór til baka sömu leið og fyrsta daginn til Puerto Ayora þar sem ég eyddi næstu tveim dögum í rólegheitum.
Eina dagskráin var að fara í rannsóknarstöð Darwinstofnunarinnar sem er í Puerto Ayora. Þar eru aldar upp skjaldbökur og igúönur til að sleppa á heimaeyjunum og hefur tekist mjög vel.
Nema með aumingja Lonesome George sem er eina skjaldbakan sem á lífi er af Pintueyjaskjaldbökum. Hann er um 100 ára gamall og reynt hefur verið að kynna hann fyrir skjaldbökum af annari tegund en hann hefur lítinn áhuga og í eina skiptið sem fylgdarskjaldbaka hans hefur verpt urðu engir ungar úr.
Síðan flaug ég til Guayaquil á laugardegi, eldsnemma á sunnudegi til Bogotá þar sem ég er nún á flugvellinum og bíð eftir áframhaldandi flugi til Caracas

Mánudagur
Flaug frá Lima til Iquitos, hinu megin við Andesfjöllin. Eins og venjulega á ferðalaginu þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af útsýninu enda fékk ég ekki gluggasæti.
Þegar til Iquitos var komið minnti veðrið mig strax á hvar ég var, heitt og mollulegt. Ég var búinn að bóka ferðina mína, og á vellinum var tekið á móti mér af fulltrúa fyrirtækisins Explorama og ég og aðrir farþegar á vegum þeirra vorum keyrð í fornfálegri rútu með tréyfirbyggingu og öllum gluggum rennt niður í falsið til að fá smá kælingu.
Iquitos 01
Það var ljóst hverjir áttu samt göturnar þarna, hvert sem litið var var fullt af motocarros, eða tuk-tuks eins og þeir sem farið hafa til Suðaustur Asíu þekkja mótorhjólavagnana. Farið var með okkur niður að á og við drifin um borð í bát og siglt út á fljót. Fyrsti viðkomustaður var Ceiba Tops, fínasti staðurinn sem Explorama býður upp á, ég átti eftir að kynnast honum aðeins síðar. Síðan vorum við tveir eftir, ég og gamall Ástrali, sem fórum á næsta stað, Explorama búðirnar. Þær eru frekar beisik, en þó var rennandi kalt vatn, baðherbergi með sturtu og salerni ensuite. Síðan óvænt ánægja, nettenging í matsalnum. Þar voru líka einu rafmagnstenglarnir. Lúxus 🙂
Amazon 018
Þegar við vorum búnir að koma okkur fyrir vorum við drifnir í fimm mínútna göngutúr til þorps innfæddra. Það var þó í raun bara sýningarþorp, strákofar í gamla stílnum og notaðir til að reyna að selja dót, t.d. blásturpípur og örvar (sem öldungur þorpsins sýndi okkur hvernig eru notaðar) og fleira glingur. Ég keypti ekkert en fyrir þarna var hópur Kana sem keypti slatta þannig að ég var með minna samviskubit. Í ljós kom að þetta var skólaferðalag 11 og 12 ára krakka. Í samtali síðar um kvöldið viðurkenndu pabbarnir að þetta var nú enginn fátæklingaskóli, besti einkaskólinn í Kansas City sem var þarna á ferð.
Á eftir þorpsheimsókninni tók við heimsókn í sykurreyrbrugghús sem var þarna rétt hjá. Okkur var sýnt hvernig reyrinn var pressaður með 100ára+ gamalli pressu, knúinni af ösnum, eða fólki í þetta skiptið, og síðan var okkur boðið að smakka sitt hvað af brugginu.
Síðan var haldið heim og hlaðborðskvöldverður tók við, síðan smá skrepp á barinn. Ég hafði kynnst þarna strax enskum, eða öllu heldur velsk/kínversk-malasískum læknanema sem var þarna til að rannsaka og taka viðtöl við þorpsbúa nærliggjandi þorps um sníkla og við tókum tal við nokkra af foreldrunum, pabbana aðallega, sem voru ferskir á barnum og við tók smá briddskennsla. Ágætt kvöld og síðan var gengið út á herbergi eftir timburgönguleiðunum, allt byggt vel upp enda flæðir þarna vel um, við vorum enn á blautum tíma og gátum siglt út litla hliðará sem búðirnar eru við sem eru oftast ársins þurrar. Lýsingin var olíulampar með sitronella lykt til að fæla frá flugur og sama inni á herbergjum. Síðan var skriðið undir þéttriðið moskítónet til svefns. Morguninn var tekinn snemma og við tveir sem höfðum komið með fluginu var skeytt í hóp með fjögurra manna þýsk/indverskri fjölskyldu og við vorum síðan saman þessa daga. Fyrsta mál á dagskrá var veiðiferð. Farið var niður ána og síðan aðeins upp hliðarána Tambo sem rennur þarna í Amazon. Farið var upp smá sprænu sem var róleg og mjó og farið að renna fyrir.
Amazon 098
Allir fengu amk einn pirana fisk á færið en þeir voru flestir litlir og fengu líf en nokkrir voru teknir með heim. Þeir voru síðan steiktir í hádeginu en fyrir mistök framleiðslumanna fengu þýskt par þá frekar en þau þýsk/indversku sem höfðu veitt þá stærri. Þetta par datt ekki annað í hug en að gúffa þá í sig án frekari pælingar. Gátum þó bjargað tveimur þannig að litlu strákarnir 2 fengu smá smakk.
Eftir hádegið var farið að reyna að finna höfrunga. Á morgunferðinni höfðum við séð tvo gráa höfrunga í yfirborðinu og við vorum svo heppin að á stað sem leiðsögumaðurinn hafði áður séð þá var hopur af bleikum höfrungum. Þeir gerðu lítið meira en að rétt koma í yfirborðið… en samt gaman.
Síðan var farið inn í hliðarárnar, og á endanum enduðum við í litlu stöðuvatni, sem eins og allt þarna í kring fer alveg eftir árstíð hvað er stórt. Það er svokallað svart vatn, dökkt á lit og mjög súrt. Þar sáum við m.a. stórar vatnaliljur og á leiðinni amk eitt risaletidýr.
Kvöldið var svipað nema bandaríski hópurinn var farinn í næstu búðir og við Siân vorum tvö á barnum. Kvöldið fór aðallega í umræður um kosti og galla mismunandi menntakerfa 🙂
Eitt af því eftirminnilegra þarna voru fjórir macaw páfagaukar sem höfðu áður verið í eigu búðanna en hafði verið sleppt, þeir komu þó þarna á hverjum degi. Einn virtist vængbrotinn, en hinir virtust mjög hjálplegir honum og vernduðu hann ef einhver ætlaði að nálgast hann um of.
amazon 026
Snemma farið í háttinn enda var ræs eldsnemma til að fara í næstu búðir, ExplorTambo sem voru við Tambo ána sem fyrr var nefnd. Ferðin tók um einn og hálfan tíma og við tók morgunmatur. Bandaríski hópurinn var þarna enn. Í þessum búðum var aðbúnaður enn meira beisk, sameiginlegir kamrar og rennandi vatn í einum vaski. Þó var rafmagn og nettenging í matsalnum. Eftir morgunverðinn var farið í 45 mínútna göngu gegnum frumskóginn að trjátoppagöngunni. Þar er búið að smíða haganlega palla í trjátoppunum og hengibrýr á milli. Hæst er farið í um 85 metra hæð. Stórfenglegt útsýni og ágætis lofthræðslumatur. Því miður er dýralífið lítið þarna þegar svona langt var liðið á morgun og farið að hitna, en engu síður svakaleg upplifun. Fórum síðan aðra leið til baka og tókum um klukkutíma. Ótrúlegt að rölta svona gegnum alvöru frumskóg. Hádegismatur í búðunum og síðan fengum við klukkutímafyrirlestur frá lyflækni nærliggjandi sem er umsjónarmaður grasagarðs sem þarna er. Hann er alvöru ‘medicine man’, treystir á grös og seyði náttúrunnar og sem hluti af náminu frá fyrirrennaranum er reglulega farið út í skóg og neytt ofskynjunarseyðis sem sýnir þeim hvaða lyf og plöntur henta. Uhuh. Nákvæmlega. Ég treysti HÍ betur… Við fengum ágætis fararstjóra frá búðunum, snákaveiðandi fugl sem er alveg stolið úr mér hvað heitir, hann fylgdi okkur af kostgæfni fram og tilbaka. Er víst vanur þessu.
Síðan tók við ferð til baka í búðirnar okkar, afslapp og eftir kvöldmat var síðan nætursigling um lítinn læk bakvið búðirnar, rerum á litlum kanó í um klukkustund, sáum reyndar fátt en heyrðum þess meira. Gaman og spúkí.
Einn drykkur á barnum enda skuldaði ég þjóðverjanum frá því fyrr umdaginn þegar kókþorsti í ExplorTambo var mikill en minna fór fyrir að ég hefði veskið með mér.
amazon 035
Morguninn eftir var síðasti dagur og aðeins eitt á dagskrá, ferð á Apaeyju. Þar er prógramm í gangi til að viðhalda og vernda apastofna og þeir eru þarna hálfvilltir, fóðraðir en samt frjálsir og mannelskir. Síðan farið í Ceiba Tops. Þar er lúxus, herbergin lokuð með loftkælingu, lúxus baði og heitu vatni í sturtunni. Í Explorama var ekkert loft í herbergjunum, þau í raun bara skilrúm og síðan sást beint upp í þakið sem var sameiginlegt öllum herbergjum, í raun hægt að klifra yfir skilrúmin í næsta herbergi. Þakið var auðvitað ofið úr laufum. Ekkert svoleiðis í Ceiba Tops. Svo var auðvitað sundlaug. Við Ástralinn vorum á leið til Iquitos en fjölskyldan átti eina nótt eftir. Öll fengum við þarna herbergi til afnota, það var frábært að komast í heita sturtu. Síðan var hádegisverður og við tveir héldum síðan til Iquitos en hin fóru til baka til Explorama.
Ég atti ekki flug fyrr en daginn eftir þannig ég hafði fundið mér hótel í Iquitos og kom mér þar vel fyrir og slakaði á. Það var þó verið að byggja við hótelið og mikil hamarshögg. Ég lét það ekki á mig fá, og ekki heldur mikla rigningardembu sem ég vaknaði við er leið að miðnætti. Ekki tókst þó betur til en allt fór að leka og þegar ég rumskaði næst var allt á floti í herberginu. Ég fékk annað herbergi og sofnaði aftur, eftir að hafa dreift dótinu mínu til þerris, erfitt í rakanum. Morgunin eftir fór ég út á verönd á annarri hæðinni og sá þá ástæðuna, viðbyggingin var ofan á hótelið og beint fyrir ofan fyrra herbergið mitt var steypt hæð án glugga og því auðskilið hversvegna leikið hafði úr loftinu.
Herbergið mitt
Ég kláraði að þurrka mitt dót og hótelþernurnar skelltu einhverju í þurrkarann fyrir mig. Kennir manni að skilja föt eftir á gólfinu og láta bakpokann liggja!
Síðan út á flugvöll (auðvitað með motocarro!) og aftur til Lima. Gisti á sama litla hostelinu rétt hjá flugvellinum og ég hafði gist á við komuna til Perú og síðan morguninn eftir til Guayaquil í Equador.

Perú – Puno og Lima

Posted June 7th, 2011. Filed under Uncategorized

Ég hafði þegar hér var komið sögu fengið nóg af rútum og á miðvikudeginum var ég því með bókað flugfar til Juliaca við Titikaka vatn. Það gekk áfallalaust og síðan var rúta til Puno, aðalbæjarins við vatnið. Ég komst á mitt hótel og sofnaði sáttur. Morguninn eftir bókaði hótelið mig á ferð út á aðal ferðamannaaðdrátt vatnsins, fljótandi eyjarnar Uros. Þarna hafa um aldaraðir búið heimamenn á eyjum sem búnar eru til úr sefjum og reyr, grunnurinn er skorinn úr þéttum fljótandi reyr og síðan dreift nýjum reyr yfir eftir þurftum.
Þetta var þægilegasta ferð. Skemmtilegur leiðsögumaður og mjög áhugavert mannfélag sem þarna býr. Ágætis hópur farþega sem ég spjallaði mikið við, meðal annars hópur Argentínumanna sem hafði mikinn áhuga á plönum mínum um frekari ferðalög. Þó kalt hefði verið um nóttina hlýjaði sólin vel og það var funheitt þarna.
Uros Islands 050
Þegar heim á hótel var komið tók við afslöppun og síðan leiddi Feisið í ljós að Marcus og Elena frá í Nasca voru í Puno og þáðu félagsskap í kvöldverð.
Puno 01
Gaman að hitta þau aftur. En nú var maginn aftur farinn að stríða, og matarlystin var engin. Morguninn eftir var ég ekki alslappur, hafði af aksturinn út á flugvöll en þurfti að nýta mér pokann góða í fluginu til Lima.

Í Lima átti ég bókað hótel í Miraflores, sem kvað vera eitt af bestu hverfum Perú. Ég gat ekki nýtt mér það á föstudeginum en vaknaði hress á laugardeginum og dreif mig út. Var reyndar aðeins meira í útjaðri hverfisins en ég hélt, en tuttugu mínútna gangur meðfram ströndinni var hressandi. Þarna var nóg af flottum háhýsum og augljóst af skokkurunum að þarna var ekki fátækasta fólk Perú. Í raun var þetta í fyrsta skipti síðan ég fór frá London að ég var staddur einhvers staðar þar sem ekki var augjóst að ég var ekki í ríku landi. Eftir öll magaævintýrin lagði ég ekki í neitt flóknara en borgara í hádeginu og hélt síðan heim. Var frekar vansvefta og lagði mig í eftirmiddaginn en fékk mér síðan heimsenda pizzu í kvöldmat. Ég hef sjaldnast verið mikið fyrir að fara einn út að djamma í ferðum mínum og breytti því ekkert þetta kvöld.
Sunnudagurinn fór í magann og nú lét ég loks verða af að gera eitthvað í því, fór á bráðamóttöku og komst auðvitað að því að ég væri með sýkingu. Þetta startstopp á þessu hafði platað mig þannig ég hafði ekki gripið til sýklalyfjanna sem ég var með, en læknirinn var auðvitað ekki í vafa og ég hef brutt sýklalyfin síðan. Tveir dagar liðnir þegar þetta er skrifað og so far so good!! Biðst eiginlega afsökunar á að segja frá… en þetta er hluti ferðarinnar!
Auðvitað gerði ég síðan ekkert annan þann sunnudaginn, en á mánudeginum var komið að frumskógarævintýri ferðarinnar.

Perú – Machupicchu

Posted June 7th, 2011. Filed under Uncategorized

Lestin til Machupicchu fer frá Poroy, sem er um 20 mínútna leigubílsferð frá Cusco. Þangað var ég kominn um hálf sjö á mánudagsmorgni til að taka Vistadome lestina sem er með sérstökum útsýnisgluggum til að njóta útsýnis bæði til hliðar og upp, enda er farið um djúpa dali þar sem fjöllin gnæfa yfir. Verð að segja meira að segja íslenskt landslag bliknar í samanburði.
Machu Picchu 016
Þó leiðin sé ekki nema um 97 mílur tekur ferðin um þrjá tíma enda hægt farið.
Þegar til Aguas Calientes var komið… eða Machupicchu Pueblo eins og menn vilja nú víst kalla þorpið byrjaði ég að finna skrifstofuna þar sem aðgöngumiðar að Machupicchu eru seldir og keypti mér tvo, einn fyrir hvorn dag. Dýrt, en þess virði. Síðan fór ég að finna herbergið mitt. Fínt útsýni þar, beint á foss í ánni sem rennur gegnum þorpið. Hafði áhyggjur af árniðinum, en það kom á daginn að það var ekki vandamál þegar glugganum hafði verið lokað.
Þá var kominn tími á að drífa sig út. Fór og keypti tvo rútumiða, til að vera tilbúinn daginn eftir og síðan tók við hálftíma rúta upp fjallið til Machupicchu sem er um fjögurhundruð metrum hærra en þorpið er. Keypti mér síðan strax gæd til að lóðsa mig um svæðið, fékk hann útaf fyrir mig. Kostaði auðvitað sitt, en hann vann fyrir kaupinu sínu, sagði frá öllu sem segja þurfti og tók myndir.
Machu Picchu 059
Einfalt er að segja frá því að heimsóknin stóð undir væntingum. Stórfenglegur staður og ótrúleg mannvirki, ekki síst þegar litið er til þess hveru fáir bjuggu þar í raun og veru.
Samt er ég eiginlega á því að Tikal sé í raun jafn stórfenglegur staður. Ég er bara feginn að ég kom á báða staðina í sömu ferð. Forréttindi.
Fór niður af fjallinu eftir um þrjá og hálfan tíma og hitti Kana í rútunni sem bentu mér á að tila ð komast sem fyrst upp daginn eftir væri ráð að vera kominn í rúturöðina um hálfsex leytið. Gædinn hafði bent mér að að sólarupprás væri nokkru fyrir sjö.
Ég fór að þessum ráðum og í ískulda um hálfsexleytið var ég í röðinni, um tvö hundruð manns á undan mér. Vildi svo til að gædinn minn kom þarna á sama tíma og hló nokkuð að mér fyrir að finnast kalt.
Ég var síðan kominn upp uppúr sex og beið síðan sólarupprásar. ótrúlegt nokk hitti ég þarna síðan James þann sem ég hafði reddað gistiheimilinu fyrir í Lima nokkrum dögum áður! Hann hafði gengið upp.
Eyddi ég síðan næstu þrem tímum þarna, en því miður fór að gera vart við sig magakveisa sem átti eftir að endast nokkuð. Ég missti t.a.m. af því að sjá sólina koma upp fyrir næsta fjall þar sem ég þurfti að skeiða á salerni. Dagurinn versnaði síðan, og ég var ekki hressasti pilturinn í lestinni í eftirmiddaginn en eftir nokkrar hremmingar róaðist þetta og þegar ég kom til Poroy var ég orðinn nokkuð góður. Ég hafði ákveðið að kuldinn á gistiheimilum undanfarinna daga hafði verið nægur og passaði að finna mér hótel í Cusco sem lofaði rafmagnsofni.
Það var því í hlýju og góðu herbergi undir góðri sæng sem Björninn hélt til hvílu á þriðjudagskvöldi.

Perú – Cusco

Posted June 7th, 2011. Filed under Uncategorized

Ekki að neinn taki eftir því en það er nokkuð á reiki með hvernig Nasca/Nazca og Cusco/Cuzco er skrifað. Mér sýnist heimamenn nota frekar ‘s’ rithátt, enda er sá ágæti stafur borinn fram slíkur hér, en ekki sem ðððð líkt og á Spáni. Þar sem ég lærði s-ið mitt í Guatemala en ekki á Spáni, ætla ég að halda mig við það
Þegar ég var að renna inn til Cusco var loksins komið netsamband aftur í rútunni og ég reyndi að finna mér laust gistiheimili á netinu. Sá eitt sem mér leist á en ekki var hægt að bóka það. Tók samt taxa þangað og fékk herbergi. Ágætt herbergi en kalt. Átti eftir að finna fyrir því.
Annars er lítið um dagana í Cusco að segja. Ég var með kvef og frekar slappur og var mikið undir teppum og sæng.
Brá mér þó út á laugardagsmorgni og keypti lestarmiða til Machupicchu Pueblo eins og menn vilja núna víst kalla Aguas Calientes.
Um hádegi á laugardag hélt ég síðan á The Cross Keys Pub til að sjá stórleikinn, United – Barcelona. Fékk mér þrjá öllara sem var nóg ásamt úrslitunum til að svæfa mig snemma þann daginn.
Annars skoðaði ég skammarlega lítið af bænum og borðaði ekki neinn sérstakan mat.
Cusco 01
Til Machupicchu hélt ég síðan á mánudagsmorgni.

Perú – Nasca

Posted June 7th, 2011. Filed under Uncategorized

Nokkrar færslur koma nú í röð fyrst ég hef trassað alveg að blogga síðan ég kom til Perú. Í staðinn fyrir eina stóra færslu ætla ég að skipta þessu eftir áfangastöðum. Ég kom til Lima síðla kvölds og fór á gistiheimili rétt hjá flugvellinum. Kippti reyndar með mér tveim Könum sem ég hitti á flugvellinum og vantaði gistingu og voru fegnir að komast í gistingu þar nærri enda báðir að fljúga til Cusco snemma daginn eftir. Matt til að kenna þar ensku og James til að leggja af stað til Machupicchu. Ég hins vegar fór hálftíma ferð um morguninn út á rútustöð og tók fína lúxusrútu Cruz del Sur til Nasca. Ferðin var um 6-7 tímar um miklar eyðimerkur. Rútan var sem fyrr segir þægileg, hægt að liggja nær flatur og WiFi netsamband þar sem GSM samband var. Ég kvíddi því lítið næturrútunni til Cusco.
Þegar til Nasca var komið keypti ég mer miða með næturrútunni og hoppaði síðan upp í næsta taxa og út á flugvöll. Keypti þar (dýran) miða í útsýnisflug um Nascasléttunni. Beið síðan þangað til nógu margir farþegar voru komnir og við flugum síðan í 30 mínútur og sáum allar helstu myndirnar. Kom mér helst á óvart að öll sléttan er þakin í línum, þó bara sumar séu myndir, mikið af beinum línum.
Nasca29
Þegar við komum til baka voru þeir farþegar sem höfðu bókað hjá flugfélagi A búnir að fá töskurnar sínar fram, en ég hafði verið hjá B en síðan skellt með hinum og sá ekki töskurnar. Þurfti því að hlaupa inn í flugstöð, en vildi ekki betur til að þeir voru að tjarga þar fyrir framan, án merkinga, ég sá ekki að eitthvað var að fyrr en ég var kominn á flug og skall í jörðina, aðeins laskaður og ágætlega tjargaður. Náði að æfa skammaryrðin á spænsku alveg ágætlega næstu mínútur, en fékk varla svo mikið sem afsökun og hundskaðist í bæinn aftur í sama taxa.
Rölti svo um miðbæ Nasca, sem er agnarsmár uns ég hitti aftur austurrískt par sem hafði verið í vélinni með mér, Marcus og Elenu, og fór og borðaði með þeim.
Síðan á rútustöðina kl 8.30 í tæka tíð fyrir rútuna kl 9.30. Komst þá að því að miðinn minn var daginn eftir! En… rútan þá um kvöldið var um miðnættið! Fékk þessu breytt og hékk í reiðileysi og leiðindum næstu klukkutímana og síðan í rútuna. Sætið núna virtist örlítið styttra en fyrr um daginn og verður að segjast eins og er að þó ég svæfi að mestu næstu 14 tímana, voru þeir virkilega ömurlegir. Var með teppi en tókst samt að ná mér í kvef. En til Cusco komst ég á endanum.

Tikal

Posted May 25th, 2011. Filed under ferðalög frí Guatemala Túrinn 2011

Á föstudaginn var lauk dvöl minni í Xela. Ég er búinn að læra heilmikið í spænsku, ekki annað hægt með einkakennara. Tekur að vísu svolítið á, aldrei hægt að slaka á í tímum og leyfa öðrum að spreyta sig. Á móti kemur að ég réði vel ferðinni og lét kenna mér mikið í málfræði, enda flest einfalt að skilja með hliðsjón af öðrum málum. Orðaforðinn kemur svo.
Á föstudag fór ég til Antigua, aðal ferðamannabæjarins í Guatemala. þar er mikið um gamlar byggingar, og rústir, enda var borgin áður höfuðborg, en yfirgefin að mestu eftir mikla jarðskjálfta á 18. öld. Falleg og flott, en mjög túrístísk og ég er ánægður með að hafa frekar lært í Xela, meira ‘alvöru’ finnst mér einhvern veginn.
Eldsnemma á mánudag fór ég síðan út á flugvöll og flaug norður í land, til Flores. Þaðan er um klukkutíma akstur til Tikal. Ég keypti pakkaferð þangað, og ákvað að gista á hóteli innan þjóðgarðsins, og skipta skoðunarferðinni í tvennt, eftirmiddags/kvöldferð og morgunferð.
Skemmst frá að segja að fáar ákvarðanir hafa verið betri. Þetta var í einu orði sagt stórfenglegt.
Ég var kominn á hótelið fyrir níu, og eyddi deginum að mestu í og við sundlaugina. Klukkan hálfþrjú var farið af stað og gengið inn á svæðið. Fyrstu rústirnar sem við fórum um voru frekar litlar en fljótlega var komið að brattasta hofinu sem við myndum skoða.
Tikal 029
Ég dreif mig upp, en fyrir lofthræddan var það meira en að segja það. Þó stiginn sé brattur var svosem allt í lagi að fara upp og niður, ég starði bara á vegginn og leit hvorki upp né niður. Þegar upp var komið var lofthræðslan öllu meiri!
Tikal 034
Útsýnið var þó stórkostlegt.
Tikal 041
Þetta var ekki síðasta hofið sem ég fór upp á og eftir þetta var lofthræðslan aldrei jafn mikil.
Nokkru síðar vorum við kominn inn á Gran Plaza, þar sem margar aðalbyggingarnar eru. Tvö hof eru þar andspænis hvort öðru og til hliðar eru miklar byggingar á svonefndum akrópólisum. Við fórum upp á annað hofið:
Tikal 071
og skoðuðum síðan akrópólísin. Þar sem algengara er að fólk komi að degi til og halla var farið af degi vorum við um tíma eini hópurinn þarna og það jók á stórfenglegheitin. Við sáum sólina setjast þarna og héldum síðan heim á hótel, í niðamyrkri.
Hópurinn sem hafði farið saman hafði smullið gersamlega saman og þegar heim var komið skelltum við okkur í laugina, tókum pina colada í laugina og slökuðum aðeins á, en fórum snemma að sofa, enda var ræs fyrir fjögur morguninn eftir til að labba þvert yfir allt svæðið til að komast að einu nyrsta hofinu til að horfa á dögunina.
Það var farið að bjarma af degi þegar við komum þar upp og hægt að grilla í næsta hof gegnum mistrið, fyrst um sinn
Tikal 107
En mistrið jókst eftir því sem á leið og birti. En sólarupprásin var aukaatriðið, að hlusta á skóginn vakna þar sem við sátum þarna fyrir ofan frumskóginn er gjörsamlega ógleymanlegt.
Tikal 113
Eftir að niður var komið voru frekar hof skoðuð. Því miður máttum við ekki fara upp á pýramídann sem notaður var til stjörnuskoðunar, það var bannað eftir að kona féll niður af honum og lést fyrir 2 árum.
Að lokum fórum við aftur inn á Gran Plaza og skoðuðum þann hluta akrópólis sem hafði orðið útundan daginn áður. Ekki laust við að ég væri orðinn ansi lúinn
Taking a nap on an Incan bed
Þegar heim var komið tók við góður morgunverður, laugin og síðan slakað á þangað til tími var kominn á að fljúga aftur til Ciudad de Guatemala þar sem ég gisti á ágætis gistiheimili í nótt og á svo flug til Perú kl 1 í dag

Fréttir frá Guatemala

Posted May 19th, 2011. Filed under ferðalög frí Túrinn 2011

Og ég sem ætlaði að vera svo duglegur að blogga…
Búinn að vera hér í Xela/Quetzaltenango í tæpar þrjár vikur og líður að brottför. Spænskunámið er fimm tímar á dag, með hálftíma hléi og satt best að segja er það ansi þreytandi og ég hef lítið gert annað. Þó brá ég mér af bæ um síðustu helgi, og byrjaði á að fara til Panajachel sem er við eitt fegursta stöðuvatn heims, Lago Atitlán. Vatnið er í dal sem umkringdur er eldfjöllum og eina frárennslið mun vera neðanjarðar.
Lago Atitlan
Því miður var verulegt mistur þennan daginn og ég ákvað að bjóða ekki sjóveiki byrginn heldur sleppa því að sigla til annarra þorpa við vatnið þar sem útsýnið myndi ekkert batna. En fallegt var þarna og gaman að eyða deginum.
Daginn eftir tók ég rútuna (túristaskutlu, ekki kjúklingarútu, held að bílveiki sé næsta örugg ef ég tæki hana) til Chichicastenango og rölti um sunnudagsmarkaðinn þar. Þetta mun vera aldagamall markaður, en í dag virðist mega skipta honum í tvennt, annars vega bása með fatnaði eða öðrum vefnaði, og hins vegar matarmarkað. Fyrrnefndi hlutinn er stílaður á túrista, en hinn síðari krefst að mér sýndist stálmaga þannig þar voru það heimamenn sem versluðu. Þetta er verulega meiri fjallabyggð en Xela og ljóst að heimamenn eru aðeins meira ‘orginal’, amk er hæðin nokkuð minni en hér í Xela.
Í síðustu viku skrapp ég líka til baðstaðar hér uppi í fjöllum,
Fuentas Georginas 006
Fuentas Georginas, þar sem heit uppspretta er notuð beint til að fylla nokkrar misstórar laugar. Vatnið flæðir á milli þannig að laugarnar eru misheitar. Sú stærsta, næst uppsprettunni var of heit fyrir mig að dýfa meira en stóru tá í, en sú næsta var mjög temmileg, enda líka köldu vatni þar bætt í. Auðvitað var síðan bara ískalt vatn í sturtunni. En það var mjög mjög ánægjulegt að komast aðeins í heitt bað, sturtan hér er ekki of heit, og líka mjög traustvekjandi að sjá rafmagnssnúruna liggja inn í sturtuhausinn.
Annars liggja nú næstu skref nokkurn veginn fyrir hjá mér. Á föstudag held ég til Antigua, verð þar um helgina, vakna eldsnemma á mánudag til að vera skutlað út á flugvöll í Guatemalaborg þaðan ég sem flýg til Flores og eyði 2 dögum í Tikal, gisti í þjóðgarðinum og tek sólarupprásarferð daginn eftir, flýg síðan til Guatemalaborgar á þriðjudagseftirmiddag og síðan flýg ég til Lima í Perú á miðvikudaginn kemur. Fyrstu dagarnir í Perú verða vonandi hektískir, blogga það þegar það kemur, vona það gangi bara vel.

Kúbudvölin

Posted May 3rd, 2011. Filed under ferðalög Kúba Túrinn 2011

Ég hafði nægan tíma á Kúbu til að skrifa bloggfærslur og færa þær svo yfir á á nettölvuna þegar ég fór á netið og birta síðan… en ég nennti því ekki. Þannig að í staðinn kemur hér yfirlit yfir hvernig var. Þannig það verður svolítið löng færsla
Ég fór föstudaginn 15. apríl frá London til Madrid og þaðan til Kúbu. Flugið til Kúbu var um 10 tímar og þegar til Kúbu var komið tók eyjan á móti mér með þessu líka prýðisfallega sólarlagi sem sást vel úr vélinni þegar við biðum eftir að komast frá borði. Einhvern veginn tókst mér að verða síðastur út úr vegabréfaskoðun en fékk hins vegar bakpokann minn strax og ég kom að bandinu, aðrir biðu lengur. Síðan tók við góður hálftími í biðröð eftir að skipta peningum, en á hótelið komst ég áður en of langt var liðið á kvöld. Fyrstu nóttina tók ég eftir að þó nokkuð hljóðbært var á hótelinu, og samtöl niðri á opna barnum bárust vel upp. Eftir það greip ég til eyrnatappanna.
Helgin fór að mestu í að sofa úr mér flugþreytuna en á mánudeginum byrjaði dansinn. Ég var þarna á vegum dansk/sænsks hóps þannig að ég var eini sem ekki talaði reiprennandi norrænu. Það kom aldrei verulega í koll mér, en gat verið óþægilegt.
Fyrri vikuna dansaði minn hópur á systurhóteli þessa um 10 mínútna gang frá og það var dansað frá 9.30 til 1.30, með hálftíma frímínútum
Fyrsta mánudaginn fór hópurinn saman í gönguferð um Havana, og sáum lítinn hluta af gömlu Havana, Vieja Habana. Daginn eftir var farið á Casa de la Música klúbbinn og dansað við dynjandi salsaband. Mikið stuð, og þar sem klúbburinn var opinn til 9 var nægur tími á eftir til að borða saman.
Kúba
Á miðvikudeginum tók ég mér frí en á fimmtudeginum var aftur farið að dansa. Á föstudeginum var síðan partí á hótelinu, enda tæpur helmingur hópsins þá að fara heim.
Kúba
Laugardagurinn fór í að ganga Vieja Habana þvers og kruss. Frá um 1980 er búið að vinna mikið verk í að endurgera hús í þessum hluta, og sumar götur og torg eru afskaplega flott. En það þarf ekki annað en að fara eina götu til hliðar til að koma þar sem ekki hefur verið gert upp og sést þá hversu afskaplega illa farin og þreytt hverfið er, en jafnvel á niðurníddum húsum sjást ennþá leyfar af forni fegurð. Það er afskaplega tilkomumikið að ganga þar um.
Vieja Habana y El Morro 015
Síðan fór ég yfir í virkið El Morro, við hafnarkjaftinn og skoðaði mig þar um ásamt danskri fjölskyldu og dansfélaganum mínum kúbönskum, en við vorum öll með okkar sérstaka danspartner sem við dönsuðum við í tímum og fórum með út þegar farið var að dansa. Hún fór síðan með okkur á lítinn veitingastað þarna skammt frá til að snæða kvöldverð áður en haldið var heim á hótel.
El Morro
Á sunnudeginum bauð hún mér síðan að fylgjast með trúarathöfn sem hennar trúflokkur var með. Ég held að sú uppákoma verðskuldi sérfærslu, frekar ólíkt íslenskri kirkjuferð!
Seinni vikan var frekar róleg, eftir að fækkaði í hópnum var breytt hópaskipan og ég dansaði þá á hótelinu mínu, alveg sáttur við að sleppa við þrammið yfir á hitt. Fór aðeins einu sinni út, á Casa de la Música aftur, og síðan var aftur partí á föstudeginum. Hafði ætlað mér að skoða mig betur um í miðbæ Havana á laugardeginum, en endaði á að sitja við laugina allan daginn og slaka á. Á sunnudeginum flaug ég síðan til Panama City og þaðan til Guatemala City og tók síðan rútu í fjóra tíma til að koma hingað til Quetzaltenango, eða Xela eins og bærinn er nú frekar kallaður.
Það er alveg vert að koma á framfæri að Kindle er alger bjargvættur í svona ferðalögum, styttir stundir heilmikið, stundum of mikið, án þess að maður þurfi að draga með sér 10 kíló af bókum.
Annað sem kom skemmtilega á óvart var að það var gervihnattarsjónvarp á hótelinu, þannig að enski boltinn fór ekki framhjá mér. Þökk sé tímamuninum tók ég þó ekki mjög eftir að eitthvað brúðkaup hefði verið þarna síðasta föstudaginn, þó aðeins á fréttastöðvunum.

London fyrsta stopp

Posted April 12th, 2011. Filed under ferðalög frí Túrinn 2011

Kominn til London í nokkurs konar pittstopp áður en lengra er haldið. Byrjaði daginn á að fara í kúbanska sendiráðið og verða mér úti um Travel Card til að ferðast til Kúbu og fékk slíkt á 5 mínútum á 15 pund. Það var til nokkurs sem ég eyddi 585 SEK + 60 SEK í bankakostnað að kaupa slíkt frá Stokkhólmi. Vegna vesens á mér kom það ekki til landsins fyrr en ég var farinn og því þurfti ég að kaupa þetta hér.
Er annars búinn að kaupa upp hálft apótek hér af nauðsynlegum lyfjum og slíku og ætti að vera við flestu búinn.
Svo er það bara United – Chelsea í kvöld, líklega á einhverjum nærliggjandi pöbb.

Reisubókarkorn

Posted April 10th, 2011. Filed under ferðalög frí Túrinn 2011

Björninn skríður nú úr blogghýði… eða í blogghýðið, eftir því hvernig á það er litið.
Held á morgun til London til að hefja fárra mánuða reisu um Rómönsku Ameríku[1] og því skyldugur til að festa á raf helstu atriði ferðarinnar. Að vísu má búast við stopulum færslum fyrstu vikurnar enda hefst ferðin í London þar sem er fátt bloggvert, og síðan verður haldið til Havana og þar er ekki ljóst hvað netsambandið gefur mér mikið færi á uppfærslum. Vona þó hið besta.
Planið er ekki mjög fastsett nema hvað að tvær vikur fara í stífar dansæfingar á Kúbu, og síðan þrjár í spænskunám í Quetzaltenango í Guatemala. Eftir það er frjáls tími.
[1] og er auðvitað búinn að vera að rifja upp latínuna mína til að auðvelda mér ferðina ©Dan Quale.

6. febrúar 1958

Posted February 6th, 2011. Filed under united

They shall not grow old as we that are left grow old
Age shall not weary them, nor the years condemn
At the going down of the sun, and in the morning
We will remember them

Geoff Bent. Roger Byrne. Eddie Colman. Duncan Edwards.
Mark Jones. David Pegg. Tommy Taylor. Liam Whelan.
The Flowers of Manchester

The sung version.

United’s Greatest Players

Posted February 1st, 2011. Filed under English fótbolti united

The Republik of Mancunia comments on the poll done on the official United website which while not without all merit has Ryan at no 1, Ronaldo at 5, Scholes at 6, Becks at 7 and Wayne Rooney of all people at 10.

Oh well, voted for by kids and all that, but even the kids should know their history. Here’s my go at a top 10 in chronological order:

Roberts, Meredith, Edwards, Charlton, Law, Best, Robson, Cantona, Giggs, Ronaldo

Of those, Ronaldo is possibly the biggest question mark, since while certainly one of the best players to ever pull on the red shirt, he wasn’t here as long as some of the others. But in the end, he won us several titles and the Champions League and lit up Old Trafford, so in he goes.

As for Edwards, if Sir Bobby says he’s the greatest player he’s ever seen, that’s enough for me.

Ask me to pick my Top 3… I would have to say Best, Cantona, Edwards.

Netið og samfélag

Posted January 22nd, 2011. Filed under dægurmál netmál

Í þættinum ‘Víðsjá’ í gær(*) kom Ólafur Gíslason listfræðingur fram til að tjá sig um fjölmiðla og heimsmynd. Hann byrjaði á að tala um McLuhan og ‘fjölmiðillinn er fréttin’ og virtist halda fram að ‘netið’ sé eina fréttin á ‘netinu’ og ‘að vera ‘bundinn í þessum heimi’. Síðan tókst honum á einhvern undarlega hátt að koma fordómum sínum um samskipti á netinu að:

mannleg tilvera er orðin að einhvers konar mynd sem byggist á einhverjum netheimi sem er fullkomlega úr tengslum við það sem er raunverulegt

Síðan kom eitthvað um að maður hefði skófluna og hakann til að takast á við heiminn og þyrfti á sínum forsendum að takast á við hann, en núna hefðum við ‘ekkert til að standa á og það er skelfilegt’.

Það er búið að læsa okkur inn í net sem er net allt að því yfirskilvitlegs valds. Veröld netsins, það er hámark einsemdarinnar, að vera á netinu, vegna þess að þú ert ekki í raunverulegu sambandi við nokkra manneskju á netinu. Þú talar bara við sjálfan þig og einhverjar þúsundir manna sem kannske eru einhvers staðar, þú ert algerlega ??laus og tekur aldrei í hendina á því og horfir aldrei í augun á því og tekst þannig ekki á við heiminn á netinu eins og þú gerir t.d. með hakanum eða skóflunni.

Nokkuð ljóst er að Ólafur hefur aldrei tekið þátt í samfélagi á netinu, nema kannske spjallþráðum á Eyjunni, sem vissulega eru sorapyttur og má í raun þakka fyrir að enginn er hamarinn eða skóflan þar enda færu þá margir blæðandi frá. Ég hef tekið þátt í nokkrum samfélögum á netinu og alltaf hefur samfélagið orðið áfjáð í að hittast í raunveruleikanum, vináttubönd sem myndast á netinu færast yfir í raunheima hamarsins og skóflunnar, amk eins og Ólafur vill hafa það. Stundum er það jafnvel þannig að sterk vináttubönd haldast árum og áratugum saman þrátt fyrir að vinirnir hittist aldrei.
Á sama hátt held ég t.d. sambandi í gegnum netið við vini og ættingja sem ég þekki úr raunheimum. Er vináttan sú óraunveruleg og ómerkileg eða hvað? Þá velti ég fyrir mér hvort Ólafur væri jafn andvígur bréfavináttu þeirri sem Íslendingar fyrri tíma og héldu þannig sambandi milli landa og álfa, hvort sem það eru Hafnarstúdentar sem skrifa heim eða Vesturfarar sem halda í áratugi bréfasambandi við ættingja í gamla landinu.
Ég ætla ekkert að draga úr því að í mörg samskiptin á netinu eru grimmari og hvassari en væru nokkurn tímann í raunheimum en það dregur ekkert úr jákvæðu hliðunum.
Að lokum vil ég taka fram að ég er nokkuð viss um að ég fari ekki mannavillt þegar ég segi að Ólafur hafi verið fararstjóri í ferðum mínum til Ítalíu fyrir rúmum 20 árum og var án efa besti og skemmtilegasti leiðsögumaður á erlendri grund sem ég hef haft.
<viðbót: Þorsteinn Mar segir það sem segja þarf um hvernig haga á sér á spjallþráðum >


(*) Hvað er með þetta stef á bakvið, er það gert til maður gæti ekki hlustað á þáttinn? Gerði mér amk mjög erfitt að hlusta.

Babylon 5 og Gunnar Thoroddsen

Posted January 15th, 2011. Filed under Babylon 5 bækur sjónvarp stjórnmál

Það er ekki eins og ég hafi ekki nóg til að eyða tímanum í, eða horfa á í sjónvarpinu, en Making Light er búið að kveikja í mér. Þar á bæ er hafið enduráhorf á einhver… nei köllum það bara bestu sjónvarpsþáttaröð allra tíma, Babylon 5. Þannig að ég ætla að gera slíkt hið sama. Langt síðan ég horfði síðast á snilldina. Ætli þetta endist ekki vel fram á vorið?
Planið um að klára sem flestar bækur um helgina verður eitthvað slakara fyrir vikið, bunkinn af bókum sem ég er byrjaður á og kominn eitthvað áfram í er orðinn allt of stór og ætlunin var að grynnka á honum.
Kláraði þó ævisögu Gunnars Thoroddsen í gærkvöld. Nokkuð ánægður með bókina þó að ég finni á henni vankanta, svo sem að ekki sé nógu skýrt hverjar pólítískar áherslur hann hafði síðustu árin, og líka hefði kannske mátt skoða betur hvað áorkaðist í hans forsætisráðherratíð, nokkuð sem er rétt tæpt í einni setningu frá Svavari Gests í eftirmála. En engu að síður er þetta stórvirki og vel lestrarins virði

Smá músík á föstudegi

Posted January 14th, 2011. Filed under músík video youtube

Óþarfi að vera með einhverjar áfengisauglýsingar, sér í lagi þegar áfengið á ekkert skilið plögg, þannig að hér eitt uppáhaldslagið mitt núna í upphaflegri útgáfu