Síðasta rúgbýfærslan

Posted October 23rd, 2007. Filed under fótbolti rúgbí

Það er svo sem lítið að segja um úrslitaleikinn á laugardaginn var annað en að Suður Afríka klikkaði, hélt Englendingum í skefjum og vann 15-6, allt saman spörk. Reyndar var snertimark dæmt af Englendingum, en það var að því er mér sýndist rétt. En gargandi skemmtun var þetta ekki.
Svo kemur í ljós hvort bætist í þriggjalanda keppnina á næsta ári, vandinn fyrir Argentínu er hve margir leikmenn þeirra spila í Englandi og Frakklandi og ættu erfitt með að fá sig lausa.
Ég hvíli ykkur semsé frá rúgbý fram á næsta sumar en síðasti fróðleiksmolinn um þessa ágætu HM er svona: Vissuð þið að deildarkeppnin í Englandi hélt áfram á fullum krafti á meðan keppnin fór fram? Það er semsé bara verra að hafa fullt lið landsliðsmanna.
Í kvöld var klassískara sjónvarpsáhorf, fagurt að sjá United rústa Динамо Київ. Reyndar er ekki hægt að segja að Kiyv hafi veitt mótspyrnu, en þessi tvö mörk þeirra voru gjörsamlega óþörf.
Flott kvöld hjá United, næstum flottara hjá Arsenal. Ætli ég beri mig ekki eftir því að horfa á Arsenal – Liverpool á sunnudaginn, þarf að sjá hvernig þetta Arsenal lið ber sig að.

Það óvænta gerðist: það vænta gerðist

Posted October 15th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Loksins eitthvað eftir bókinni. Síðustu tíu mínúturnar í hvorum hálfleik gerðu útaf við Argentínu, og sigur Suður Afríku var mjög öruggur. Ég sá reyndar bara seinni hálfleik, kom inn rétt í þann mund sem tæpt snertimark Argentínu var dæmt löglegt og hleypti smá spennu í þetta, þannig að það var allt í lagi að horfa á leikinn.
Nú er bara að vona að Bryan Habana tryggi sér titilinn Maður Mótsins með toppleik móti Tjöllum, til þess er hann nógu skemmtilegur og góður. Ég meikaðaekki ef Jonny Wilkinson sparkar Englendingum aftur til sigurs! Englendingar viðurkenna reyndar vel að sigurinn á Frökkum á laugardag hafi ekki verið fagur eða léttleikandi, en úrslitin telja og það verður að viðurkennast að umsnúningurinn frá 0-36 tapi gegn Suður Afríku í fyrsta leik hefur ótrúlegur. En nú er nógu langt gengið og nema SA vanmeti þá gjörsamlega vegna þessa fyrsta leiks, þá á Suður Afríka að tryggja sér þetta. Áfram Boks!
En nú skulum við byrja vikuna á að skella okkur í ræktina. Maður þarf jú að komast í kjólinnfínu fötin fyrir jólin. Það er víst ekki nóg æfing að lesa bloggið hans Gunnlaugs, jafnvel þó maður svitni og ofandi við lesturinn.

Þögnin var æpandi

Posted October 12th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Já, mikið rétt, Shift-3 hittir naglann á höfuðið.
Ég horfði á seinni undanúrslitaleik laugardagsins síðasta síðla nætur eða á sunnudagsmorgni, nýkominn úr bænum eftir indælan kvöldverð hjá Hildigunni og Jóni Lárusi og frekari næturgöltri eftir það og var því ekki mjög vel vakandi. Ég gat engu að síður ekki afskrifað tap minna manna sem slæman draum, en var alls ekki í standi til að fjalla um málið daginn eftir.
Stutta útgáfan er auðvitað sú að Frakkar unnu, að mestu verðskuldað þó að dómarinn hafi reyndar sent mann útaf (10 mín. brottvísun) að ósekju og síðan misst af sóknarbroti þegar Frakkar skoruðu seinna snertimark sitt. Langa útgáfan er í nýsjálensku blöðunum alla þessa viku, en besta lýsingin er sú að Alsvartir hafi hreinlega ekki mætt til leiks. Enn einu sinni lofa þeir meiru fyrir keppnina með leik sínum en staðið er við þegar á hólminn er komið.
Það er því ekki að ósekju að síðasti laugardagur sé kallaður óvæntasti dagur í sögu íþróttarinnar!
Sunnudagurinn var eftir bókinni, og þó. Fiji stóð glæsilega í Suður-Afríku þó að mörk undir lokin hafi gert að verkum að úrslitin sýndu öruggan sigur Springboks. Argentína – Skotland var spennandi en Argentínumenn höfðu það.
Á morgun mætast því Englendingar og Frakkar og á sunnudag Argentína og Suður-Afríka. Ég ætla að spá óvæntum úrslitum áfram og horfa annan laugardag á úrslitaleik Englendinga og Argentínumanna.

England áfram!

Posted October 6th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Ótrúlegt en satt. Ástralir voru heillum horfnir, Englendingar vörðust af hörku og lokatölur voru 12-10. Endland spilar við sigurvegara kvöldsins, og fyrirfram hefði maður viljað þetta, en þetta skyldi þó aldrei vera fyrirboði fyrir kvöldið. Vonum ekki.

Frakkland – Nýja Sjáland

Posted October 6th, 2007. Filed under íþróttir fótbolti rúgbí

Sit hér og horfi á mína menn skora 2 mörk í deildarleik í annað skiptið á tímabilinu, þetta er allt að koma.
Þetta er auðvitað ekkert búið að vera gaman síðustu viku að horfa á eftir Víkingi niður, það verður nóg af rútuferðum á næsta ári, 8 ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið. Vonum hið besta.
En nú er loksins gervistríðinu lokið í HM í rúgbý. Í riðlakeppninni kom þó Argentína verulega á óvart, vann sinn riðil, skildi Frakka eftir í öðru sæti og Íra úti í kuldanum. Að öðru leyti kom einungis það á óvart að barátta Fiji skilaði þeim sigri gegn slöku liði Wales sem var heillum horfið í keppninni.
Suður-Afríka leikur því gegn Fiji á morgun og Argentína gegn Skotum. Suður Afríka vinnur og ætla má að Argentína vinni Skota.
Núna er hins vegar leikur Englands og Argentínu í gangi, endurtekning síðasta úrslitaleiks þegar England var heimsmeistari á síðustu sekúndu. Enginn ætlar hið sama í dag, Englendingar hafa verið afspyrnuslakir. Þegar fyrri hálfleikur er hálfnaður er staðan þó 6-3 fyrir Englandi, tvö víti gegn einu. Það breytist.
En það sem mestu máli skiptir er í kvöld. Tap Frakka þýðir að þeir þurfa að fara að heiman, og leika í Cardiff við besta rúgbýlið í heimi, Alsvart lið Nýsjálendinga. Helsta vandamál Alsvartra er að þeir hafa ekki leikið erfiðan leik í keppninni fram að þessu og því er þetta fyrsta þolraunin. Nýsjálendingar eru því sumir ansi óöruggir, minnast t.a.m. undanúrslitanna fyrir 8 árum þegar Frakkar unnu. Það hefur nefnilega verið svo í mörgum undanförnum keppnum að Alsvartir hafa verið langbestir í heimi milli heimsmeistarakeppna, en svo fallið úr leik þegar á hólminn er komið. Ég trúi því ekki að sú verði raunin, til þess eru mínir menn hreinlega of góðir.
En nú er flautað til loka á Old Trafford, fjögur mörk komin, United orðnir efstir og ég get skipt yfir á England – Ástralíu þar sem staðan er 6-10. Það er réttara.

Meira HM

Posted September 16th, 2007. Filed under íþróttir krikket rúgbí

Það eru fleiri HM í gangi, nú rétt í þessu voru Svarthettir að vinna Indland í fyrsta leiknum í milliriðlum í heimsmeistarakeppninni í tuttugu20 krikket, útgáfunni fyrir þá sem líður yfir þegar þeir heyra minnst á fimmdaga leiki og sofna yfir einsdags leikjum.
Svo var bara mynd í Mogga í dag úr England – Suður Afríku leiknum frá á föstudag, “Ekki fylgi sögunni” hvernig leikurinn fór, það kemur ekki á óvart að blaðamenn Morgunblaðsins kunni ekki að gúgla. Enda ekki í þeirra verkahring að miðla upplýsingum.
Keflavíkurferð á eftir. Taugarnar eru þandar.

Skyldan

Posted September 15th, 2007. Filed under íþróttir fótbolti rúgbí

Það segir svosem ýmislegt um íþróttina að lið númer 1 í heiminum sigrar lið númer 22 108 – 13 í heimsmeistarakeppni. En skyldusigur á Portúgal er að baki og nú eru menn að hafa áhyggjur af því að Alsvartir séu ekki með nægilega sterka mótherja í riðlinum til að búa sig undir útsláttir. Og þó, Skotar eru eftir, og aldrei að vita nema að þeir veiti smá viðnám. Ástralir eru smátt og smátt að brjóta niður Wales á Þúsaldarvellinum í Cardiff og þó ekki sé það algert burst enn, þá held ég að Þríþjóðirnar séu rækilega að stimpla sig inn í þessa keppni.
Ferdinand í síðasta leik, Vidic núna. WTF? Er United hið nýja Arsenal? Nei ætli það, hef fulla trú að við finnum aftur okkar létta og skemmtilega leikstíl. Nóg eftir og núna er komið að Evrópukeppninni, Nani og Ronaldo heimsækja fornar slóðir í Lissabon á miðvikudaginn.

Englandi rústað.

Posted September 14th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Kom heim frá London í eftirmiddaginn, í tæka tíð til að sjá Suður Afríku rústa Englendingum, 36-0. Auðvelt. Nú þarf England að vinna Samóa eftir viku, England ætti ekki að klúðra því, en það er ekki alveg eins öruggt ef Englendingar taka sig ekki saman í andlitinu eftir þessa upprúllun.

Ítölsk martröð

Posted September 8th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Það tók mína menn 1 mínutu og 3 sekúndur að skora fyrsta snertimarkið, núna eru 20 mínútur liðnar og staðan er 38-0. Þetta ætti að vinnast. Ég ætla ekki að fara að vorkenna Ítölum nema þetta fari yfir 100…
Sem sé, æðislegt!

Óvænt!

Posted September 7th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Óvænt úrslit strax í fyrsta leik! Púmurnar náðu að skora snertimark í fyrri hálfleik og leiða 17-9. Og þrátt fyrir japl jaml og fuður náðu Frakkar aðeins einu víti í síðari hálfleik og leikurinn fór 17-12. Eins og bíbísí segir, engin þjóð hefur tapað í riðlum og orðið meistari, og það er bara tímaspursmál þangað til Argentína verður með í annað hvort sexþjóða eða þríþjóða. Hið síðarnefnda liggur beinar við.
En þetta þýðir bara eitt. ‘Við’ mætum Frökkum í fjórðungsúrslitum. Nema eitthvað frekara óvænt gerist. Eins og t.d. að Írar taki Frakka? Þá verður kelkonnað duglega í híbýlum Parísardömunnar!

Heimsmeistarakeppnin byrjar

Posted September 7th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Tvær mínútur liðnar af fyrsta leiknum í þeirri heimsmeistarakeppni sem er númer þrjú á vinsældalistanum mínum. Fylgdist með minni fyrstu á eftirminnilegan hátt sumarið 1995, úrslitin voru auðvitað ekkert nema þjófnaður með matareitrun. Man minna eftir 1999 en fyrir fjórum árum gat ég fylgst betur með, nema þá var tímasetning leikjanna (og núna skorar Argentína fyrstu stig keppninnar) erfið.
Nú er ekkert til fyrirstöðu því að sjá sem flesta leiki, allt á skikkanlegum tíma og í riðlakeppninni eru nær allir leikir sem skipta máli um helgar.
Það sem er auðvitað verst er að 20 liða keppni með fjórum riðlum er ekki mikill vafi um það hvaða lið komast áfram (og Frakkar jafna). Það er ekki nema helst spurning um hvort Ítalía nái að skjóta Skotum ref fyrir rass.
Nú er auðvitað mál að kynna keppnina almennilega til sögunnar, þetta er auðvitað heimsmeistarakeppnin í rúgbí. Haldin í Frakklandi í þetta sinn (að mestu, Skotland og Wales fá að spila aðeins á heimavöllum) og ef Frakkar keppa ekki við Alsvarta í úrslitum (Argentína kemst aftur yfir) þá verða allir afskaplega hissa. Ítalía er nýbúin að fá að vera með í Fimmþjóðakeppninni, sem heitir núna Sex þjóða. Síðan er suðurhvels þriggjaþjóða keppnin og þá erum við komin með níu bestu þjóðirnar. Annars er það helst Argentína sem er með almennilegt lið, en Írland ætti að vera of sterkt fyrir þá í riðlakeppninni. Suðurhafseyjarnar líða fyrir að flestir bestu leikmanna þeirra enda hjá Alsvörtum eða Áströlum, en ég held í vonina að Samóa vinni England. Þá glotti ég.
Nema hvað, stuðningur minn er sem ætíð eindreginn með Alsvörtum sem eins og venjulega hafa verið með yfirburðalið milli keppna, en hafa verið með eindæmum óheppnir eða klaufskir þegar á hólminn er komið. Nú er kominn tími á titil númer tvö og Daniel Carter sýnir að hann er langbestur.