Eftir leik næturinnar þegar Perú vann Nýja Sjáland 2-0 og tryggði sér síðasta sætið á HM er ljóst hvernig styrkleikaflokkunin lítur út fyrir dráttinn eftir 15 daga.
Svona líta þeir út, og liðum raðað eftir stöðu þeirra á styrkleikalistanum
Sú takmörkun verður á drættinum að mest tvær Evrópuþjóðir verða saman í riðli, og aðeins ein þjóð frá hverju öðru álfusambandi. Martraðarriðillinn Rússland, Króatía, Ísland og Serbía er því ekki möguleiki, og ekki Argentína, Úrúgvæ, Íran og Suður-Kórea.
En það er því hægt að láta sig dreyma góða og slæma drauma næstu tvær vikur.
Fyrsti styrkleikaflokkur
Liðin í fyrsta styrkleikaflokki eru lið sem við getum í besta falli vonast eftir jafntefli gegn og þó það hafi náðst gegn Portúgal í Saint-Étienne sællar minningar þá er jafnvel það draumur. Það er því fyrst og fremst að vonast eftir að lenda gegn lið sem er gaman að spila við og hitta skemmtilega stuðningsmenn
Þýskaland
Heimsmeistararnir. Frábært lið. Frábærir stuðningsmenn. Takk.
Brasilía
Verður Neymar nei, mar? Mæta Brasilíu á HM? Já takk.
Portúgal
Erum við ekki búin að þessu? Viljum við þá aftur? Myndu vilja hefna sín, væru vel stemmdir. Má alveg sleppa þeim
Belgía
Lið sem lofar miklu en hefur kannske enn ekki brillerað. Hittum skemmtilega stuðningsmenn þeirra í Lyon um árið. Lukaku og Fellaini fyrir okkur United menn. Ekkert ægilega leiðinlegt.
Pólland
Sterkt lið, og fullt af áhorfendum. Ekki draumadráttur en ekki slæmt
Frakkland
Hafa ekkert slakað á síðan þeir rústuðu okkur í fyrra. Frábært lið.
Rússland
Eru í efsta styrkleikaflokki út á gestgjafahlutverkið. Eru lægsta þjóðin í keppninni á styrkleikalistanum. Það væri frábær stemming að mæta þeim og það væri krafa um íslenskan sigur. Myndi auka möguleika okkar á að komast áfram til muna. Væri fagnaðarefni að dragast í riðli Rússlands. Það þýddi að auki að Ísland myndi sleppa við evrópskt lið úr 2. styrkleikaflokki, sem og Serba, sterkasta liðið í þeim fjórða. Reyndar yrði um mikil ferðalög að ræða, eins og myndin sýnir en Ísland gæti þá lent í ferðalögunum sem grænu, bláu, eða appelsínugulu línurnar sýna.
Annar styrkleikaflokkur
Hér eru eingöngu sterk lið sem erfitt væri að mæta, en að sama skapi skemmtileg lið.
Spánn
Ekki sama lið og var ósigrandi fyrir 4-8 árum en gríðarsterkt. Lendum ekki með Spáni í riðli nema vera með Argentínu eða Brasilíu líka og þyrftum þá litlar áhyggjur að hafa af því að komast áfram en skemmtanagildið væri að sama skapi augljóst.
Perú
Þetta er lið sem er hægt að vinna. Slefuðu fimmta sætið í undankeppninni, náðu bara jafntefli á útivelli gegn Nýsjálendingum. Flottasti búningurinn á mótinu. Þetta er ég til í! Þá væri einnig öruggt að við fengjum Evrópulið úr fyrstaflokki og myndum sleppa við Serba.
Sviss
Erfitt og leiðinlegt lið og stuðningsmennirnir? eru þeir ekki frekar boring? Fengjum þá samt Argentínu/Brasilíu úr fyrsta flokki sem frábæra skaðabót.
England
Nei takk. Ég er alveg laus við Englandsblæti og þeir væru í hefndarhug. Virðast ætla að ná að endurnýja liðið svolítið og yrðu erfiðir. Sama og fyrr með Evrópulið. Argentína og England saman í riðli er alltaf fjör, þannig að það gæti orðið áhugavert!
Kólombía
El Tigre og Hames gegn Ragga og Kára. ÚFF! Er fuglamaðurinn enn á lífi? Hann var á HM 2014! Spennandi og skemmtilegur en hörkuerfiður dráttur.
Mexíkó
Sýnd veiði en ekki gefin. Sterkt lið en líklega það lið sem Ísland myndi kannske helst vonast til að sigra. Þeir stuðningsmenn sem komast til Rússland myndu setja svip sinn á keppnina og væri gaman að hitta þau. Eini möguleikinn úr öðrum flokki sem opnar á að við lendum gegn Serbíu.
Úrúgvæ
Einn fyrir Stefán Pálsson og aðra rómantíkera, mig líka. Líklega eitt af þeim liðum sem ég vil helst mæta í þessum flokki, þó þeir hafi Bít. Voru í öðru sæti í undankeppninni í Suður Ameríku, hörkulið.
Króatía.
Nei! Neineinei. Nei takk. Búinn að fá nóg af Króatíu. Óspennandi og erfitt! Þó við höfum sigrað þá heima.
Fjórði styrkleikaflokkur
Serbía
Erfiðasta liðið, og „áhugavert“ að mæta serbneskum stuðningsmönnum í Rússlandi. Ef við mætum Serbum þá er ljóst að það yrði í riðli með Mexíkó og annað hvort Argentínu eða Brasilíu. Það væri sannarlega áhugaverður riðill.
Nígería
Erfiðir andstæðingar en að sama skapi væri þetta frábærlega gaman. Það yrðu alltaf fjöldi stuðningsmann og þetta yrði partí.
Ástralía
Nú erum við komin á þann stað að sigur er líklegri en hitt gegn andstæðingi þó aldrei sé hægt að heimta neitt. Ástralía myndi þýða að ég væri með nýsjálensku rúbbítreyjuna mína frá 1995 á kantinum!
Japan
Frekar óspennandi, en samt? Þekki ekki liðið, örugglega fjör á pöllunum.
Marokkó
Þetta væri gaman!
Panama
Sigur! ekkert annað um þetta að segja
Suður Kórea
Einn fyrir Tottenham fólkið, að öðru leyti óspennandi.
Sádí Arabía
Værum ekki í mikilli samkeppni á börunum frekar en gegn Marokkó. Skyldusigur.
Draumar og þrár
Það væri að sjálfsögðu draumurinn að komast áfram. Það er ljóst að okkar helsti möguleiki til þess er að mæta Rússum.
Þá koma eingöngu Mexíkó, Kólombía, Úrúgvæ og Perú til greina úr öðrum styrkleikaflokki. Af þeim eigum við mesta möguleika gegn Mexíkó og Perú.
Þá er útilokað að mæta Serbíu og því helst Nígería sem ég hræðist úr fjórða flokki
Setjum því upp möguleikann
Rússland
Perú
Ísland
Sádí Arabía
og það væri alls ekki óraunhæft að vonast til að verða í efstu tveim sætunum!
En það er margt fleira til. T.d. að mæta frægustu treyjum heims, þeim gulu, nú eða eftir að hafa séð Ronaldo í eigin persónu í fyrra að mæta Messi.
Brasilía
Spánn
Ísland
Nígería
væri riðill sem við færum kannske ekki frá með stig, en þvílík upplifun!
Við megum ekki gleyma að við fórum til Frakklands með raunhæfar væntingar og ég fyrir mitt leyti hefði ekki verið svekktur með þrjú 0-2 töp, svo fremi sem liðið hefði lagt sig allt fram. Nú gerum við sömu kröfur og ef riðillinn verður erfiður, nú þá er það bara svo.
Að eingöngu tvö Evrópulið verða saman í riðli útilokar leiðindi á borð við
Rússland
Króatía
Ísland
Serbía
og það eru í raun ekki margir hræðilegir möguleikar, því flestar samsetningar gefa okkur ýmist vinnanlega leiki eða spennandi mótherja. En ég myndi kannske ekki hoppa af gleði yfir
Pólland
Mexíkó
Ísland
Japan
og þó? Raunhæfur möguleiki á að komast áfram ef vel gengur? Þannig að ég myndi bara sjá gleði í þessu líka
Ég hlakka svo til fyrsta desember!!!