Hæð

Posted April 16th, 2008. Filed under fótbolti fjölskylda

Það var fermingarveisla í föðurfjölskyldunni á sunnudaginn, árlegur viðburður þar, en oftast bara ein, góð dreifing. Núna er ég því enn og aftur orðinn *næst* lægsti fermdi karlmaðurinn í fjölskyldunni. Mér er til efs að meðalhæð karlkynsafkomanda föður míns sé mikið undir einnogníutíu, við erum fjórir og svo sá nýfermdi sem erum undir 185 held ég. Fermingarbarnið frá í fyrra gnæfir nú yfir mig, og þess verður ekki langt að bíða að sá nýfermdi taki frammúr, hann er byrjaður á sprettinum og eldri bróðir hans er um 2 metrar. Þannig að þessar veislur vekja alltaf minnimáttarkennd. Bókstaflega.
Frægasti stuðningsmaður Luton á Íslandi bloggar um fall Luton og er eðlilega kokhraustur um að það sé gott að halda með litlu liðunum. Sem stuðningsmaður stórvelda bæði í Englandi og á Íslandi (þó það síðarnefnda hafi jú reyndar verið í smá síðdegislúr síðustu ár) þekki ég það ekki alveg, finnst mér gráupplagt að benda á þessa frétt: Aldershot kemst á ný í deildakeppnina. Næsti stórviðburður er síðan þegar AFC Wimbledon lumbrar á Milton Keynes Dons, þó að ekki gangi allt sem skyldi í vetur til að flýta fyrir því, og gæti verið að fyrr komi innrás FCUM í deildakeppnina. Stuðningur snýst um meira en áskrift að Sky, nefnilega.

Góður laugardagur

Posted October 28th, 2007. Filed under fótbolti fjölskylda skemmtun

Verulega góður dagur í gær. Hófst á ferð í ræktina (átak í gangi, gengur ekki illa), síðan var það Musteri Mammons til að græja gjöf. Var búinn að mæla mér mót við vin á Glaumbar og kom við hjá öðrum til að ferja hann þangað. Frú þess síðarnefnda kom í tæka tíð heim og við drifum okkur í bæinn og sáum okkar menn rústa ‘boro 4-1. Frábær fótbolti og spennandi að sjá að fremstu fimm menn okkar í leiknum eru allir 23 ára eða yngri. Ferjuðum einn bíl á Víðimel að leik loknum og svo var haldið heim. Kvöldið byrjaði kl.6 þegar mamma kom við og við fórum í veislu til að samfagna Möggu frænku að hafa loksins ákveðið að skilja við lögfræðideildina þrátt fyrir að henni hafi greinilega þótt ákaflega gaman að vera skráður nemandi! Maður þekkir aldrei of marga lögfræðinga.
Garðabærinn var lokaviðkomustaður kvöldsins, þrítugsafmæli yfirmannsins og þar var skemmt sér og dansað fram á rauðanótt í frábæru partíi!
Sem sé, geysigaman í allan gærdag, og eftirköstin lítil.
FC United vann reyndar líka góðan sigur í gær. Ekkert að því!
Og að lokum, fyrir þá fáu lesendur sem vita ekki af því, þá er ég á Facebook

Afmæli

Posted March 23rd, 2007. Filed under fjölskylda

Lítill uppáhaldsfrændi er tveggja ára í dag, vona að gjafirnar muni koma sér vel og virka eins og til er ætlast.
Maður verður jú að byrja snemma á uppfræðslu og trúboði.
Svo er spurning hvort maður gefi sjálfum sér eitthvað gott.

Indælt

Posted January 23rd, 2007. Filed under fjölskylda

Fátt er betra en að hitta góða vini sem maður sér of sjaldan. Þorsteinn frændi er á landinu í annað sinn á skömmum tíma og í tilefni þess bauð mamma í hrygg. Þetta var indælt kvöld, og vonandi hittumst við meira á næstu dögum