Við skildum við Björninn þar sem hann hafði misst af loftbelgsferð dagsins og beið þess að komast að því hvort hann gæti fært skoðunarferð föstudagsins fram til miðvikudags og nýtt daginn.

Skemmst er frá að segja að skoðunarferðin var bara alls ekki bókuð, þetta var fyrir lágmark tvo, og ekkert hafði verið dregið af korti, þrátt fyrir staðfestingarpóst

Og loftbelgjafélagið átti ekkert pláss næstu daga!

Það var allt í volli!

En hótelið kom til bjargar og græaði leigubíl sem tók ekki mikið meira en hefði kostað á mann í tveggja manna skoðunarferð. Reyndar vantaði þá gædinn en það var bara betra að rölta um áfangastaðinn með bók í hönd.

Og já, áfangastaðurinn? Hattusa, eða Hattusaş eins og Tyrkir kalla hana eru rústir, og ég meina rústir höfuðborgar Hittíta, sem voru eitt helsta veldi þessa heimshluta á 15-12 öld fyrir Krist, ásamt Egyptum og Assyríngum.

Ég var með takmarkaðar væntingar fyrir. Ég vissi að eitthvað stóð en ekki mikið. En þegar á staðinn var komið var upplífunin mun meiri en myndirnar sem fylgja gefa til kynna. Svæðið sem borgin, efri og neðri, náði yfir er gríðarstórt og það er áhrifaríkt að sjá hvernig útsýnið af borgarstæðinu er. Enn standa þrjú hlið:

Ljónahliðið (annað ljónið er endurgert),

Sfinxhliðið (Þjóðverjar tóku þá og ég sá annan sfinxinn í Pergamonsafninu í Berlín 2007, en hafa skilað báðum og þeir eru nú í safni í bænum næstum Hattusas),

og konungahliðið. Hluti veggjanna stendur enn við sfinxhliðið og áhrifaríkur langur gangur gegnum þá þar.

Hér er klöpp sem var sléttuð, svo síðasti stórkonungur Hittíta gæti skráð stórvirki sín, ekki nema hluti af þessum myndtáknum hefur verið lesinn.

En það er víðar en á Íslandi sem tilgátuhús eru byggð og við innganginn á svæðið hafa verið reistir veggir sem eru eins og þeir munu líklegast hafa verið. Aðeins undirstöður húsa, halla og mustera voru steinn, en síðan voru veggir úr leirsteinum og viði sem löngu er horfið.

Hér koma tvær yfirlitsmyndir, annarsvegar frá efsta punkti svæðisins þar sem göngin eru, og sfinxhliðið uppi á veggnum

og svo frá konungshöllinni, séð austur, efsti hlutinn er á vinstri hönd, en neðri borgin sést hægra megin

Hér er svo mynd þar sem konungshallarhæðin sést vel

Á myndinni frá efstu veggjunum sést vegurinn sem liggur umhverfis svæðið. þetta er um fimm kílómetraganga og flestir fara hana á bíl Ég sá þrjár rútur og sex bíla, flest leigubíla, þessa þrjá tíma sem ég var á svæðinu, og það var því fjarri að þetta væri túristastaður, amk ekki um miðjan apríl. Ég labbaði auðvitað, leigubílstjórinn minn keyrði mig reyndar upp að stæðinu við neðri borgina, en þegar ég var búinn að skoða hana veifaði ég honum í burtu, og gekk þetta, enda 100x skemmtilegra. Þegar ég kom til baka hafði hann lagt sig í bílnum, ég sem var að vona hann hefði skroppið í bæinn. Kannske gerði hann það.

Við innganginn var lítil minjagripabúð sem einn gaur var að selja dót úr, ég keypti eitthvað, en það var reyndar hoggin mynd af veggmynd úr litlum hofum sem eru í klettum þarna nálægt. Ég reyndi að fara þangað eftir gönguna, en það virtist girt af, hefur verið opið. Kaffiterían sem var með meira túristadóti var hins vegar lokuð. Til að auka á fámennis-og einangrunartilfinninguna missti ég allt símasamband um hálftíma áður en bíllinn kom að Hattusa og sömuleiðis hálftíma frá. Bilstjórinn var með samband þannig þetta var eitthvað tengt símafyrirtækinu sem Síminn hefur á sínum snærum

Þið sem þekkið mig, þekkið mitt rústablæti og þessi upplifun stóðst samanburð að mestu við Mýkene, og slagar upp í Persepólis og Akrópólis. Ég sé ekki eftir þessum degi eða peningnum sem kostaði að láta ferja mig þangað. En þetta var langur dagur og ég var sofnaður um sjö.

Það kom líka til af góðu, enda hafði ég á leiðinni til Hattusa (sem verður að minnast á var utan þjónustusvæðis, allt frá hálftíma áður en ég kom þangað og hálftíma til baka, amk hjá viðskiptafyrirtæki Símans) fengið WhatsApp skilaboð: Þú átt pláss í belg á morgun!

Ég fór því snemma að sofa með væntingar í brjósti.

Dagur þrjú í Istanbúl var göngudagurinn mikli. Byrjaði á að ganga nýja leið út að bazar, framhjá Litlu Ægissif

Gekk síðan um bazarinn þveran og endilangan, villtist alltaf svolítið og dáðist að því sem ég tel hljóti að vera mesta magn glingurs á einum stað í heiminum. Keypti ekkert þó vissulega heilluðu te- og kaffibollasettin smávegis. Sjáum til hvað setur ef ég hef tíma á bakaleiðinni.

Útaf bazarnum og niður að Gullna horninu, og gekk auðvitað gegnum Kryddbazarinn. Yfir hornið á brú og síðan tók við að ganga upp að Taksim torgi. Það er óhætt að segja að þó að gamla Istanbul sé smá brött, þá er þetta eitthvað allt annað og vel á fótinn. Veðrið var skýjað og frekar svalt, einni gráðu hlýrra en heima.

Snæddi mjög góðan mat á veitingastað sem fékk góðar einkunnir (af 200 veittum) á TripAdvisor, og uppgötvaði tel kadayıf, sem er einhver sætasti desert sem ég hef smakkað.

Hér í Tyrklandi víla menn sér það ekkert fyrir sér að byggja þakið fyrst.

Tók göngutúr í kringum Taksim og gekk síðan eina verslunargötu til baka. Beið í 10 mínútur til að komast upp í Galata turn og það var vel þess virði þó vissulega hljóti útsýnið að vera betra í björtu veðri.

Til baka gekk ég yfir sömu brú og fyrr, upp að Ægissif og Hippodrome og heim á hótel. Sem fyrr segir var staður nr 1 rétt hjá hótelinu. Kannske var það sá, en þegar ég skoðaði á sunnudagskvöld var staður nr 1 að því er virtist aðeins fjær, en staðurinn upp á horni kominn í 4ða sætið. Ég nennti ekki langri göngu og smellti mér á þennan næst mér og sá ekki eftir því, fékk fínan pottrétt sem framreiddur var með mikilli dramatík, borinn fram í lokaðri leirkrukku hitaðri í eldi í pönnu sem borin var upp á efrihæðina tíl mín, krukkan svo brotin og öllu hellt á diskinn minn.

Ég var auðvitað hangandi á netinu og á þessari stundu fóru fyrstu fréttir af brunanum mikla í Notre Dame að berast sem voru auðvitað skelfilegar. Þjónninn sá hvað ég var að horfa á og hans fyrstu viðbrögð voru einlæg gleði og léttir þegar ég sannfærði hann um, sem var augljóst, að þetta hlyti að vera útfrá viðgerðinni, en ekki sprenging. Svo sorglega skiljanleg viðbrögð

Síðan heim að sofa, enda kom rútan að sækja mig um morguninn kl 5:40. Ferðinni var heitið út á flugvöll fyrir næsta áfangastað.

Ég var í gær smá dularfullur með það og ætlaði að koma á óvart. En ferðinni skemmtilegu sem ég ætlaði í í morgun var aflýst og ekki hægt að draga þetta lengur.

Það er nefnilega hún Nanna Rögnvaldardóttir sem er áhrifavaldur að þessum hluta ferðarinnar. Ég flaug til Kayseri í gær, og fékk svo bíl til Hezen Cave Hotel í Ortahizar, litlu þorpi skammt frá Göreme.

Og það var loftbelgsferðinni minni sem var aflýst í morgun, þegar ég var kominn út kl 4:20 að bíða eftir bílnum og reyndar kominn smá á leið.

Eins og nafnið gefur til kynna eru herbergin hér eins og á mörgum ef ekki öllum hótelunum hér hoggin inn í kalksteininn og ég er því uppi í rúmi, undir sæng að skrifa þetta, enda mjög svalt í herberginu.

Ég kom upp úr hádegi í gær og ákvað, með tilliti til snemmbúinnar ræsingar að taka hvíldardag. Ég fór þó út í gærkvöld og gekk hér snarbratta vegi og krákustiga, fyrst niður í dalinn og svo upp, um 10 mínútna gang, til að komast á veitingastað sem er í beinni sjónlínu hér á móti. Það var vel þess virði! Mjög góður matur en í fyrsta skipti í ferðinni lenti ég í því sem Nanna nefndi í annarri færslu, forréttur og aðalréttur komu um leið á borðið!

Síðan fór ég heim, var að hugsa um að fylgjast með Barcelona-United sem byrjaði kl 10 að staðartíma en náði því ekki, sofnaði 10, rumskaði 20 mínútum síðar og sá 2-0 stöðuna og þurfti því ekki að hafa frekari áhyggjur

En núna bíð ég þess að komast að því hvort ég geti fært skoðunarferðina sem ég á bókaða á föstudag til dagsins í dag svo ég hafi bæði fimmtudag og föstudag uppá að hlaupa!

Sofnaði snemma á laugardaginn, vaknaði á skikkanlegum tíma til að taka venjulega morgunnetrúntinn, sami beisik morgunverðurinn og út i áttinna að Grand Bazaar. Sem er auðvitað ekki opinn á sunnudögum þannig það var bara að taka strikið út að Topkapı höllinni! Sem ég tók sveiginn kringum Ægissif byrjaði að rigna. OG RIGNA. Þó ég væri ekki kominn að innganginum fyrr en um hálf tíu var samt tiltölulega stutt röð gegnum fyrsta hliðið sem var bara öryggisleit. Þegar ég var kominn í gegn ákvað ég að beita skynsemi og bíða af mér sturtuna.

Það tókst, varði ekki nema um tíu mínútur.

Við tók ganga yfir fyrsta forgarðinn, engin bið í miðasölunni og beint inn. Höllin er ekki eins gígantískt hlaðin og evrópskar hallir á sömu öldum, þó skreytingarnar séu (oftast nær) gríðarfallegar. Ég skoðað vopnasafnið (mjög töff), helgiminjasafnið (sá suðupott Abrahams og er ekki samur eftir), aðalminjasafnið var lokað vegna viðgerða, og borgaði mig svo sérstaklega inn í haremið og það var vel þess virði. Það var ekki bara kvennabúr heldur líka híbýli súltansins, súltansmóðurinnar og aðaleiginkvennanna. Móttökuherbergið og íverustaður súltansins voru alveg sérstaklega flott herbergi en almennt var gríðar gaman að koma þarna, margt mjög flott.

Þegar nóg var skoðað rölti ég til baka (og nú var miðasölubiðröð og haugur af fólki alls staðar. Ég gekk hinu megin Ægissifjar og bláu moskunnar frá gærdeginum, stoppaði á þokkalegum veitingastað og fékk mér calamari og kjúklingakebap sem var hvort tveggja mjög gott. Læt fylgja mynd af þrengstu götu sem ég hef gengið með umferð, það var rúta við rútu sem fór þessa leið, á meðan ég skaust milli þeirra til að velja þann vegarhelming sem virtist þó vera mannsbreidd milli veggjar og bíls.

Heim á hótel og beið eftir næsta verkefni.

Það var að fara á Fenerbahçe – Galatasaray. Þegar ég ljóstraði ferðaáformum mínum upp við Þórmund vin minn var það hann sem for og fann út að af einskærri tilviljun væri ég hér í Istanbúl þegar þessi einn af þrem mögnuðustu borgarslögum heims færi fram.

Ég af venju hummaði hlutina fram af mér og pantaði samt á endanum svokallað Passolig kort sem er nauðsynlegt til að fá miða og komast inn á völlinn, og keypti síðan miða af traustri en siðferðilega vafasamri síðu á netinu. Kortið átti að afhendast á vellinum en miðinn rafrænt.

Á fimmtudaginn kom fyrsta höfnunin, miðasalinn gat ekki afhenti miðann til sölusíðunnar og þau buðu mér nýjan sem ég þáði.

Sama gerðist á föstudaginn!

Og þrátt fyrir mikla bið þá gerðist það að rafræna afhendingin gerðist ekki í þessari þriðju tilraun, án þess að sölusíðan segði það sama og í fyrri skiptin.

Í millitíðinni var ég kominn á völlinn (tók taxa auminginn sem ég er) og varð vitni að þessu, nokkuð frá vellinum.

Í almenningsgarði skammt frá vellinum var stemmingin enn svaðalegri, blysin á lofti og sungið af krafti.

Ég fór inn á öryggissvæðið kringum völlinn og fann á endanum Passolig afhendingarpunkt. Hitti Þjóðverja og Hollendinga sem voru í svipuðum erindagjörðum. Drengurinn í afgreiðslunni vildi ekkert fyrir mig gera, ég var ekki með miða og Passolig kortið mitt? Jú, kemur á morgun.

Þá gafst ég eiginlega upp, en var þó ekki tilbúinn að fara, fylgdist með stemmingunni við völlinn þangað til leikurinn hófst og notaði þá leigubílaapp Istanbúl til að koma mér heim.

 

Rétt er að benda á að Şükrü Saracoğlu völlurinn er í Asíu, ég fór bílagöngin þangað, en langa hringinn á brú til baka og sá mikið af borginni fyrir vikið.

TripAdvisor segir mér að staður nr 1 í Istanbúl sé hér á næsta horni, 30 metrum frá, fer á hann í kvöld en í gærkvöld fór ég á númer 7, sem er í næstu götu við, steinsnar frá herberginu mínu sem snýr jú út að bakgarðinum (eða ekki garðinum). Það var ágætt, reyndar fékk ég fyllt nautakjöt ekki kjúlla, er of latur til að gera athugasemdir við svoleiðis, en tónlistarvalið var einkennilegt, fékk að heyra í beit Life is live; Brother Louie; Cherie Cherie Lady; og Modern Talking. Evródiskó af bestu gerð.

En ég svaf vel í nótt og vaknaði nógu snemma til að taka netrúnt og blogg, áður en farið er í þennan létta morgunverð og svo basarinn.

Istanbúl – Dagur eitt

Það góða við að heyra illa og ekki neitt að ráði af tilkynningum í flugvélum var í gær að þegar við bíðum í klukkutíma úti í vél eftir að taka af stað ákvað ég að hafa engar áhyggjur heldur bara bíða.

Enda komumst við í loftið á endanum, ekki eins og Bragi, Tomas, Aðalsteinn og eflaust fleiri. Ástæðan fyrir hvað ég var slakur var sú að mín beið sjö tima bið á Heathrow hvort heldur er. Ég þurfti að sækja töskuna en á móti kom að ég gat tékkað hana inn strax og hefði því getað skroppið inn í bæ en nennti ekki að stressa mig á því og hékk heldur á börum og kaffihúsum. Fór loksins inn á öryggissvæðið, keypti þau rafmagnstengi sem gleymst hafði að pakka og steig loks um borð í vélina til Istanbúl.

Einhver seinkun var á henni og það var vel rúmlega miðnætti að staðartíma þegar við lentum. I vegabréfaskoðuninni var ég að vorkenna foreldrum með stráka sem virtust sex, fjögurra og hálfs, þriggja og eins árs þegar sá yngsti var að grenja en sú vorkunn hvarf því þau voru næst á undan mér… og tók hátt í tíu mínútur að koma pappírunum þeirra á hreint.

Síðan tókst mér að fara á vitlaust band að bíða eftir töskunni og eyddi hálftíma þar. Vildi til að annar úr sömu vél gerði það sama og hann fattaði.

Þá loksins fékk ég töskuna og fór út þar sem átti að bíða mín hótelpikköpp. Kom í ljós að það var hópafgreiðsla. Við vorum tíu sett af farþegum sem þurfti að smala og svo fara og hreinlega finna bíla fyrir okkur úr venjulegu leigubílaröðinni. Mjög efficient. Not.

Lagði sumsé af stað frá flugvellinum kl 2 og var kominn á hótel 2:40. Og í svefn um 3. Stillti vekjarann á 11. heh. heheh. hehehe.

Auðvitað vaknaði ég svo kl sjö í morgun og var bara hress. Spændi í mig morgunmat af ódýrari buffet gerðinni og óð út vel fyrir níu.

Er ekki langt frá megintúristastöðum gamla bæjarins og var kominn í tiltölulega stutta röð fyrir utan Ægissif fyrir opnun kl níu.

Ég get eiginlega ekki lýst þessari fimmtánhundruð ára byggingu. Hún er að hluta geysilúin, stillansar inni, og svolítið skrýtið að ganga þar um.

En engu að síður og þrátt fyrir allt þá sést  hvað hún er ægifögur og áhrifamikil.

Næsta stopp var fyrsta moskan af þrem: Bláa moskan. Falleg!

Meira um moskur síðar í pistlinum. Næst leit ég inn í grafhýsi Sultans Ahmed. Myndirnar þar tók ég allar á myndavélina og þær bíða. Lítið grafhýsi en afskaplega fallegt! Stílhreint eins og múslimskar trúarbyggingar en ótrúlega haglega skreytt.

Næst ætlaði ég í vatnsgeymslu basilikunnar – Basilica Cistern. Stutt röð! EN! Reiðufé eingöng og minns ekki búinn að taka út. Þá var bara að finna veitingastað, fá sér grillaðan hal… hellim ost og lamb ŞiÅŸ Kebap. Síðan í hraðbanka og í miklu lengri röð. En niður í vatnshýsið komst ég og þó að vantaði svolítið upp á Bond stemminguna, þá var þetta ansi magnað! Eins og víðar er verið að gera við og eitthvað um afgirt svæði og stillansa.

Þá var að steðja út að Bazar. Á leiðinni leit ég inn í eina minni mosku, Nuruosmanyie moskuna og fannst gaman að því, með því að sjá eina aðeins minni í sniðum kemst maður nær kjarnanum.

Ég labbaði inn í Bazarinn, og beina leið í gegn. Stefni á að eyða aðeins meiri tíma þar á morgun. Tók í staðinn strikið út að stærstu mosku borgarinnar, Süleymaniye moskuna og dáðist að henni og umhverfi hennar, en það er eins og vera ber með þjónustu við trúaða á borð við baðhús, skóla og spítala.

Eftir að hafa skoðað ófáar moskur í Íran og nú þessar þrjár (og Ægisif) þá er ég alltaf að verða hrifnari af þessum stíl. Skreytingarleysið er afskaplega einkennilegt þeim sem skoðað hafa helst kaþólskar risakirkjur útlöndum, en þegar nánar er skoðað, og ekki síst þegar maður sér trúaða við bænir þá kemur betur í ljós hversu viðeigandi umhverfið er. Fegurðin ríkir þó hún sé oft í mynstrum og skrautskrift eingöngu en minnir þannig á til hvers byggingin er, að færa tilbeiðandann nær guði. Það eru engir dýrlingar að þvælast fyrir, að ert bara þú, og guð, og spámaðurinn.

Gríðarlega áhrifamikið.

Tók svo strikið heim, lét plata mig að skoða teppi á leiðinni og endaði á að vera snuðaður þegar ég keypti bara sætindi af sölumanninum en ekkert teppi. Ojæa, ég fékk allavega nammi. Þó það hafi verið í dýrari kantinum. Miðað við hér á landi á. Ekki heima. Ef einhver elskar lokum, eða ‘turkish delight’ er viðkomandi velkominn þegar ég kem. Nei, þetta er minnst af þessu rósadóti sem Englendingar þekkja best. Prýðisstöff.

En ég er allavega heima á herbergi að reyna að ákveða hvort ég eigi að nenna út að finna mér mat. Að lokum er hér vel beygð panorama sem horfir til austurs frá Suleymanyi moskunni

Að lokinni heimsmeistarkeppni

Posted June 27th, 2018. Filed under ferðalög

HM er lokið – fyrir okkur.

Sit í AirBnB íbúð í Rostov við Don, daginn eftir síðasta leik Íslands á HM 2018. annað stórmótið í röð sem ég fylgi Íslandi á frá upphafi til enda.

Þetta er setning sem mig hefði bara dreymt um segja sem strákur, og þá auðvitað í það villtum draumum að það var ég sem var með númer níu á bakinu, sama hversu augljóst það var að ég var með knattspyrnuhæfileika símastaurs.

En ekki einasta gerðist þetta, heldur fórum við alla leið í fjórðungsúrslit á EM og þó að við hefðum nú á HM dregist i gríðarsterkan riðil þá voru væntingarnar eitthvað svo skrýtnar að þó enginn byggist við neinu, þá bjuggust samt öll við að við færum áfram því við erum jú Ísland.

Jafnteflið við Argentínu var sannarlega einn af hápunktum fotboltaáhorfs míns. Ég fékk að vera fyrir aftan markið sem Alfreð skoraði í og sem Hannes stöðvaði vítið frá Messi í að fara inn í. Eftir það skrúfuðumst við upp og vissum að sigur gegn Nígeríu væri sannarlega möguleiki. En í ofurhitanum í Volgograd var leikurinn aðeins of langur. Fyrri hálfleikurinn var sá besti sem ég hef séð Ísland spila á stórmóti en við náðum ekki að nýta færin. Nígería átti svo seinni hálfleik svikalaust.

VIð vissum fyrir Króatiuleikinn að allt var opið. Króatar settu varaliðið inn á og Ísland átti leikinn að stórum hluta en aftur fórst fyrir að nýta færin.

Þegar Argentína skoraði sigurmark sitt áttum við alla heimsins von í um tvær mínútur áður en Króatar slökktu hana, og hvílík von.

Það er fyrir svona von og þrá sem við horfum á fótbolta. Ekki bara til að vinna mót og sigra andstæðinginn heldur til að upplifa allan þennan tilfinningarússíbana yfir hlutum sem i stóra samhenginun skipta engu máli, en skipta á þessum augnablikum öllu máli.

Þetta var keppnin sem ég bjóst alveg eins við síðast, bara betri. Ég hefði komið heim stoltur stuðningsmaður með þrjú 2-0 töp Íslands að baki, bara ef strákarnir stóðu sig og héldu haus.

Það gerðu þeir svo sannarlega. Jafnteflið gegn Argentínu var frábært, Vonbrigðin yfir Nígeríutapinu yfirskyggðu það góða í þeim leik, og leikurinn í gærkvöldi var frábær skemmtun.

Ísland var ein af þrettán Evrópuþjóðum á HM. Holland, Tyrkland, Skotland, Wales (og Gareth Bale), Írland, Norður-Írland, Tékkar, Slóvakar… og elsku Ítalía mín sem ég fer til á föstudaginn, allar þessar þjóðir sátu heima og horfðu á HM eins og við höfum alltaf gert, án þátttöku.

Við erum það góð í fótbolta að við vildum, og ætluðumst smá til að Ísland væri meðal 16 bestu þjóðanna á HM. En á svona mótum er oft stutt á milli afreka og vonbrigða. Í þetta skiptið voru það vonbrigðin sem unnu, en við megum aldrei hætta að þakka fyrir að fá að sjá Ísland á HM.

Næst er það þjóðadeildin, þar sem verkefnið er að taka stg af Sviss og Belgíu þannig að þegar 10 bestu liðunum af 12 í A deild verður raðað í 10 efstu sætin i riðlunum í undankeppni EM 2020 þá verði Ísland þar á meðal og sleppi við 9 bestu liðin í Evrópu. Og kannske, bara kannske! þá verður Króatía þá ekki andstæðingar okkar úr öðrum styrkleikaflokki.

Þessi hópur eldist og við vitum ekki hvað tekur við, en við vitum að kjarninn í honum getur, ef vel gengur, komið okkur á EM 2020, og síðan á HM 2022.

Ævintýrið getur haldið áfram, sú er vonin.

Ítalía – Mílanó

Posted August 14th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

6. kafli – Mílanó

26. júlí – miðvikudagur

Kom til Mílanó upp úr hádeginu, frá lestarstöðinni var tekin neðanjarðarlest nokkrar stöðvar til suðurs og svo nokkurra mínútna gangur í örlitlu íbúðina mína. Ég var fljótur að koma mér fyrir og svo var um 12 mínútna gangur norður á Dómkirkjutorgið.

Fyrsta verk var að setjast niður og fá sér einn Aperol, sem í þetta skipti kom með nasli eins og Mílanó kann þegar um aperitivo er að ræða

Síðan var kominn tími á góðan göngutúr um Mílano. Ég gekk út að Castello Sforzesco, því mikla virki Sforza greifanna, og síðan suður til Basilica di Sant’Ambrogio, einnar af elstu kirkjum Mílanó. Ég var einhverjum vikum of seinn að bísa miða á Síðustu kvöldmáltíðina, það kemur næst. Ég hafði lítið gert að skoða inn í kirkjur í þessari ferð, hef séð þær helst til margar, en leit samt inn í þessa og hafði bara smá gaman af að sjá eina gamla og ekki of ofsa stóra.

Síðan aftur upp að dómkirkjutorgi og rölt um miðbæinn þangað til kominn var tími á mat, siktaði út einn stað sem fékk þokkalega dóma þarna rétt hjá og fór síðan í eins mikið grundvallaratriði og hægt er í Milanó. Risotto alla Milanese og síðan Cotoletta alla Milanese. Skammtarnir voru gríðarlegir og ég þurfti því miður að leyfa helmningnum af hvorum. En gott var það!

Ég googlaði mig niður á einn sportbar sem vildi til að var alveg í leiðinni heim, en þegar að kom þá var staðurinn´i sumarfríi þannig ég missti af versta leik Íslendinga í Evrópukeppninni, tapinu slæma gegn Austurríki. Fór nefnilega bara heim og í bólið.

27. júlí – fimmtudagur

Dagur skoðunarferðar. Tiltölulega snemma af stað, kaffi og brioche út á næsta kaffihúsi og síðan út á næstu sporvagnastöð þar sem stigið var upp í leið 15 og stefnt austur.

Sum skoða dómkirkju af áfergju, ég skoða fótboltavelli. Ég hafði reyndar látið þá eiga sig fram að því í þessari ferð, en að sjá Stadio Guiseppe Meazza hefur verið takmark lengi.

Safnið á vellinum er afspyrnuslakt, lítið annað en mikið safn af treyjum leikmanna sem leikið hafa á vellinum. Þjáist án efa af því að þarna deila lið velli og safnið því ekki til minnis um þau.

Skoðunarferðin var samt meiriháttar, ótrúleg upplifun að koma leikmannagöngin og upp á völlinn.

Settist niður í kaffistofunni, kaffi og meððí og svo rölt um búðina þar sem Inter og Milan fengu hvort sinn helminginn.

Síðan sporvagninn aftur til baka, smá rölt og síðan stefnt á aðra helstu menningarmiðstöð borgarinnar, þar sem kórinn er aðeins minni en öllu lagvissari. Skoðunarferð á La Scala er nauðsynleg. Þar er hægt að sjá hvar fyrirfólkið kemur saman fyrir og í hléi og koma inn í stúkurnar. Ekki eru þær stórar, og þar eru tveir stólar með baki, og tveir kollar. Ekki fyrir bakveika, held ég.

Safnið á La Scala er litið en fínt, aðallega málverk og brjóstmyndir af sönghetjum og tónskáldum. Sérsýning um Toscanini var samt alveg sérlega vel uppsett, með myndböndum og tóndæmum.

Hádegisverðurinn á pizzastað í Galleria Vittorio Emmanuele II eins og aperolinn deginum áður, ljúffeng flatbaka þar, og síðan rölt heim aðra leið en áður.

Eftir siestu fór ég síðan aftur á sama veitingastað og fyrr, nú var það annar staðalréttur: Osso Buco með Risotto alla Milenese. Aftur mjög vel útilátið en núna kláraði ég! Tiramisù í eftirrétt, þokkalegt.

Eftir það var ekki annað að gera en að fara heim!

28. júlí – föstudagur

Síðasti heili dagur ferðarinnar. Það var á dagskrá að versla kannske eitthvað en blöðrutær og leti slauðufu því svona að mestu. Í staðinn rölti ég enn meira (og hægar) um miðbæinn. Man ekki einu sinni lengur hvar ég settist niður til að fá mér hádegismat en skömmu seinna var þetta

Naut samt Aperolsins að venju og fór síðan heim í síestu.

Enn á ný kom ég sjálfum mér á óvart og dreif mig út eftir lúr og nú suður á bóginn. um 20 mínútna gangur í yndislegt síkjahverfið, Naviglio. Rölti um, fékk mér fordrykk á einum stað og TripAdvisoraði mig síðan inn á einn besta mat ferðarinnar. þurfti að bíða smá eftir borði en fékk yndislegt borð í bakgarðinum. Dómarnir á TripAdvisor eru reyndar blendnir en ég hitti á gott kvöld. Prosciutto con melone í forrétt og kjöt í aðalrétt. Tiramisù í eftirrétt. Þessi síðasta kvöldmáltíð var eins indæl og ferðin, i indælu umhverfi. Þarna við síkin var skemmtileg stemming og það var fínt að ganga heim.

29. júlí – laugardagur

Síðasti dagurinn. Skrapp út og fékk mér kaffi og meððí á sama stað og síðustu morgna, og svo heim, kláraði að pakka, og yfirgaf íbúðina. Dró töskuna upp á neðanjarðarlestarstöðina og þaðan upp á lestarstöð hvar ég skildi báðar töskur eftir og fór í göngutúr. Leiðin lá niður eina aðal verslunargötuna, Corso Buenos Aires, þó ekkert sæi ég sem gat fengið mig til að reyna að versla. Endaði sem fyrr á svæðinu í kringum dómkirkjuna, fékk mér hádegisverð og síðan síðasta Aperolinn og passaði núna að ekkert Lush væri nálægt.

Ég var orðinn ansi fótlúinn þegar hér var komið sögu, blöðrur á tám orðnar vikugamlar og við bættist að ég gleymdi alltaf að setja flugnafæluna í samband í Mílanó og var orðinn ansi bitinn, og bit höfðu blásið upp í blöðrur á ökklum. Það verður ekki allt á kosið. En ég gekk samt aftur til baka upp á lestarstöð þar sem ég eyddi tímanum frekar, og endaði á að taka lestina í rúman klukkutíma út á flugvöll.

Flugið var á miðnætti að staðartíma og það var þreyttur og sæll Björn sem komst í rúmið sitt um miðja nótt.

Fleiri myndir á Flickr – Milano 2017

Stórkostleg ferð að baki. Ef þið haldið að fótsærið hafi aðeins dregið úr ánægjunni þá er það kannske rétt, en stundum er þetta bara svona.

Get sagt hiklaust að ef mér byðist nákvæmlega eins ferð á morgun, myndi ég ekki hika! Það þýðir ekki að ég ætli að fara á alla þessa staði aftur og gera þetta nákvæmlega eins næst, en þetta var eins fullkomin ferð hvað áfangastaði varðar og hægt var.

5. kafli (a) – San Gimignano, Montalcino og víðar

24. júlí – mánudagur

Nú var kominn tími til að skoða sig betur um í sveitum Toskana og til þess er fátt betra en skipulögð skoðanaferð.

Kom mér út á þarnæsta torg við íbúðina snemma morguns, fékk mér kaffi og kruðerí, og beið þar sem ég átti að bíða. Ég var alltaf að líta til eftir rútu og það var komið nokkuð fram yfir settan tíma þegar kona vatt sér að mér og spurði hvort ég væri á leið í skoðanaferð. “I thought you were Italian” var ástæðan fyrir að hún hafði ekki athugað fyrr og þetta var jú aðalbiðstöð stætóa og rúta í Siena þannig misskilningurinn var fyrirgefanlegur. Hún sótti hina farþegana inn á kaffihúsið og fór að smárútunni sem við fórum á. Við vorum fimm í ferðinn. Ensk hjón frá Plymouth og bandarísk frá Portland (en upphaflega frá NYC. Mjög mikilvægt!)

Næst hæstu turnarnir

Fyrsta stopp var turnaborgin San Gimignano. Litli smábærinn þar sem erjur milli fjölskyldna leiddi til vígbúnaðarkapphlaups í formi turnabygginga. Þegar mest lét voru þeir um 70 en nú eru 14 eftir. Kannske aðeins minna magnað en ég bjóst við en agalega skemmtilegt að koma þarna burtséð frá turnunum, lítið og sætt gamalt þorp

Fengum rúman klukkutíma þar sem var nóg til að rölta helstu stræti og klífa hæsta turninn. 280 þrep þar. Þrammið upp á Nítjándu er alltaf að gefa. Þetta er auðvitað ægifagurt allt, bærinn, turnarnir og líðandi hæðirnar í kring og útsýnið úr turninum var vel þess virði

Næsta stopp var vínhús. Skoðuðum ekkert en komum bara að eins og væri lítill veitingstaður. Þar var okkur gefin að smakka þeirra helstu vín og ég splæsti í eina Brunello di Montalcino. Fengum líka mat, lasagnað hennar langömmu, osta og pylsur.

Næsta stopp var gamalt virki á pílagrímsleiðinni til Jerúsalem. Virkilega flott! Ísinn mjög góður og köttur sem var fædd fyrirsæta.

Síðan var það næsti vínframleiðandinn. Gamli eigandinn sýndi okkur í rykfallnar geymslurnar þar sem voru vín allt frá 1945og var með ýmsan fróðleik. Indæll gaur og svo skýrmæltur að ég skildi hvert orð áður en gædinn þýddi. Svo var auðvitað smakk og ég keypti Brunello di Montalcino Riserva. Bar af hjá þessum.

 

Svo var það loksins smáþorpið Montalcino sjálft og þar snýst sko allt um vín! (Já og jazzhátíðina í kastalanum). Enn meira af líðandi og jafnvel bröttum hæðum í kring og meiri ís. Brunello di Montalcino ís! Af ástæðum sem komu fljótt í ljós var hann ekki seldur í brauðformi heldur bara boxi. Áfengið veldur jú hraðri bráðnun!

Síðan héldum við heim á leið. Þetta var prýðileg ferð til að sjá staði sem ég hefði ekki séð (utan San Gimignano) ef ég hefði verið í einsmennsku. Eins og áður var nefnt er myndasafnið úr ferðinni með Siena myndum:

Fleiri myndir á Flickr – Siena, San Gimignano og Chianti 2017

.

Ítalía – Siena

Posted August 9th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

5. kafli – Siena

23. júlí – sunnudagur

Siena í mínum huga var alltaf borgin hennar Dísu frænku. Í ferðum sínum til Ítalíu var það eins og oftar en ekki hún væri við ítölskunám hér, í góðan tíma í senn. Kannski voru þetta bara 2-3 ferðir en þetta fannst mér. Minning hennar og Teits förunautar hennar var mér mjög í huga þessa daga sem ég dvaldi í bænum.

Sem fyrr segir kom ég til Siena á sunnudagseftirmiðdegi og kom mér vel fyrir í AirBnB íbúð steinsnar frá aðaltorgi bæjarins. Þarna í miðbæ Siena vantar ekki brattar götur og sú sem ég bjó við var ekki síst.  Þar má ekki eiga bíl með bilaða handbremsu!

Það tók mig þrjár mínútur að fara út á Piazza del Campo og sá í fyrsta skipti þetta fræga torg og reyna auðvitað strax að ímynda mér hvernig það liti út stappfullt af fólki og hestum.

Fyrsti kvöldverður með var ágætur í boði TripAdvisor. Eftir fimm mínútur fór ég að hugsa að þetta væri nú fín músík undir borðum, Chet Baker. Fimm mínútum síðar var hugsunin að þetta væri ansi löng útgáfa af laginu. Þegar ég staulaðist út eftir klukkutíma lét ég afgreiðslustúlkuna alveg vita að þó maturinn hefði verið frábær hefði þessi raungerving Barry Manilow Syndrome með sama laginu á rípít allan tímann væri atlaga að geðheilsu! Ég kom mér heim og í rúm enda langur dagur framundan.

24. júlí – mánudagur

Þessum degi eyddi ég í skipulega skoðanaferð um Toscana og það fær sérfærslu!

Um kvöldið var ég túristi og borgaði túristaskattinn fyrir að borða við Campo. Valdi þann stað sem fékk skásta einkunn en pasta með villisvínaragù var engu að síður verra en ég vonaði. Tók aðeins of mikinn séns þar.

25. júlí – þriðjudagur

Ég var snemma á ferli og gat tekið góðan rúnt um miðbæinn án þess að túristar væru að þvælast mikið fyrir en við erum hér auðvitað þúsundum saman. Útsýnið hér er engu líkt og fegurð bæjarins mikil. Ég bjóst samt ekki við hversu áhrifarík heimsókn í virkið hér væri. Ganga á virkisveggjunum var yndisleg og greinilegt að það er staðurinn fyrir skokkara, röltara og aðra heilsubótarleitendur að vera.

Fortezza Medicea

Ég tók pit stop heima og svo ostar og pizza á stað með frábært útsýni og prýðilega flatböku! Ostarnir auðvitað æði.

Síðan heim aftur og nú tekin almennileg siesta og enn einu sinni kom ég mér má á óvart og dreif mig út í kvöldmat. Valdi stað með góð ummæli en spaghetti með rækjum olli vonbrigðum. Alltof salt og eins og að þefa beint af leginum af þíddum rækjum. Hefði svosem átt að hafa vitað.

Trippa Senese

Tók sénsinn í aðalréttinum og fékk mér Trippa Senese – kálfavambir. (Nei, Trippa er ekki “stripes” á ensku, veitingastaður, ég vissi vel hvað ég var að panta) Ekki slæmt en ekki gott. Pastað á undan hjálpaði ekki til. Mun prófa aftur.

Siena er ekki stór bær og það kom ekkert sérlega á óvart að heyra nafnið mitt kallað þar sem ég sat og borðaði. Þar voru bandarísk hjón sem ég var með í ferðinni deginum áður að labba framhjá og sáu mig!

Meðan ég sat þarna inni var greinilega útkall því 10 lögreglubílar með blikkandi ljósum fóru fram hjá. Það var ansi magnað enda ekki mesta breiðgata bæjarins, varla pláss fyrir gangandi þegar bílarnir þustu framhjá!

Tók síðan kvöldið rólega.

26. júlí – miðvikudagur

Var kominn út á rútustöð klukkan 7:20 eftir um 10 mínútna rölt með töskum og hafði tíma í kaffi og súkkulaðihorn, ekki það fyrsta í ferðinni. Ég sleppti kannske namminu alveg í þessari ferð, en þetta telst ekki nammi. Þó það sé með súkkulaði og nutellafyllt!

Ferðin til Flórens með rútunni tók rúman klukkutíma og þar hoppaði ég í lest til Mílanó, síðasta áfangastaðar ferðarinnar.

Myndasyrpa dagsins er með myndum frá Siena, sem og úr mánudagsferðinni!

Fleiri myndir á Flickr – Siena, San Gimignano og Chianti 2017

 

4. kafli – Castello di Spaltenna, Gaiole in Chianti

22. júlí – Laugardagur

Þá var komið að lúxuslegg þessarar ferðar. Eftir gestaherbergi í Veróna og Flórens var komið að því að vera útaf fyrir mig og láta vel við mig í mat og drykk.

Ég skildi við sjálfan mig í Flórensfærslunni á lestarstöðinni í Flórens, sárfættan og þreyttan. Ég tók lest til Siena sem tók smá tíma, enda ekki farið beinustu leið. Þegar þangað var komið hafði ég nokkurn tíma fyrir mig og fór á eðalveitingas… nei reyndar ekki, fór á stjörnutorgið í kringlunni sem var á sjálfri lestarstöðinni og fékk mér tvær pizzasneiðar. Þær voru betri en Dominos. Síðan stutt rölt gegnum undirgöng og upp nokkra stiga til að komast á rútustoppin við stöðina þar tók rútuna til smábæjarins Gaiole in Chianti, í hjarta þess fræga vínhéraðs Chianti. Þá þurfti ég að rölta snarbratta brekku í 10 mínútur að hótelinu. Tærnar kvörtuðu smá, sko.

En hótelið var þess virði. Gamall (hve gamall? ekki hugmynd) sveitakastali sem gerður hefur verið að þessu fína, næstum lúxushóteli. Ég hafði tíma til að bregða mér í laugina til að sóla mig aðeins og sötra einn þið-vitið-orðið-hvað en það var frekar skýjað og eftir ég fór inn að horfa á tapleik Íslands gegn Sviss fór að hellirigna. Gott fyrir mikilvægan gróður.

Ástæðan fyrir því að ég var þangað kominn var samt einföld

Áfangastaðurinn var því frekar veitingastaðurinn, sem nýlega varð sér úti um Michelin stjörnu, frekar en hótelið þó vissulega hafi það verið óaðfinnanlegt.

Það stytti upp um sjö, nógu seint til að veitingastaðurinn vildi ekki dekka borðin í kastalagarðinum, nokkuð sem gesturinn á undan mér varð alveg ægilega foj yfir, heimtaði þau myndu redda þessu einn tveir og þrír. Ég segi ekki hann hafi haft örlítið til síns máls, en hefði mátt vera örlítið rólegri. Eða heilmikið rólegri. En á endanum fannst mér bara þægilegra og meiri lúxus að sitja inni.

Sex rétta smakkseðillinn var hreint frábær. Upp úr stóð gnocchi rétturinn, bragðgæðin fullkomin, dúfan var svo bragðmikil með sósu og öllu að þó skammturinn væri lítill var næstum meira en að segja það að klára! Léttur millieftirréttur hreinsaði munninn og desertinn og petit fours voru jafn bragðgóð og þau líta út á myndinni.

Með matnum var vínvalið auðvelt, þeirra eigin vín. Kannske ekki eins grand og að fá sérvalin vín frá óháðum aðilum en fyrir mig alveg prýðilegt.

Stórkostlegt kvöld.

Pre-amuse bouche

Amuse bouche

Humarhali, foie gras og kornhæna

Humarhali, foie gras og kornhæna

Carpaccio

Fyllt gnocchi

Risotto

Dúfa

Eftirréttur til heiðurs Escoffier og petit four

 

Eitt af því góða við að borða á hótelinu er að það er stutt í rúmið. Eftir þennan fína mat, en eilítið langa dag, var gott að komast í rúmið

23. júlí – sunnudagur

Morgunverðurinn á hótelinu var að sjálfsögðu yndislegur og að njóta hans með þessu frábæra útsýni var enn betra.

Morgunþokunni létti þegar á leið. Ég var ekkert að flýta mér af þessum ágæta stað, borðaði ágætan hádegisverð á sömu terrössu og síðan tók ég leigubíl til Siena þar sem engar rútur gengu á sunnudögum. Ég var kominn um miðjan eftirmiðdag til Siena og þar tekur við næsti kafli ferðarinnar.

Fleiri myndir á Flickr – Castello di Spaltenna

Ítalía – Lucca

Posted August 5th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Kafli 3 (b) – Lucca

21. júlí – föstudagur

Ætli ég hafi ekki fyrst heyrt almennilega um Lucca á blogginu hjá Örvitanum? Fyrst þá og svo aftur þegar ég renndi í gegnum ferðasöguna hans frá Toskana. En líka í þessari bók: Francesco’s Italy, sem Amazon er svo vænt að segja mér strax að ég hafi keypt 2006. Þannig að ég setti ferðalag þangað á listann. Missti af fyrstu áætluðu ferðinni sem fyrr er sagt, en ákvað nú samt að drífa mig, þetta gæti verið gaman. Það var rétt ákvörðun.

Rútuferðin tók um klukkustund. Í Lucca gekk ég um gamla bæinn. Á aðal torginu er allt upptekið af sumarfestivalinu þeirra. Ég beið þó ekki eftir kvöldinu, ekkert spennandi þá , ólíkt vinnufélaga mínum fyrrverand sem sá Robbie Williams sunnudeginum áður. Ég settist samt niður og fékk mér (en ekki hvað) Aperol.

Gekk síðan hringinn um bæinn á gamla virkisveggnum, frá mér numinn af hrifningu á þessum bæ. Ég get eiginlega ekki lýst því og myndir gera því lítil skil, en þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi: Það er ný ást í lífi mínu og það er Lucca.

TripAdvisoraði mig á opinn stað (Osteria Da Rosolo) upp úr sex og for í 800g Bistecca Fiorentina, það hljómaði aðeins viðráðanlegra en kíló og var það, litið annað en sinar og bein eftir þegar yfir lauk. Ævintýralega gott!!

Tiramisùið var svo alveg með því besta sem ég hef fengið og ég ætla að reyna að nota hugmyndir frá því og prófa hvort ég geti gert það heima

Síðan var það bara lestin heim, fyrr og fljótar en Google hélt, mjög þægilegt.

Fleiri myndir á Flickr – Lucca 2017

Ítalía – Pisa

Posted August 4th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Kafli 3 (a) – Pisa

18. júli – þriðjudagur

Ferð um Toskana hlýtur að fela í sér ferð til Pisa, er það ekki? Sjá turninn, tékka við það á ‘100 greatest sights’, og drífa sig svo.

 

En Pisa var bara ansi skemmtileg heimsókn og það voru síður en svo vonbrigði að sjá skakka turninn. Ég tók klukkutíma lest til Písa frá Flórens. Þegar þangað var komið for ég sem leið lá 20 mínútna göngu í átt að helsta kennileiti borgarinnar. Ég miðaði á aðra af tveim brúm yfir Arno og fór um frekar venjulegar jafnvel hráar götur og sá ekki marga utan stóran hóps bakpokakrakka. verð að viðurkenna að mér þótti þá ekki mikið til bæjarins koma.

Síðan birtist turninn og Piazza dei Miracoli. Áður en lengra er haldið verð ég að segja að ef klukknaturninn væri ekki svona skakkur og ljótur væri þetta án efa eitt af fallegri kirkjutorgum heims. Dómkirkjan er hreint gullfalleg. Ég brá mér í miðasöluna og fékk miða í turninn tveim tímum síðar. (Muna krakkar: kaupa á netinu með góðum fyrirvara).

Tölti síðan um í leit að einhverjum þokkalegum mat stað en endaði á Strittendfud sem fær svaka fína einkunn á TripAdvisor en er beisik götu matur. Fékk mjög góðan slíkan, djúpsteikt fyllt zucchiniblóm og arancini.

Svo í turninn. Þar kom sér ágætlega æfingin frá daglegu þrammi af 7. hæð uppá Nítjándu! Reyndar hefur skólinn frétt af því, því í Flórens bjó ég á 4ðu hæð í lyftulausu! Ekki gaman að uppgötva maður gefi gleymt einhverju uppi þegar niður er komið!

En það er ekki ofsagt að engar myndir gera því skil hvernig er að ganga upp turninn þar sem hluti stigans hallar skarpt. Og uppi finnurðu rækilega fyrir hallanum. Mig hálfsundlaði og lá við sjóveiki! Stórkostleg upplifun. Ekki sleppa að fara upp! (Var næstum of seinn maður þarf að setja tösku í geymslu og vera svo mættur við turninn í röðina vel 10 mín fyrir settan tima. En ekki í fyrsta skipti slapp ég. )

Lét ekki taka af mér „halda við turninn“ mynd en það fyndnasta sem ég sá var fólk að taka slíka frá sjónarhorni þar sem hallar ekki. Öss!

Síðan miðaði ég aftur á lestarstöðina og núna fór ég á hina brúna. Þá kom ég á þetta fína breiðstræti. Greinilega “betri” leiðin, og líklega voru fyrstu kynni mín af Pisa ekki alveg rétt, þó það sé nú alltaf gaman að sjá fleiri hliðar á borgum en bara glanshliðina.

Síðan var það bara lestin aftur til Flórens og vísað til fyrri kafla!

Fleiri myndir á Flickr – Pisa 2017

Ítalía – Flórens

Posted August 3rd, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

3. kafli – Flórens

16. júlí – sunnudagur

Kom til Flórens seinni hluta dags, tók leigubíl að gistingunni minni á vegum skólans, kom mér þar vel fyrir og dreif mig svo út í kvöldmat. Ég gekk sem leið lá í skólann til að kynna mér hana, um 20 mínútna rölt og þegar hann var fundinn var beygt næstu götu til vinstri og blasti þá hin ægifagra dómkirkja við með hvolfþaki Brunelleschi.

Kvöldmaturinn var svo með útsýni og í þetta skiptið einn sá versti slíkur. Mig minnir að það hafi verið gnocchi með ostasósu. En ég sé ekki eftir neinu! Á leiðinni heim fann ég svo ísbúð og átti eftir að koma nokkrum sinnum í þá sömu enda líklega heimablandan þeirra besti ís ferðarinnar, hálfgert nammi í raun.

Og síðan var það aftur heim, ég var með herbergi hjá eldri frú og syni hennar og fékk þar morgunmat, allt frekar staðlað fyrir svona málaskólavist og bara alveg ágætlega þægilegt.

17. júlí – mánudagur

Fyrsti skóladagurinn, stutt próf fyrir fyrsta tíma til að finna mér réttan stað. Ég hef oft verið betri í ítölskunni, búinn að læra allar tíðir og myndir svo sem, en er ansi ryðgað. Lenti bara á ágætum stað, farið yfir hluti sem ég hafði séð áður og auðvelt að rifja upp. Skólinn var sem fyrr segir frekar nálægt dómkirkjunni, þessi mynd úr skólastofunni sýnir það betur.

Skólinn búinn 12:15 og þá farið í góðan göngutúr um Flórens. Ég reyndar gleymdi alveg að ganga upp á hæðina fyrir ofan, sem er eitt af því fáa sem ég man eftir úr dagsferðinni frá Rimini 1988. Ekki gert neitt að ráði, nema jú fara í ísbúð.

Þegar heim var komið hékk ég á netinu, ætlaði út að borða en á endanum nennti ég ekki. Það er ekkert nýtt í utanlandsferðum, svo sem, en á endanum reyndist þetta vera í eina skiptið sem ég dreif mig ekki út. Það er bara nokkuð vel af sér vikið fyrir mig!

18. júli – þriðjudagur

Vakna, skóli, og svo dreif ég mig til Pisa eftir hádegi. Pisa fær sér færslu!

Ég kom fyrir kvöldmat til Flórens og á leiðinni frá lestarstöðinni og heim (skólinn var einmitt á þeirri gönguleið) kom ég við á írskri íþróttakrá og spurði hvort þeir myndu ekki sýna leikinn í Evrópukeppninni. Þeir héldu það nú og ég fór heim, sturtaði mig, klæddi mig upp á og fór aftur út. Þar drakk ég góðan írskan bjór og borðaði líklega versta mat ferðarinnar: Hamborgarar á Ítalíu eru sjaldnast gúrme.

Barinn hafði verið að fyllast af börnum og það verður að segjast að hugurinn hvarflaði 30 ár aftur þegar ég var á þeirra aldri á málaskóla í útlandinu. Þó ég hefði reyndar ekki verið alveg jafn… glaður 😎

Þannig að um leið og leikurinn var búinn hraðaði þessi gamli sér burt og fékk sér ís i sárabætur.

19. júlí – miðvikudagur

Vakna snemma. Hanga á neti og lesa. Skóli til 12:15.

Planið þennan dag var að fara til Lucca. En nei. Loksins kom að því að Google klikkaði illilega. Maps var að reyna að segja mér hvaðan rútan til Lucca færi og laug illilega. Ég hafði nægan tíma, rútan átti að fara frá næsta horni við lestarstöðina kl 13:30, um 10 mínútna gang frá skólanum, ég fór þangað og beint inn á næsta veitingastað til að borða hádegisverð. Risotto reynt enn á ný og var þokkalegt, en ekkert meira.

Síðan út á stoppistöð en engin merki sá ég um Lucca rútu. Spurði inn á miðasölunni: Rútan til Lucca fer frá … og eitthvað nafn. Sagt að taka bara strætó „þaðan“ sem voru svo óljósar upplýsingar að ég fann það ekki. Snerist í hringi um sjálfan mig, argur út í allt og alla, sá að það var 20 mínútna gangur á þessa rútustöð og ákvað á endanum að gefa þetta upp á bátinn enda nú endanlega búinn að missa af 13:30 rútunni og næsta rúta eftir klukkutíma

Í staðinn for ég og steikti á mér höfuðið í tæpan klukkutíma í biðröðinni að Galleria dell’Academia til að heilsa upp á Davíð. Hann var hress og bað að heilsa.

Keypti mér besta ís í bænum og tók svo siestu. Því stundum á ferðalögum þarf maður bara að slökkva á sér í smátíma, með eða án svefns.

Og enn og aftur dreif ég mig út eftir siestuna. Rölti aðeins um bæinn, fékk mér fyrsta Aperol Spritzinn í Flórens (glæpsamlegt að bíða þrjá daga með það!) og ákvað að treysta TripAdvisor fyrir kvöldmat og hitti á meiri háttar stað.

Ég elska gott risotto og sumum kann að finnast um of að borða það tvisvar á dag, en þarna datt ég í lukkupottinn og fékk æðislegt risotto með smjöri, ansjósum, og steiktri brauðmylsnu. (Ansjósur. Já. Ansjósur. Munið hvað ég sagði um sardínur um daginn? Aftur það.)

Lagði ekki í kíló af Flórenssteik en Facebook færsla um það og hvatningar þar við breyttu skoðun minni. Sjá síðar. Fékk samt agalega góða steik og tiramisù á eftir sem var bara næstum jafn gott og mitt eigið.

Borgaði með 100 evru seðli og fékk hann svo aftur til baka með réttu upphæðinni líka. Það var afskaplega feginn karl á kassanum sem skoðaði og sá að enginn hundrað evru seðill var þar þannig það var rétt hjá mér að þeir hefðu næstum verið búnir að borga mér fyrir að borða þennan gómsæta mat.

En ef svo ólíklega vill til að ég hafi í raun sett tvo slíka seðla með og þeir platað mig? Nú þá var þetta bara á góðu Reykjavíkurverði!

Á endanum var þetta bara frábær dagur.

20. júlí – fimmtudagur

Komið að Uffizi.Fyrst þó stálheiðarleg napólsk pizzeria með átta pizzum á matseðli. Ég fékk mér auðvitað Pizza Napolí. Með ansjósum! Þetta var frábær pizza á frábærri búllu, og fékk smá limoncello í kaupbæti.

Uffizi er auðvitað yfirþyrmandi á allan hátt. Myndir af listaverkunum eru til betri alls staðar þannig ég sleppti þeim. Ég vildi ég myndi eitthvað af því sem Ólafur Gíslason sagði mér og öðrum í frábærri leiðsögn um safnið fyrir 29 árum en það er allt horfið nema það að hann mismælti sig og sagði “Fra Lippo Lippi” í stað “Filippo Lippi”. Skilji þau sem vilja.

Eftir siestu skrapp ég í drykk með skólanum sem var bara gaman, ágætlega skemmtilegt fólk, reyndar ekki nema ein úr bekknum mínum þannig ég þekkti þau ekkert fyrir né eftir. Var það lengi að það var rétt tími í þokkalegt trufflupasta fyrir svefninn.

21. júlí – föstudagur

Loksins til Lucca. Fann nýju stoppistöð rútunnar (sem var á endanum jú um 15 mínútna gang frá lestarstöðinni og hafði tíma að fara á nærliggjandi veitingastað og fá mér gríðargott smákolkrabbagnocchi með chili.

Lucca fær sér færslu!

Kom heim síðar en frá Pisa og fór beint í bólið. Með viðkomu í ísbúðinni.

22. júlí – laugardagur

Ekkert annað eftir í Flórens en að fara á lestarstöðina og taka lest til Siena. Nennti ekki að hringja á leigubíl en þrammaði með hafurtask mitt út á lestarstöð, rúmlega hálftíma leið, í nýju skónum. Og nú endanlega tóku þeir sinn toll: Ég var kominn með verulega verki í fæturna á leiðinni og þetta var næstum kvalaganga. En út á lestarstöð komst ég og næsti kafli er stuttur verður stuttur en yndislegur.

Fleiri myndir á Flickr – Flórens 2017

Ítalía – Veróna

Posted August 2nd, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

2. kafli – Veróna

15. júlí – laugardagur

Frá Sirmione lá leiðin til Veróna.

Ákvað 20 mínútum fyrir brottför að fletta upp miðanum mikilvæga fyrir kvöldið. Minnti jú að email staðfestingin hefði verið skrýtin. Finn ekkert í póstinum. Smá panik. Ákveð mig hefði dreymt miðakaupin. Fer á netið. Finn sölusíðuna. Leita að henni í póstinum. Finn staðfestinguna… um að kortasalan hefði ekki gengið í gegn.  Reyni að kaupa miða. Fæ miða á sama svæði og ætlað var. Ýti á staðfest.

Hljóp svo út, fór vitlausa leið í strætó en komst þó í tæka tíð og það tók um klukkustund að komast til Veróna. Þar var ég í herbergi á AirBnB hjá viðkunnanlegum gestgjafa sem átti mjög vingjarnlegan hund. Mjög þægilegt og alveg beint í miðbænum, um 3 mínútna gang frá Arena di Verona. Fór út og fékk mér hádegisverð við torgið, eins og ég vissi var hann dýrari en annars staðar og líklega aðeins slakari. Risottoið var samt alveg þolanlegt.

Síðan opnuðust himnarnir og valið að fara í smart skónum með gatinu á sólanum varð að röngu vali. Smellti mér upp á herbergi, skipti um skó og fór svo að kaupa aðra á útsölu í gríðarsmart búð. Þau skókaup drógu þó dilk á eftir sér sem síðar verður komið að

Kvöldmaturinn í því sem næst næsta húsi við gistinguna var síðan öldungis frábær. Gnocchi, svínakinnar og kaffi. Fékk líka lystauka og desertauka þannig það var alveg stjanað við mig. 

Svo kom hápunkturinn: Nabucco í Arena. Ég var með fínt sæti og gat notið stórfenglegs sjónarspils (flestir hestar á sviðinu í einu: 10, auk léttivagns) 200 manns í kórnum og glæsileg sviðsmynd. Söngurinn var góður og ekki á hverjum degi sem maður heyrir lög endurtekin í óperum: Va, pensiero er enda án efa innblásturinn að færslu uppsetningarinnar frá Jerúsalem og Babýlon til Ítalíu risorgimento tímans og mátti alveg við endurflutningi.

Hér er upptaka frá þessari uppfærslu í sumar í Arena. Sviðsmyndin var sem sé óperuhús.

Þar sem ég sat var ekki sungið með, enda við flest ferðafólk, en í ódýrari sætunum er sungið hástöfum. Næst!

Frábær dagur!

16. júlí – sunnudagur

Morguninn eftir rölti ég út í morgunmat og síðan steðjaði ég að ráði gestgjafans upp á hæð hinu megin við ána Adige þaðan sem útsýni yfir borgina var fagurt.

Síðan var það leigubíll á lestarstöðina og lestin til Flórens, skipt í Bologna. En það er næsti kafli.

Fleiri myndir á Flickr – Veróna 2017

Ítalía – Við Gardavatn

Posted August 1st, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Fimm ára blogghlé? Hvers vegna ekki. En ferðablogg eru alltaf skemmtileg og það þarf að festa í net söguna af Ítalíuferðinni góðu.

1. kafli РVi̡ Gardavatn

10. júlí – mánudagur

Flogið með síðdegisflugi Icelandair beint til Mílanó og lent þar síðla að kvöldi. Þá er bara að eitt að gera og það er að gista á flugvallarhótelinu. Splæsti á mig Sheraton á vellinum frekar en að þurfa að finna skutlu og fara kílómetersleið að hinu. Engu að síður var leiðin eftir flugvallargöngunum drjúg og það var þreyttur björn sem skreið í rúmið. Ég hafði reyndar gefið mér tíma til fara á hótelbarinn og njóta fyrstu ítölsku máltíðarinnar: Vel útilátins caprese. Það var eins gott og það átti að vera.

11. júlí – þriðjudagur

Rólegur morgun: Flott morgunverðarhlaðborð og svo út á lestarstöðina sem var næst hótelinu og til Sirmione. Fyrst flugvallarlestin inn á Milano Centrale og þaðan lestin til Verona með viðkomu við Gardavatn. Ég var að reyna að fylgjast með stoppunum á Google Maps en ekki í fyrsta skipti var netsamband slælegt og ég fór stöð of langt, þurfti að finna strætó og síðan bíða í klukkutíma eftir honum. Þannig ég var aðeins seinni á hótelið en ætlað var en loksins um þrjúleytið var ég kominn í langþráð sólbað í almennilegum hita, 33°C. Í eftirmiðdagssnarlið kom gestur, fuglarnir voru ágengir og vildu sitt.

Kvöldmaturinn var á hótelinu sem fékk alveg þokkalega dóma á TripAdvisor og var samt ekki alveg nógu fínn. Kolkrabbinn þolanlegur og tiramisù ekki nógu gott. En það var stutt að labba upp á herbergið á fjórðu hæð (stiginn. alla daga. alltaf.)

Herbergið var annars af betri gerðinni. Stórt og gott, með sturtu og baðkari. Baðkarið reyndar í herberginu sjálfu og opinn gluggi úr sturtuklefanum  með útsýni yfir karið og svalirnar. Ekki herbergi fyrir spéhrætt fólk að deila.

 

12. júlí – miðvikudagur

Sól, sól, sól, sundlaug og sól. Nokkrir Magnum Double Lampone hindberjaísar og einn og einn Aperol Spritz, opinber drykkur ferðarinnar.

Um kvöldið labbaði ég áleiðis að gamla bænum í Sirmione, en ekki alla leið, áfangastaðurinn mjög góður veitingastaður hálfa leið. Fékk þar eina bestu pizzu ævinnar með mozzarella, taleggio osti, porcini sveppum og truffluperlum. Æðislegt.

13. júlí – fimmtudagur.

Meiri sól! Meira sólbað. Meiri ís! Meira Aperol!

Um kvöldið fór ég svo alla leið inn í gamla bæinn í Sirmione sem er undurfallegur. þetta var um 30 mínútna gangur.

Út fyrir þægindarammann byrjaði í fyrra í Frans og það var alltaf planið. Ég fann góðan veitingastað, gat valið um þrjá smakkseðla, vatnsrétti, sjávarrétti, og landrétti Fékk mér smakkseðil “vatnsins” og þó forrétturinn, bleikju karpatsjó hefði ekki verið góður, var pasta með sardínum guðdómlegt, og aðalrétturinn, bleikja, frábær. Já. Ég borðaði þríréttað fiskmeti. Þér finnst það ekki jafn ótrúlegt og mér. Enn ótrúlegra: Mér fannst sardínur æðislegar. Þekki varla sjálfan mig.

Á eftir stoppaði ég við einn af hundrað íssölum í bænum og líklega þann besta. Pistasíuís ætti ekki að vera eiturgrænn enda var þessi náttúrulegur og stórkostlegur.  Naut svo útsýnis í þessum indæla bæ við þetta yndislega vatn og tók strætó heim, svona fyrst hann renndi við þegar ég var við stoppistöðina

14. júlí – föstudagur

Skýjað að mestu. Rölti um Columbare, bæinn sem hótelið er í raun í enda Sirmione víst bara gamli bærinn. stálheiðarleg quattro stagione var hádegisverðurinn. Góð hvíld á hótelinu og síðan gamla Sirmione aftur um kvöldið og engu síður heiðarlegt spaghetti alle vongole. Og þó ég þoli ekki ammrískt kanilnammi for ég að ráðum vinar og fékk mér kanilís. Og hann er bara svona góður! Aftur strætó heim, og smá rölt.

Góðir dagar við Gardavatn gerðu nákvæmlega það sem ætlast var til: Hvíld, sól og base-tan og góður matur í fallegu umhverfi.

Fleiri myndir á Flickr – Sirmione 2017

 

Flugið til Montevideó er um 3 tímar og ég kom síðla dags. Flestir farþegarnir virtust reyndar vera að fara í tengiflug, skv flugblaðinu er flugfélagið vinna í að gera Montevideo að höbb… eins og alls staðar. Eins og sést af þessum ferðum mínum er yfirleitt erfitt að finna bein flug milli landa sem ekki eru aðliggjandi, höbbarnir rúla.
Um leið ég kom út úr vélinni og fór upp í rútuna sem keyrði okkur að flugstöðinni vissi ég að veturinn var kominn. Brrr… Síðan splæsti ég mér í taxa sem ég sá ekki eftir, geysi falleg leið eftir strö… árbakkanum.
Ég gisti á gömlu en þokkalegu hóteli á mörkum gamla og nýja miðbæjarins og var strax fengið í hendurnar kort sem sýndi hvar var öruggt að fara eftir myrkur og var mestur hluti gamla miðbæjarins utan þess svæðis. Ég var alveg rólegur yfir því enda ætlaði ég mér lítið út á kvöldin. Nema þetta fyrsta kvöld fór ég niður á næsta horn og horfði á Úrúgvæ rétt hafa jafntefli í fyrsta leik sínum í Copa. Vandræði stóru liðanna halda áfram.
Daginn eftir fór ég í þokkalega göngutúr og sá að það væri líklega göngufært út á eina bókaða staðinn sem ég þyrfti nauðsynlega að skoða, Estadio Centenario.
Fann líka eina flottustu bókabúð sem ég hef séð. Ekki frá því ég hafi einhvern tímann séð myndir af henni á netinu.
Montevideo 18
Daginn eftir var ég þó lengi að drífa mig út (netið heillar alltaf) og endaði á að rölta góðan spöl eftir aðalgötunni, fá mér hádegisverð og taka síðan taxa út á völl.
Þar byrjaði ég á að skoða fótboltasafnið sem þar er, mjög skemmtilegt safn, en ansi svarthvítt, enda var gullöld Úrúgvæ 1924-30, Ólympíumeistarar ’24 og ’28 og auðvitað heimsmeistarar á Estadio Centenario 1930, og héldu keppnina vegna Ólympíusigranna.
Montevideo 25
Þarna voru ýmsar minjar frá þessum árum, treyjur, skór og fleira, ánægjulegt að sjá hvað geymst hefur.
Síðan var hægt að fara út á stæðin. Það verður að segja að völlurinn er geysilega beisik, en samt gaman að koma.
Montevideo 41
Síðan gekk ég aftur til baka, og var kominn á kunnuglegar slóðir eftir hálftíma, þrjú kortér.
Þá var ekki annað að gera en að rölta meira um bæinn, fá sér í svanginn og síðan heim á hótel.
Þetta stopp í Montevideo var kannske ekki það merkilegasta sem ég hef gert, en það var gaman að koma þarna. Að mörgu leyti virkaði þetta frekar heimilisleg borg. Það var ansi kalt, um 5°C, og bæjarbúar bjuggu sig vel, dúðaðir í úlpur og ullarfrakka, nær öll með trefla og flest með húfur. Vildi til að að var aldrei rigning þannig þetta var nú ekki svo slæmt eftir allt saman.
Montevideo 22
Á fimmtudeginum var síðan enn komið að því að ferðast, ég sveiflaði bakpokanum á mig og gekk í gegnum gamla bæinn út að höfn þar sem ég tók þægilega þriggja tíma ferjusiglingu yfir upp ána Rio de la Plata til Buenos Aires.

Eins og fyrr var drepið á lenti ég í Río rétt eftir miðnættið á föstudagskvöld/laugardagsmorgun og komst ekki á gistiheimilið fyrr en um 2 leytið og fékk í fyrsta sinn að reyna að vera í 9 manna herbergi (átti að vera í 6manna, smá mistök, skipti litlu). Það var bara þokkalegt. Hafði ekki hengilás þannig ég svaf með litlu töskuna í stað þess að geta geymt hana í skáp. Þetta var á Copacabana ströndinni og á laugardeginum gerði ég hvort tveggja að rölta um nágrennið og strandveginn, og að slappa af uppi á hosteli. Dreif mig samt út um kvöldið og fékk mér steik og síðan einn öl uppi á gistiheimili. Vaknaði um 7 leytið á sunnudeginum og dreif mig niður, og var mjög ánægður þegar bakpokinn minn lét svo fljótlega sjá sig. Þá var lítið annað að gera en að drífa sig yfir á næsta hótel. Hafði splæst í gott hótel á næstu strönd við, Ipanema. Það er ágætt… en auðvitað eins og á alvöru hótelum kostar netaðgangur. Bú! En stutt frá er ágætis bar og veitingastaður með frítt WiFi sem eru núna mínar aðrar bækistöðvar (ágætis trúbador að taka alla standardana núna, Girl from Ipanema og allt það) Rak augun á laugardaginn í auglýsingu um gæded túr á leiki, hafði ekki spáð í að brasilíska deildin tekur ekki Copa pásu. Fór ekki á Flamengo á laugardaginn, held að Ronaldinho hafi átt stórleik. hmm. Skv hostelinu var ekkert mál að fara sjálfur, túrinn með gæd og ferðum kostaði 85 reais (72kr per real) og á nýja hótelinu var sams konar ferð auglýst á 150. Þannig ég dreif mig bara með metró upp á Central stöðina, og þaðan með tram. Virtist reyndar um tíma að það kerfi væri lokað, en svo opnuðu þeir og ég elti bara KR búningana…
Leikurinn var Botafogo – Gremio á Olympíuleikvanginum Joao Havelange. Þar komast nú fyrir um 46þúsund manns, en hann verður stækkaður í 65 þúsund fyrir Ólympíuleikana 2018. Allir helstu leikir í Ríó fara nú þar fram þar sem Maracanã er lokaður vegna breytinga. Það voru rúmlega 13 þúsund manns á leiknum og nær allir í svarthvítum búningum Botafogo. Stemmingin var svakalega góð, en leikurinn ekki mikið svo. Veit ekki hvort mikið vantaði í liðin útaf Copa, en þó að stöku spilarar sýndu sólótilþrif, var samspilið ekki mikið betra en heima. Botafogo voru miklu meira með boltann, en markvörðurinn þeirra bjargaði tvisvar maður á mann í fyrri hálfleik.
Rio de Janeiro Olympic Stadium
Um miðjan seinni hálfleikinn misstu Gremioar mann útaf yfir 2 gul, og verður að segjast að menn ‘hlupu vel á’ eins og pabbi gamli orðaði það alltaf þegar líkamsburðir voru látnir ráða.
2 mínútum síðar náðu Botofogomenn að skora, í þetta sinn tókst að sóla næstum boltann inn sem hafði reynst þeim ofviða áður. Svo klikkuðu flóðljósin þannig við fengum 20 mínútna aukapásu. Eftir að leikurinn byrjaði aftur skoruðu Botafogo aftur og þó Gremiomenn kæmu sterkir inn bjargaði markmaðurinn enn og aftur Botafogo og þegar hann klikkaði (missti bolta frá sér og Gremio skoraði) var of lítið eftir, 2-1 og heimamenn fögnuðu.
Í morgun fór ég svo í staðlaða pílagrímsferð á Maracanã. Skoðaði safnið þeirra (sem er í tímabundnu húsnæði vegna breytinga) og fékk flotta yfirsýn yfir völlinn. Búið er að rífa upp allt opnasvæðið og mestöll stæðin og verið að endurbyggja allt fyrir HM. Kostar einhverja 50ma kr.
Rio de Janeiro 064
Spurning um að drífa sig 2014?

Frá Perú flaug ég til Guayaquil, stærstu borgar Ekvador. Ég hafði pantað mér siglingu um Galápagos eyjar gegnum ferðaskrifstofu tengda hostelinu sem ég var á þannig þetta var vonandi allt að ganga upp. Eina babbið í bátnum var að gemsinn minn vildi ekki tala við nein símafyrirtæki þarna, og var svo út Ekvadordvölina, og ekki fann Síminn neitt út úr því.
Snemma á fætur á sunnudagsmorgni og út á flugvöll þar sem tók við flug til Baltraflugvallar á Galápagos. Þar tók við stutt rútuferð niður að lítill bryggju, 2ja mínútna sigling yfir lítið sund milli eyja og þá var ég kominn á norðurströnd Santa Cruz eyjar og þaðan var um 40 km ferð með rútu til Puerto Ayora, 10 þúsund manna bæjar á suðurströndinni og stærsta bæjar eyjanna.
Ég hafði pantað flugin á undan bátsferðinni og hafði haft vaðið fyrir neðan mig hvað tímasetningu varðaði og átti ekki að halda á hafið fyrr en á mánudag. Því var fyrsta mál á dagskrá að finna hótelherbergi og tókst það með ágætum, svo vel að ég bókaði það líka fyrir þær tvær nætur sem ég þurfti að bátsferðinni lokinni.
Á mánudeginum var ég mættur á hádegi út á bryggju en enginn var að taka á móti mér. Þóttist ég þó sjá bátinn minn, Yate Darwin. Leið og beið og loksins brá ég mér frá og fann síma og hringdi á ferðaskrifstofuna sem tékkaði á málinu og sagði mér að taka leigubát út á Darwin. Sem ég kom niður á bryggju sá ég hóp fólks í björgunarvestum merktum Darwin og stóð heima þar voru samferðamenn mínir sem höfðu tafist vel við að komast frá flugvellinum vegna flugtafa. Þannig að ég komst um borð.
Fyrsta daginn var dagskráin einföld. Farið var frá Puerto Ayora í rútu upp í hæðirnar á Santa Cruz eyju og farið í skjaldbökuskoðun. Það var stórfenglegt að sjá þessa hægfara risa í sínu eðlilega umhverfi. Mikil vinna hefur verið unnin í björgun sem flestra tegunda þeirra, enda ein eða fleiri tegund á hverri eyju. Sú vinna er unnin í Darwin rannsóknarstöðinni sem ég kem að síðar.
Í fyrsta en ekki síðasta skipti komst maður að hversu laus dýrin þarna eru við styggð. Ef ekki væri fyrir reglur þjóðgarðsins sem nær um stærstan hluta eyjanna væri eflaust svo ekki, en bannað er að koma nær dýrum en nemur 2 metrum. Kom fyrir að maður var aðeins nær en enginn í mínum hóp braut reglur illa.
Síðan var haldið til baka í bátinn, kvöldverður snæddur og ég fór snemma í háttinn eftir að hafa gripið eina sjóveikipillu sem voru þarna í skál eins og hvert annað nammi. Ekki fann ég þó til sjóveiki, en um nóttina var siglt til næsta áfangastaðar, sem var Rapida eyja.
Þar var byrjað á að ganga um eyjuna, okkur sýnt hálfsalt lón sem áður var flamingóa aðsetur en sæljónin höfðu eyðilegt það með að róta upp jarðvegi og breyta því. Næst kom okkur skemmtilega á óvart þegar ungur Galapagosfálki settist í tré rétt við okkur og hreyfði sig ekki þó við gengjum í kring og tækjum myndir í gríð og erg.
Galapagos 068
Annað markvert var auðvitað landslagið sem minnti um margt á Ísland, t.d. móbergsfjallið sem var hálf niðurbrotið nálægt bátslæginu okkar.
Eftir gönguferðina var fyrsta snorklferðin og komst maður þá í kynni við alla þá litfögru fiska sem þarna svömluðu um. Vatnið var ofurtært og mikil upplifun.
Síðan um borð, smá hvíld, hádegisverður og siglt til Puerto Egas. Bátnum fylgi tugur freigátufugla sem sveimuðu yfir, en lentu fæstir.
Í Puerto Egas var sama dagskrá, ganga og snorkl.
Nú komst maður verulega í kynni við sæígúönurnar, sæljónin og loðselina. Það er eitt að vera sagt að dýr séu í góðum felulitum, nokkuð sem manni finnst oft ekkert augljóst í náttúrulífsmyndum, enda fókuserað vel á þau en ég er enn steinbitoghissa á að enginn í hópnum hafi stigið á iguönu, svo vel falla þær að klettunum. Jafnvel stórir hópar hverfa.
Á snorklinu sást sama og áður og síðan rákumst við á sæljón.
Aftur um borð, matur, og um kvöldið var stímt á næsta stað, Bartolomé eyju.
Galapagos 228
Gangan þar var upp á hæsta punkt og sást þar víða að. Þetta var að mörgu leyti afskaplega íslenskt landslag, enn lítt gróið. Snorklið var frábært, sáum mörgæsir og sæljón og margt fleira. Sem fyrr var þetta eins og að synda í fiskabúri með ótrúlegri litadýrð fiskanna.
Síðari áfangastaður dagsins var Kínahatturinn, Sombrero Chino. Er það bara ég eða lítur þetta út eins og Eldborg?
Galapagos 2 046
Þar voru fleiri selir og sæljón og allar tegundir hrauns. Í snorklinu var hins vegar að líta sæskjaldböku, syndandi igúönu, tvo litla hákarla og fleira.
Enn var snæddur kvöldverður og síðan siglt um nóttina á síðasta áfangastað , Isla Seymour. Dagurinn var tekinn eldsnemma enda þurfti að koma flestum í flug, en á þessu rölti var tvennt sem skipti máli, að sjá bláfætta búbba, bluefooted boobies, og freigátufugla með þandan rauða belginn. Hvort tveggja tókst með ágætum, auk fjölda köngulóa, landígúana, og sæljóna.
Galapagos 2 108
Síðan var lent við Baltra, farið í rútu á flugvöllinn þar sem flestir fóru, en ég fór til baka sömu leið og fyrsta daginn til Puerto Ayora þar sem ég eyddi næstu tveim dögum í rólegheitum.
Eina dagskráin var að fara í rannsóknarstöð Darwinstofnunarinnar sem er í Puerto Ayora. Þar eru aldar upp skjaldbökur og igúönur til að sleppa á heimaeyjunum og hefur tekist mjög vel.
Nema með aumingja Lonesome George sem er eina skjaldbakan sem á lífi er af Pintueyjaskjaldbökum. Hann er um 100 ára gamall og reynt hefur verið að kynna hann fyrir skjaldbökum af annari tegund en hann hefur lítinn áhuga og í eina skiptið sem fylgdarskjaldbaka hans hefur verpt urðu engir ungar úr.
Síðan flaug ég til Guayaquil á laugardegi, eldsnemma á sunnudegi til Bogotá þar sem ég er nún á flugvellinum og bíð eftir áframhaldandi flugi til Caracas

Mánudagur
Flaug frá Lima til Iquitos, hinu megin við Andesfjöllin. Eins og venjulega á ferðalaginu þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af útsýninu enda fékk ég ekki gluggasæti.
Þegar til Iquitos var komið minnti veðrið mig strax á hvar ég var, heitt og mollulegt. Ég var búinn að bóka ferðina mína, og á vellinum var tekið á móti mér af fulltrúa fyrirtækisins Explorama og ég og aðrir farþegar á vegum þeirra vorum keyrð í fornfálegri rútu með tréyfirbyggingu og öllum gluggum rennt niður í falsið til að fá smá kælingu.
Iquitos 01
Það var ljóst hverjir áttu samt göturnar þarna, hvert sem litið var var fullt af motocarros, eða tuk-tuks eins og þeir sem farið hafa til Suðaustur Asíu þekkja mótorhjólavagnana. Farið var með okkur niður að á og við drifin um borð í bát og siglt út á fljót. Fyrsti viðkomustaður var Ceiba Tops, fínasti staðurinn sem Explorama býður upp á, ég átti eftir að kynnast honum aðeins síðar. Síðan vorum við tveir eftir, ég og gamall Ástrali, sem fórum á næsta stað, Explorama búðirnar. Þær eru frekar beisik, en þó var rennandi kalt vatn, baðherbergi með sturtu og salerni ensuite. Síðan óvænt ánægja, nettenging í matsalnum. Þar voru líka einu rafmagnstenglarnir. Lúxus 🙂
Amazon 018
Þegar við vorum búnir að koma okkur fyrir vorum við drifnir í fimm mínútna göngutúr til þorps innfæddra. Það var þó í raun bara sýningarþorp, strákofar í gamla stílnum og notaðir til að reyna að selja dót, t.d. blásturpípur og örvar (sem öldungur þorpsins sýndi okkur hvernig eru notaðar) og fleira glingur. Ég keypti ekkert en fyrir þarna var hópur Kana sem keypti slatta þannig að ég var með minna samviskubit. Í ljós kom að þetta var skólaferðalag 11 og 12 ára krakka. Í samtali síðar um kvöldið viðurkenndu pabbarnir að þetta var nú enginn fátæklingaskóli, besti einkaskólinn í Kansas City sem var þarna á ferð.
Á eftir þorpsheimsókninni tók við heimsókn í sykurreyrbrugghús sem var þarna rétt hjá. Okkur var sýnt hvernig reyrinn var pressaður með 100ára+ gamalli pressu, knúinni af ösnum, eða fólki í þetta skiptið, og síðan var okkur boðið að smakka sitt hvað af brugginu.
Síðan var haldið heim og hlaðborðskvöldverður tók við, síðan smá skrepp á barinn. Ég hafði kynnst þarna strax enskum, eða öllu heldur velsk/kínversk-malasískum læknanema sem var þarna til að rannsaka og taka viðtöl við þorpsbúa nærliggjandi þorps um sníkla og við tókum tal við nokkra af foreldrunum, pabbana aðallega, sem voru ferskir á barnum og við tók smá briddskennsla. Ágætt kvöld og síðan var gengið út á herbergi eftir timburgönguleiðunum, allt byggt vel upp enda flæðir þarna vel um, við vorum enn á blautum tíma og gátum siglt út litla hliðará sem búðirnar eru við sem eru oftast ársins þurrar. Lýsingin var olíulampar með sitronella lykt til að fæla frá flugur og sama inni á herbergjum. Síðan var skriðið undir þéttriðið moskítónet til svefns. Morguninn var tekinn snemma og við tveir sem höfðum komið með fluginu var skeytt í hóp með fjögurra manna þýsk/indverskri fjölskyldu og við vorum síðan saman þessa daga. Fyrsta mál á dagskrá var veiðiferð. Farið var niður ána og síðan aðeins upp hliðarána Tambo sem rennur þarna í Amazon. Farið var upp smá sprænu sem var róleg og mjó og farið að renna fyrir.
Amazon 098
Allir fengu amk einn pirana fisk á færið en þeir voru flestir litlir og fengu líf en nokkrir voru teknir með heim. Þeir voru síðan steiktir í hádeginu en fyrir mistök framleiðslumanna fengu þýskt par þá frekar en þau þýsk/indversku sem höfðu veitt þá stærri. Þetta par datt ekki annað í hug en að gúffa þá í sig án frekari pælingar. Gátum þó bjargað tveimur þannig að litlu strákarnir 2 fengu smá smakk.
Eftir hádegið var farið að reyna að finna höfrunga. Á morgunferðinni höfðum við séð tvo gráa höfrunga í yfirborðinu og við vorum svo heppin að á stað sem leiðsögumaðurinn hafði áður séð þá var hopur af bleikum höfrungum. Þeir gerðu lítið meira en að rétt koma í yfirborðið… en samt gaman.
Síðan var farið inn í hliðarárnar, og á endanum enduðum við í litlu stöðuvatni, sem eins og allt þarna í kring fer alveg eftir árstíð hvað er stórt. Það er svokallað svart vatn, dökkt á lit og mjög súrt. Þar sáum við m.a. stórar vatnaliljur og á leiðinni amk eitt risaletidýr.
Kvöldið var svipað nema bandaríski hópurinn var farinn í næstu búðir og við Siân vorum tvö á barnum. Kvöldið fór aðallega í umræður um kosti og galla mismunandi menntakerfa 🙂
Eitt af því eftirminnilegra þarna voru fjórir macaw páfagaukar sem höfðu áður verið í eigu búðanna en hafði verið sleppt, þeir komu þó þarna á hverjum degi. Einn virtist vængbrotinn, en hinir virtust mjög hjálplegir honum og vernduðu hann ef einhver ætlaði að nálgast hann um of.
amazon 026
Snemma farið í háttinn enda var ræs eldsnemma til að fara í næstu búðir, ExplorTambo sem voru við Tambo ána sem fyrr var nefnd. Ferðin tók um einn og hálfan tíma og við tók morgunmatur. Bandaríski hópurinn var þarna enn. Í þessum búðum var aðbúnaður enn meira beisk, sameiginlegir kamrar og rennandi vatn í einum vaski. Þó var rafmagn og nettenging í matsalnum. Eftir morgunverðinn var farið í 45 mínútna göngu gegnum frumskóginn að trjátoppagöngunni. Þar er búið að smíða haganlega palla í trjátoppunum og hengibrýr á milli. Hæst er farið í um 85 metra hæð. Stórfenglegt útsýni og ágætis lofthræðslumatur. Því miður er dýralífið lítið þarna þegar svona langt var liðið á morgun og farið að hitna, en engu síður svakaleg upplifun. Fórum síðan aðra leið til baka og tókum um klukkutíma. Ótrúlegt að rölta svona gegnum alvöru frumskóg. Hádegismatur í búðunum og síðan fengum við klukkutímafyrirlestur frá lyflækni nærliggjandi sem er umsjónarmaður grasagarðs sem þarna er. Hann er alvöru ‘medicine man’, treystir á grös og seyði náttúrunnar og sem hluti af náminu frá fyrirrennaranum er reglulega farið út í skóg og neytt ofskynjunarseyðis sem sýnir þeim hvaða lyf og plöntur henta. Uhuh. Nákvæmlega. Ég treysti HÍ betur… Við fengum ágætis fararstjóra frá búðunum, snákaveiðandi fugl sem er alveg stolið úr mér hvað heitir, hann fylgdi okkur af kostgæfni fram og tilbaka. Er víst vanur þessu.
Síðan tók við ferð til baka í búðirnar okkar, afslapp og eftir kvöldmat var síðan nætursigling um lítinn læk bakvið búðirnar, rerum á litlum kanó í um klukkustund, sáum reyndar fátt en heyrðum þess meira. Gaman og spúkí.
Einn drykkur á barnum enda skuldaði ég þjóðverjanum frá því fyrr umdaginn þegar kókþorsti í ExplorTambo var mikill en minna fór fyrir að ég hefði veskið með mér.
amazon 035
Morguninn eftir var síðasti dagur og aðeins eitt á dagskrá, ferð á Apaeyju. Þar er prógramm í gangi til að viðhalda og vernda apastofna og þeir eru þarna hálfvilltir, fóðraðir en samt frjálsir og mannelskir. Síðan farið í Ceiba Tops. Þar er lúxus, herbergin lokuð með loftkælingu, lúxus baði og heitu vatni í sturtunni. Í Explorama var ekkert loft í herbergjunum, þau í raun bara skilrúm og síðan sást beint upp í þakið sem var sameiginlegt öllum herbergjum, í raun hægt að klifra yfir skilrúmin í næsta herbergi. Þakið var auðvitað ofið úr laufum. Ekkert svoleiðis í Ceiba Tops. Svo var auðvitað sundlaug. Við Ástralinn vorum á leið til Iquitos en fjölskyldan átti eina nótt eftir. Öll fengum við þarna herbergi til afnota, það var frábært að komast í heita sturtu. Síðan var hádegisverður og við tveir héldum síðan til Iquitos en hin fóru til baka til Explorama.
Ég atti ekki flug fyrr en daginn eftir þannig ég hafði fundið mér hótel í Iquitos og kom mér þar vel fyrir og slakaði á. Það var þó verið að byggja við hótelið og mikil hamarshögg. Ég lét það ekki á mig fá, og ekki heldur mikla rigningardembu sem ég vaknaði við er leið að miðnætti. Ekki tókst þó betur til en allt fór að leka og þegar ég rumskaði næst var allt á floti í herberginu. Ég fékk annað herbergi og sofnaði aftur, eftir að hafa dreift dótinu mínu til þerris, erfitt í rakanum. Morgunin eftir fór ég út á verönd á annarri hæðinni og sá þá ástæðuna, viðbyggingin var ofan á hótelið og beint fyrir ofan fyrra herbergið mitt var steypt hæð án glugga og því auðskilið hversvegna leikið hafði úr loftinu.
Herbergið mitt
Ég kláraði að þurrka mitt dót og hótelþernurnar skelltu einhverju í þurrkarann fyrir mig. Kennir manni að skilja föt eftir á gólfinu og láta bakpokann liggja!
Síðan út á flugvöll (auðvitað með motocarro!) og aftur til Lima. Gisti á sama litla hostelinu rétt hjá flugvellinum og ég hafði gist á við komuna til Perú og síðan morguninn eftir til Guayaquil í Equador.

Tikal

Posted May 25th, 2011. Filed under ferðalög frí Guatemala Túrinn 2011

Á föstudaginn var lauk dvöl minni í Xela. Ég er búinn að læra heilmikið í spænsku, ekki annað hægt með einkakennara. Tekur að vísu svolítið á, aldrei hægt að slaka á í tímum og leyfa öðrum að spreyta sig. Á móti kemur að ég réði vel ferðinni og lét kenna mér mikið í málfræði, enda flest einfalt að skilja með hliðsjón af öðrum málum. Orðaforðinn kemur svo.
Á föstudag fór ég til Antigua, aðal ferðamannabæjarins í Guatemala. þar er mikið um gamlar byggingar, og rústir, enda var borgin áður höfuðborg, en yfirgefin að mestu eftir mikla jarðskjálfta á 18. öld. Falleg og flott, en mjög túrístísk og ég er ánægður með að hafa frekar lært í Xela, meira ‘alvöru’ finnst mér einhvern veginn.
Eldsnemma á mánudag fór ég síðan út á flugvöll og flaug norður í land, til Flores. Þaðan er um klukkutíma akstur til Tikal. Ég keypti pakkaferð þangað, og ákvað að gista á hóteli innan þjóðgarðsins, og skipta skoðunarferðinni í tvennt, eftirmiddags/kvöldferð og morgunferð.
Skemmst frá að segja að fáar ákvarðanir hafa verið betri. Þetta var í einu orði sagt stórfenglegt.
Ég var kominn á hótelið fyrir níu, og eyddi deginum að mestu í og við sundlaugina. Klukkan hálfþrjú var farið af stað og gengið inn á svæðið. Fyrstu rústirnar sem við fórum um voru frekar litlar en fljótlega var komið að brattasta hofinu sem við myndum skoða.
Tikal 029
Ég dreif mig upp, en fyrir lofthræddan var það meira en að segja það. Þó stiginn sé brattur var svosem allt í lagi að fara upp og niður, ég starði bara á vegginn og leit hvorki upp né niður. Þegar upp var komið var lofthræðslan öllu meiri!
Tikal 034
Útsýnið var þó stórkostlegt.
Tikal 041
Þetta var ekki síðasta hofið sem ég fór upp á og eftir þetta var lofthræðslan aldrei jafn mikil.
Nokkru síðar vorum við kominn inn á Gran Plaza, þar sem margar aðalbyggingarnar eru. Tvö hof eru þar andspænis hvort öðru og til hliðar eru miklar byggingar á svonefndum akrópólisum. Við fórum upp á annað hofið:
Tikal 071
og skoðuðum síðan akrópólísin. Þar sem algengara er að fólk komi að degi til og halla var farið af degi vorum við um tíma eini hópurinn þarna og það jók á stórfenglegheitin. Við sáum sólina setjast þarna og héldum síðan heim á hótel, í niðamyrkri.
Hópurinn sem hafði farið saman hafði smullið gersamlega saman og þegar heim var komið skelltum við okkur í laugina, tókum pina colada í laugina og slökuðum aðeins á, en fórum snemma að sofa, enda var ræs fyrir fjögur morguninn eftir til að labba þvert yfir allt svæðið til að komast að einu nyrsta hofinu til að horfa á dögunina.
Það var farið að bjarma af degi þegar við komum þar upp og hægt að grilla í næsta hof gegnum mistrið, fyrst um sinn
Tikal 107
En mistrið jókst eftir því sem á leið og birti. En sólarupprásin var aukaatriðið, að hlusta á skóginn vakna þar sem við sátum þarna fyrir ofan frumskóginn er gjörsamlega ógleymanlegt.
Tikal 113
Eftir að niður var komið voru frekar hof skoðuð. Því miður máttum við ekki fara upp á pýramídann sem notaður var til stjörnuskoðunar, það var bannað eftir að kona féll niður af honum og lést fyrir 2 árum.
Að lokum fórum við aftur inn á Gran Plaza og skoðuðum þann hluta akrópólis sem hafði orðið útundan daginn áður. Ekki laust við að ég væri orðinn ansi lúinn
Taking a nap on an Incan bed
Þegar heim var komið tók við góður morgunverður, laugin og síðan slakað á þangað til tími var kominn á að fljúga aftur til Ciudad de Guatemala þar sem ég gisti á ágætis gistiheimili í nótt og á svo flug til Perú kl 1 í dag

Og ég sem ætlaði að vera svo duglegur að blogga…
Búinn að vera hér í Xela/Quetzaltenango í tæpar þrjár vikur og líður að brottför. Spænskunámið er fimm tímar á dag, með hálftíma hléi og satt best að segja er það ansi þreytandi og ég hef lítið gert annað. Þó brá ég mér af bæ um síðustu helgi, og byrjaði á að fara til Panajachel sem er við eitt fegursta stöðuvatn heims, Lago Atitlán. Vatnið er í dal sem umkringdur er eldfjöllum og eina frárennslið mun vera neðanjarðar.
Lago Atitlan
Því miður var verulegt mistur þennan daginn og ég ákvað að bjóða ekki sjóveiki byrginn heldur sleppa því að sigla til annarra þorpa við vatnið þar sem útsýnið myndi ekkert batna. En fallegt var þarna og gaman að eyða deginum.
Daginn eftir tók ég rútuna (túristaskutlu, ekki kjúklingarútu, held að bílveiki sé næsta örugg ef ég tæki hana) til Chichicastenango og rölti um sunnudagsmarkaðinn þar. Þetta mun vera aldagamall markaður, en í dag virðist mega skipta honum í tvennt, annars vega bása með fatnaði eða öðrum vefnaði, og hins vegar matarmarkað. Fyrrnefndi hlutinn er stílaður á túrista, en hinn síðari krefst að mér sýndist stálmaga þannig þar voru það heimamenn sem versluðu. Þetta er verulega meiri fjallabyggð en Xela og ljóst að heimamenn eru aðeins meira ‘orginal’, amk er hæðin nokkuð minni en hér í Xela.
Í síðustu viku skrapp ég líka til baðstaðar hér uppi í fjöllum,
Fuentas Georginas 006
Fuentas Georginas, þar sem heit uppspretta er notuð beint til að fylla nokkrar misstórar laugar. Vatnið flæðir á milli þannig að laugarnar eru misheitar. Sú stærsta, næst uppsprettunni var of heit fyrir mig að dýfa meira en stóru tá í, en sú næsta var mjög temmileg, enda líka köldu vatni þar bætt í. Auðvitað var síðan bara ískalt vatn í sturtunni. En það var mjög mjög ánægjulegt að komast aðeins í heitt bað, sturtan hér er ekki of heit, og líka mjög traustvekjandi að sjá rafmagnssnúruna liggja inn í sturtuhausinn.
Annars liggja nú næstu skref nokkurn veginn fyrir hjá mér. Á föstudag held ég til Antigua, verð þar um helgina, vakna eldsnemma á mánudag til að vera skutlað út á flugvöll í Guatemalaborg þaðan ég sem flýg til Flores og eyði 2 dögum í Tikal, gisti í þjóðgarðinum og tek sólarupprásarferð daginn eftir, flýg síðan til Guatemalaborgar á þriðjudagseftirmiddag og síðan flýg ég til Lima í Perú á miðvikudaginn kemur. Fyrstu dagarnir í Perú verða vonandi hektískir, blogga það þegar það kemur, vona það gangi bara vel.