Not my first rodeo

Posted January 3rd, 2018. Filed under átak bækur markmið

Árið 2017 var ár áta…breytts lífstíls. Eins og ég sagði í áramótauppgjörinu er þetta ekki í fyrsta skiptið, en engu að síður í fyrsta skipti sem ég hef enst í heilt ár með heilnæmara mataræði, sælgætis- og sykurgosbindindi. Reyndar er svo komið að ég má fá mér einn og einn nammimola, og mest allt síðasta ár var einhvers konar dökkt súkkulaði í skápnum, enda ekki hægt að fá sér nema 1-2 bita af svoleiðis án þess að vera búinn að fá nóg.

Ég byrjaði reyndar seint að halda nákvæma viktardagbók, en eins og þessi mynd sýnir hefur þetta ekki enst fyrr svona lengi

Þessi ágæta mynd sýnir auðvitað líka hvað gerist óumflýjanlega þegar ég hætti að hugsa um viktina!

Ég fann þetta ágæta Excel skjal í morgun, það hafði reyndar aldrei týnst, en fann annað í leiðinni, “Markmið 2010” þar sem ég hafði sett mér ýmis konar markmið fyrir það ágæta ár. Það var ágætt að sjá það enda hafði ég ímyndað mér að gera eitthvað svipað þetta árið og gott að rifja upp að þetta tókst ekkert svo vel 2010. Reyndar hélt ég út í hálft það ár, en svo hallaði undan fæti.

Talandi um markmið?

En ég ætla að vona það besta og gera mitt til að gera 2018 frábært!

 

Það er ekki eins og ég hafi ekki nóg til að eyða tímanum í, eða horfa á í sjónvarpinu, en Making Light er búið að kveikja í mér. Þar á bæ er hafið enduráhorf á einhver… nei köllum það bara bestu sjónvarpsþáttaröð allra tíma, Babylon 5. Þannig að ég ætla að gera slíkt hið sama. Langt síðan ég horfði síðast á snilldina. Ætli þetta endist ekki vel fram á vorið?
Planið um að klára sem flestar bækur um helgina verður eitthvað slakara fyrir vikið, bunkinn af bókum sem ég er byrjaður á og kominn eitthvað áfram í er orðinn allt of stór og ætlunin var að grynnka á honum.
Kláraði þó ævisögu Gunnars Thoroddsen í gærkvöld. Nokkuð ánægður með bókina þó að ég finni á henni vankanta, svo sem að ekki sé nógu skýrt hverjar pólítískar áherslur hann hafði síðustu árin, og líka hefði kannske mátt skoða betur hvað áorkaðist í hans forsætisráðherratíð, nokkuð sem er rétt tæpt í einni setningu frá Svavari Gests í eftirmála. En engu að síður er þetta stórvirki og vel lestrarins virði

Bókastafli

Posted April 7th, 2007. Filed under bækur

Hringadróttinsmaraþonið tókst vel í gær, allt í allt tók þetta frá 8.30 til 10.45. Reyndar með tæpra tveggja tíma pásu í eftirmiddaginn, þannig að 12 tíma planið er nokkuð sólíd.
Hermdi eftir Einari, náði í þær bækur sem ég á ólesnar sem ég tel líklegt að ég lesi. Er búinn að byrja á þessum flestum.

Mest er þetta SF, það er eins og það sé smá þreyta í mér gagnvart þeim núna. En allavega, eigum við ekki að klára eins og helminginn af þessu um páskana? Það væri fínt. En ég þarf líka að horfa á bolta og reyna að læra að spila tölvuleiki í nýja Xboxinu sem ég gaf sjálfum mér í afmælisgjöf.