Not my first rodeo

Posted January 3rd, 2018. Filed under átak bækur markmið

Árið 2017 var ár áta…breytts lífstíls. Eins og ég sagði í áramótauppgjörinu er þetta ekki í fyrsta skiptið, en engu að síður í fyrsta skipti sem ég hef enst í heilt ár með heilnæmara mataræði, sælgætis- og sykurgosbindindi. Reyndar er svo komið að ég má fá mér einn og einn nammimola, og mest allt síðasta ár var einhvers konar dökkt súkkulaði í skápnum, enda ekki hægt að fá sér nema 1-2 bita af svoleiðis án þess að vera búinn að fá nóg.

Ég byrjaði reyndar seint að halda nákvæma viktardagbók, en eins og þessi mynd sýnir hefur þetta ekki enst fyrr svona lengi

Þessi ágæta mynd sýnir auðvitað líka hvað gerist óumflýjanlega þegar ég hætti að hugsa um viktina!

Ég fann þetta ágæta Excel skjal í morgun, það hafði reyndar aldrei týnst, en fann annað í leiðinni, “Markmið 2010” þar sem ég hafði sett mér ýmis konar markmið fyrir það ágæta ár. Það var ágætt að sjá það enda hafði ég ímyndað mér að gera eitthvað svipað þetta árið og gott að rifja upp að þetta tókst ekkert svo vel 2010. Reyndar hélt ég út í hálft það ár, en svo hallaði undan fæti.

Talandi um markmið?

En ég ætla að vona það besta og gera mitt til að gera 2018 frábært!

 

Árið sem leið

Posted January 2nd, 2018. Filed under Ársuppgjör átak

Árið 2016 var ansi magnað, ef ekki fyrir annað en Evrópumótið í Frakklandi og ævintýralega reisu þar. En 2017 gaf því í flestu lítið eftir.

Það byrjaði með einkaveislu í Giljalandinu og eins og í morgun byrjaði 2. janúar á útsölu. Það var ekki af góðu, heldur illri nauðsyn að ég þurfti nauðsynlega að kaupa mér nýjar buxur, víðari en nokkru sinni fyrr og 3. janúar sagði viktin mér óvæginn sannleika: 98,3 kíló.

Ég hef ósjaldan farið í átak og 4-5 sinnum skafið af mér 15-20 kíló. Að ég hafi svo verið orðinn þyngri en nokkru sinni fyrr segir auðvitað allt sem segja þarf um átök, en skammvinnur árangur er betri en enginn og ég fór í gírinn. Afgangur af magninnkaupum á malti og appelsíni, og lítill kassi af Ferrero Rocher (sem er hæfilega vont til að það sé ekki hæft til ofneyslu) komu mér í gegnum fyrstu vikurnar af nammi- og sykurgosleysi og skyr-og-rjómi-kvölds-og-morgna og góðum hádegismötuneytismat, án pasta og hrísgrjóna og lítið af kartfölum og fyrr en varði var rútínan orðin föst.

Annan febrúar kom einn af vinnufélögunum með þá hugmynd að labba í mat. Af sjöundu upp á nítjándu hæð. Tveim mánuðum fyrr hefði ég ekki tekið þetta í mál, en núna, án þess að hafa talað um það í vinnunni var ég auðvitað á þeim stað að ég þurfti að gera eitthvað meira. Og gekk upp og niður. Þurfti reyndar að hvíla mig tvisvar á leiðinni. Og endurtók þetta daginn eftir. Og aftur. Og aftur. Og hef gert þetta á hverjum degi síðan, nema ég sé ekki alveg frískur..

Í febrúar fór ég reyndar útaðborða með þremur frábærum ferðafélögum frá Íran. Vonandi endurtaka hin Fjögur fræknu þetta aftur í ár.

Ég tísti þessu án frekari skýringa 11. febrúar. Til að halda mér við efnið.

Það tók öllu lengri tíma að ná næsta markmiði, en þá opnaði ég mig meira.

https://twitter.com/bjornfr/status/857516864397856769

Ég skrapp til Münster í apríl til að heimsækja Eyvind frænda og fjölskyldu og fara á Signal Idu… Westfalen Stadion

Vinnufélagarnir voru farin að taka eftir að ég var að minnka og einn þeirra, björgunarsveitarmaður af fjallaflandursgerð heimtaði að ég færi að skoða Esjugöngu.

Við fórum síðan um 2/3 hluta leiðarinnar upp að Steini og nokkrum vikum síðar alla leið. Það hlýtur að teljast afrek ársins hjá mér.

 

Eftir þessi ævintýri í lok júni var komið að skemmtilegasta hluta ársins. Ég fylgdi Elíasi frænda mínum á N1 mótið á Akureyri með Eyvindi föður hans og eyddi góðri helgi á Akureyri og flaug svo nær beint út til Ítalíu eins og ég bloggaði svo rækilega um.

Þyngdin fór aðeins upp en ekki að ráði eftir að bjúgur flugferðarinnar var horfinn. Síðan hélt ég áfram mínu striki og fór aðeins niður fyrir 68 kílóin einn dag en hef rokkað 68-72 síðustu mánuði. Það er auðvelt að sjá hvenær ég fór til útlanda á árinu samt! (já, og jólin…)

Það átti að fara oftar á Esjuna en varð ekki meira en næstum upp að vaði í október í roki og leiðindakulda. Sjáum hvað gerist í vor.

Síðasta hluta ársins voru það þrjár helgarferðir sem skemmtu mér. Árshátíðarferð til Sitges sá um að koma smá októberhlýju í kroppinn og smá innlit í Barcelona í leiðinni.

Í nóvember fór ég á minningarsýningu um Terry Pratchett í héraðsminjasafni Salisbury með góðum vinum.

Í desember fór ég til Manchester. Tókst að verða kaupa of stór föt (flugbjúgur?) verða hálfveikur, komast ekki á FCUM leik, en vera hress heila Queen+Adam Lambert tónleika og hriðskjálfa úr kulda og vosbúð á Manchester United – Manchester City sem ofaníkaupið tapaðist 2-0.

Í nóvember byrjaði ég líka að fara þrisvar í viku í ræktina og er búinn að vera lyfta (frekar léttum) lóðum síðan. Reyndar ekki komist síðan á Þorlák, en ef ég fer ekki á fimmtudaginn er eitthvað að.

Annars fór haustið líka í fótboltann, fyrst að spennast allur yfir möguleikanum yfir að Ísland kæmist á HM og svo þessi ógleymanlega gleði þegar Ísland komst á HM. EM fararnir hittust yfir HM drættinum og ferðalag til Rússlands í sumar mun verða að veruleika.

Árið 2018 verður frábært ár!

 

 

Átak… vonandi

Posted January 8th, 2007. Filed under átak dægurmál

Síðustu tvo daga hefur snarminnkað verkurinn í síðunni. Það þýðir nátt’lega að afsökun fyrir gymm-leti er að hverfa. Á síðustu vikum og mánuðum hefur verið æ ljósara að ákveðin mál eru í slæmum farvegi og þarf að bæta úr.
Í dag var svo tilkynnt hvenær árshátíðin yrði. Þannig að ég hef 10 vikur. Því er hafið átakið “Í smókinginn fyrir árshátíðina”. Lykilatriði í því átaki sem þeim fyrri er nammi-, gos- og djönkfúdbindindi. Þá vitið þið það og getið gert grín að mér þegar ég spring. Þetta byrjar á morgun. Því þarf aðeins að taka til í ísskápnum í kvöld 🙂 En ekkert hrikalegt samt.
Svo þarf maður að nota æfingakortið sitt, reyna að mæta á morgun.
Vikan er annars athygliverð græjulega séð, CES í Vegas og Apple með sýningu líka, strax komnar áhugaverðar græjur, en geymi það í næsta póst, enda er búið að kvarta undan bloggleti hjá mér.
Og svo ég fari að lokum yfir aðalmálin í þjóðfélaginu: Skaupið var fyndið, Cleese er góður (sér í lagi seinni auglýsingarnar, blaða og sjónvarps), nafnbreytingin gott mál (kostnaður líklega ekkert mikið meiri en fyrir venjulega herferð sem hvort sem er er alltaf tekin af og til (ekki að ég viti hann)) og gervi-auglýsingarnar fyndnar, nema hvað helst til pró-unnar. Hmm… Annars ekki alveg tölulega réttar, en ég læt öðrum um að fletta upp almennum yfirdráttarvöxtum hjá Kaupþingi og öðrum íslenskum bönkum. Sérlegir áhugamenn geta líka t.d. leitað að sams konar vöxtum hjá HSBC í Englandi og borið þetta allt saman við grunnvexti seðlabankanna. Það gæti reynst fróðlegt. Og sem hluthafa í Kaupþingi þá finnst mér eðlilegt að framkvæmdastjóra banka í Englandi séu greidd laun í samræmi við laun framkvæmdastjóra annarra banka í Englandi og komi engum við hvað hann gerir við sína peninga.
Þarf ég að taka fram að ég tuða þetta á eigin ábyrgð en ekki vinnuveitanda míns og hef engar innherja upplýsingar um neitt af ofangreindu, enda snertir mitt starf hvorki auglýsingar né viðskiptabankamál? Já líklega, það er fullt af fólki þarna úti sem langar að misskilja svona færslur. Þá er það sem sé framtekið.