Við áramót

Posted December 31st, 2018. Filed under Ársuppgjör

Það er nokkuð síðan ég gerði upp árið hér á blogginu, en eru ekki blogg að koma til baka? Zuckerberg og aðrir einráðir munu missa völdin?

Ég byrjaði árið slank og fínn í Logalandinu eins og oft áður og gekk ágætlega fram eftir ári að vera duglegur í ræktinni, en annars voru fyrstu mánuðir ársins tíðindalitlir. Ég lærði reyndar að búa til íranska spínatsúpu en sú þekking verður ALDREI nýtt. En samverustundin með sumum af mínum uppáhalds var góð!

Eric Cantona og ég

15. mars var einn af hápunktum ársins. Ég hafði njósnir af því að á landinu væri átrúnaðargoð. Ég sat fyrir honum á Ölveri, með treyju sem ég hafði fyrir 22 árum sett ártal til heiður tvennunni sem hann tryggði svo eftirminnilega. Eric Daniel Pierre Cantona, takk fyrir mig!

Fyrsta utanlandsferðin, því það eru jú oftast þær sem mér finnst bestar var farin um páskana. Eftir 12 ára hlé þar til árið áður lét ég nú líða 9 mánuði milli Ítalíuheimsókna og skrapp til Rómar þar sem ég eyddi indælli afmælishelgi og lét eftir mér að heimsækja ekki einn heldur tvo veitingastaði sem státa af hjólbarðastjörnunni góðu. Auk heldur naut ég þess að rölta um fornar slóðir, framhjá gistingunni góðu í Trastevere árið 2005 og fá mér nokkra á Campo de’ Fiori upp á góðar minningar.

Í Villa Borghese

Ísland tók auðvitað á móti mér með byl en það var þolanlegra en oft áður. Það var líka stutt í næstu ferð, vikuferð á Microsoft ráðstefnu í Seattle fyrir vinnuna (og mig), góð en snörp ferð.

Scott og Scott

Í lok maí var komið að hátíðahöldum. Þrjátíu ára MR stúdentar héldu fyrst epískt partí úti á Granda og nokkur okkar mættu síðan í stúdentafagnaðinn viku síðar.

En þá var orðið stutt í stóra ævintýrið, HM í Rússlandi. Allir leikir Íslands, endalaus flug, allir Moskvuflugvellir, þokkalegar eða fínar AirBnb íbúðir, utan ein! Ein frábær úrslit, ein gríðarleg vonbrigði og ein tæp. Eyvindur frændi var traustur ferðafélag tvo þriðju hluta leiðarinnar!

Á heimleiðinni tók ég tæpa viku í að ná mér niður á jörðina og gerði það í einum af mínum uppáhaldsstöðum, Sirmione á, hvar annars staðar? Ítalíu.

Það var skemmtilegasta tilviljun ársins að sama dag og ég lenti var Hafsteinn frændi með alla fjölskylduna líka að lenda í sama bæ, og fyrir vikið voru kvöldverðir mun fjölmennari og skemmtilegri en búist var við.

Ágúst sýndi loks smá sumar hér heima og bjargaði því sem bjargað varð. Ég bardúsaði ýmislegt það sem eftir var árs, fór í afmælið, á tónleika, steig á svið í (galtómri) Hörpu og lagðist svo í veikindi sem tóku af mér mesta allan október og nóvember, ekkert sem alvarlegt má teljast eftir á en var dyggur stuðningsaðili aukakílóanna sem komu, en ekki mörg.

Fyrsta desember hélt ég upp á með að klæða mig upp á, og minnugur forfeðranna setti ég upp hatt, sem ég þurfti svo að halda mér í í næðingnum við Stjórnarráðið. Fyrir hundrað árum lá pabbi veikur í spænsku veikinni og var því ekki við þann hátíðlega en nokkuð sorglega atburð þegar fullveldinu var líst.

Rétt fyrir jól varð mamma níræð og tók á móti gestum í tilefni dagsins, en fékk þó í þetta sinn að mestu að hvíla sig frá undirbúningi, nægar hefur hún haldið veislurnar í gegnum tíðina. Foreldrar voru 59 og 40 ára þegar ég kom í heiminn og það hafa verið mín mestu forréttindi að hafa þau hjá mér svo lengi sem raun ber vitni. Pabbi lést níutíu og eins árs, og allt fram á síðasta ár heilsuhraustur og alltaf jafn klár í kollinu. Sama gildir um mömmu, ég þarf oftsinnis að minna mig á að hún sé svo gömul sem raun ber vitni.

Árinu lauk næstum því með að fagna góðum vini í brúðkaupi á laugardaginn var en lýkur í kvöld endanlega á sama stað og það hófst.

Þetta var nokkuð gott ár. Ferðalögin frábær, vinnan góð, einkalífið í jafnvægi, og veikindin ekki til að hafa áhyggjur af lengur, nema til að hrista af sér slenið sem þeim óhjákvæmilega fylgdi.

Árið 2019 er óskráð bók. Auðvitað verða ferðalög, en hver þau stærri verða er óráðið, og allt annað hefur sinn vanagang í Gaulverjabæ.

Vinum og ættingjum og öðrum sem rata á þetta blogg (Lifi bloggið!) óska ég farsæls og hamingjuríks ár!

Árið sem leið

Posted January 2nd, 2018. Filed under Ársuppgjör átak

Árið 2016 var ansi magnað, ef ekki fyrir annað en Evrópumótið í Frakklandi og ævintýralega reisu þar. En 2017 gaf því í flestu lítið eftir.

Það byrjaði með einkaveislu í Giljalandinu og eins og í morgun byrjaði 2. janúar á útsölu. Það var ekki af góðu, heldur illri nauðsyn að ég þurfti nauðsynlega að kaupa mér nýjar buxur, víðari en nokkru sinni fyrr og 3. janúar sagði viktin mér óvæginn sannleika: 98,3 kíló.

Ég hef ósjaldan farið í átak og 4-5 sinnum skafið af mér 15-20 kíló. Að ég hafi svo verið orðinn þyngri en nokkru sinni fyrr segir auðvitað allt sem segja þarf um átök, en skammvinnur árangur er betri en enginn og ég fór í gírinn. Afgangur af magninnkaupum á malti og appelsíni, og lítill kassi af Ferrero Rocher (sem er hæfilega vont til að það sé ekki hæft til ofneyslu) komu mér í gegnum fyrstu vikurnar af nammi- og sykurgosleysi og skyr-og-rjómi-kvölds-og-morgna og góðum hádegismötuneytismat, án pasta og hrísgrjóna og lítið af kartfölum og fyrr en varði var rútínan orðin föst.

Annan febrúar kom einn af vinnufélögunum með þá hugmynd að labba í mat. Af sjöundu upp á nítjándu hæð. Tveim mánuðum fyrr hefði ég ekki tekið þetta í mál, en núna, án þess að hafa talað um það í vinnunni var ég auðvitað á þeim stað að ég þurfti að gera eitthvað meira. Og gekk upp og niður. Þurfti reyndar að hvíla mig tvisvar á leiðinni. Og endurtók þetta daginn eftir. Og aftur. Og aftur. Og hef gert þetta á hverjum degi síðan, nema ég sé ekki alveg frískur..

Í febrúar fór ég reyndar útaðborða með þremur frábærum ferðafélögum frá Íran. Vonandi endurtaka hin Fjögur fræknu þetta aftur í ár.

Ég tísti þessu án frekari skýringa 11. febrúar. Til að halda mér við efnið.

Það tók öllu lengri tíma að ná næsta markmiði, en þá opnaði ég mig meira.

https://twitter.com/bjornfr/status/857516864397856769

Ég skrapp til Münster í apríl til að heimsækja Eyvind frænda og fjölskyldu og fara á Signal Idu… Westfalen Stadion

Vinnufélagarnir voru farin að taka eftir að ég var að minnka og einn þeirra, björgunarsveitarmaður af fjallaflandursgerð heimtaði að ég færi að skoða Esjugöngu.

Við fórum síðan um 2/3 hluta leiðarinnar upp að Steini og nokkrum vikum síðar alla leið. Það hlýtur að teljast afrek ársins hjá mér.

 

Eftir þessi ævintýri í lok júni var komið að skemmtilegasta hluta ársins. Ég fylgdi Elíasi frænda mínum á N1 mótið á Akureyri með Eyvindi föður hans og eyddi góðri helgi á Akureyri og flaug svo nær beint út til Ítalíu eins og ég bloggaði svo rækilega um.

Þyngdin fór aðeins upp en ekki að ráði eftir að bjúgur flugferðarinnar var horfinn. Síðan hélt ég áfram mínu striki og fór aðeins niður fyrir 68 kílóin einn dag en hef rokkað 68-72 síðustu mánuði. Það er auðvelt að sjá hvenær ég fór til útlanda á árinu samt! (já, og jólin…)

Það átti að fara oftar á Esjuna en varð ekki meira en næstum upp að vaði í október í roki og leiðindakulda. Sjáum hvað gerist í vor.

Síðasta hluta ársins voru það þrjár helgarferðir sem skemmtu mér. Árshátíðarferð til Sitges sá um að koma smá októberhlýju í kroppinn og smá innlit í Barcelona í leiðinni.

Í nóvember fór ég á minningarsýningu um Terry Pratchett í héraðsminjasafni Salisbury með góðum vinum.

Í desember fór ég til Manchester. Tókst að verða kaupa of stór föt (flugbjúgur?) verða hálfveikur, komast ekki á FCUM leik, en vera hress heila Queen+Adam Lambert tónleika og hriðskjálfa úr kulda og vosbúð á Manchester United – Manchester City sem ofaníkaupið tapaðist 2-0.

Í nóvember byrjaði ég líka að fara þrisvar í viku í ræktina og er búinn að vera lyfta (frekar léttum) lóðum síðan. Reyndar ekki komist síðan á Þorlák, en ef ég fer ekki á fimmtudaginn er eitthvað að.

Annars fór haustið líka í fótboltann, fyrst að spennast allur yfir möguleikanum yfir að Ísland kæmist á HM og svo þessi ógleymanlega gleði þegar Ísland komst á HM. EM fararnir hittust yfir HM drættinum og ferðalag til Rússlands í sumar mun verða að veruleika.

Árið 2018 verður frábært ár!