0

Istanbúl – Dagur eitt

Það góða við að heyra illa og ekki neitt að ráði af tilkynningum í flugvélum var í gær að þegar við bíðum í klukkutíma úti í vél eftir að taka af stað ákvað ég að hafa engar áhyggjur heldur bara bíða.

Enda komumst við í loftið á endanum, ekki eins og Bragi, Tomas, Aðalsteinn og eflaust fleiri. Ástæðan fyrir hvað ég var slakur var sú að mín beið sjö tima bið á Heathrow hvort heldur er. Ég þurfti að sækja töskuna en á móti kom að ég gat tékkað hana inn strax og hefði því getað skroppið inn í bæ en nennti ekki að stressa mig á því og hékk heldur á börum og kaffihúsum. Fór loksins inn á öryggissvæðið, keypti þau rafmagnstengi sem gleymst hafði að pakka og steig loks um borð í vélina til Istanbúl.

Einhver seinkun var á henni og það var vel rúmlega miðnætti að staðartíma þegar við lentum. I vegabréfaskoðuninni var ég að vorkenna foreldrum með stráka sem virtust sex, fjögurra og hálfs, þriggja og eins árs þegar sá yngsti var að grenja en sú vorkunn hvarf því þau voru næst á undan mér… og tók hátt í tíu mínútur að koma pappírunum þeirra á hreint.

Síðan tókst mér að fara á vitlaust band að bíða eftir töskunni og eyddi hálftíma þar. Vildi til að annar úr sömu vél gerði það sama og hann fattaði.

Þá loksins fékk ég töskuna og fór út þar sem átti að bíða mín hótelpikköpp. Kom í ljós að það var hópafgreiðsla. Við vorum tíu sett af farþegum sem þurfti að smala og svo fara og hreinlega finna bíla fyrir okkur úr venjulegu leigubílaröðinni. Mjög efficient. Not.

Lagði sumsé af stað frá flugvellinum kl 2 og var kominn á hótel 2:40. Og í svefn um 3. Stillti vekjarann á 11. heh. heheh. hehehe.

Auðvitað vaknaði ég svo kl sjö í morgun og var bara hress. Spændi í mig morgunmat af ódýrari buffet gerðinni og óð út vel fyrir níu.

Er ekki langt frá megintúristastöðum gamla bæjarins og var kominn í tiltölulega stutta röð fyrir utan Ægissif fyrir opnun kl níu.

Ég get eiginlega ekki lýst þessari fimmtánhundruð ára byggingu. Hún er að hluta geysilúin, stillansar inni, og svolítið skrýtið að ganga þar um.

En engu að síður og þrátt fyrir allt þá sést  hvað hún er ægifögur og áhrifamikil.

Næsta stopp var fyrsta moskan af þrem: Bláa moskan. Falleg!

Meira um moskur síðar í pistlinum. Næst leit ég inn í grafhýsi Sultans Ahmed. Myndirnar þar tók ég allar á myndavélina og þær bíða. Lítið grafhýsi en afskaplega fallegt! Stílhreint eins og múslimskar trúarbyggingar en ótrúlega haglega skreytt.

Næst ætlaði ég í vatnsgeymslu basilikunnar – Basilica Cistern. Stutt röð! EN! Reiðufé eingöng og minns ekki búinn að taka út. Þá var bara að finna veitingastað, fá sér grillaðan hal… hellim ost og lamb ŞiÅŸ Kebap. Síðan í hraðbanka og í miklu lengri röð. En niður í vatnshýsið komst ég og þó að vantaði svolítið upp á Bond stemminguna, þá var þetta ansi magnað! Eins og víðar er verið að gera við og eitthvað um afgirt svæði og stillansa.

Þá var að steðja út að Bazar. Á leiðinni leit ég inn í eina minni mosku, Nuruosmanyie moskuna og fannst gaman að því, með því að sjá eina aðeins minni í sniðum kemst maður nær kjarnanum.

Ég labbaði inn í Bazarinn, og beina leið í gegn. Stefni á að eyða aðeins meiri tíma þar á morgun. Tók í staðinn strikið út að stærstu mosku borgarinnar, Süleymaniye moskuna og dáðist að henni og umhverfi hennar, en það er eins og vera ber með þjónustu við trúaða á borð við baðhús, skóla og spítala.

Eftir að hafa skoðað ófáar moskur í Íran og nú þessar þrjár (og Ægisif) þá er ég alltaf að verða hrifnari af þessum stíl. Skreytingarleysið er afskaplega einkennilegt þeim sem skoðað hafa helst kaþólskar risakirkjur útlöndum, en þegar nánar er skoðað, og ekki síst þegar maður sér trúaða við bænir þá kemur betur í ljós hversu viðeigandi umhverfið er. Fegurðin ríkir þó hún sé oft í mynstrum og skrautskrift eingöngu en minnir þannig á til hvers byggingin er, að færa tilbeiðandann nær guði. Það eru engir dýrlingar að þvælast fyrir, að ert bara þú, og guð, og spámaðurinn.

Gríðarlega áhrifamikið.

Tók svo strikið heim, lét plata mig að skoða teppi á leiðinni og endaði á að vera snuðaður þegar ég keypti bara sætindi af sölumanninum en ekkert teppi. Ojæa, ég fékk allavega nammi. Þó það hafi verið í dýrari kantinum. Miðað við hér á landi á. Ekki heima. Ef einhver elskar lokum, eða ‘turkish delight’ er viðkomandi velkominn þegar ég kem. Nei, þetta er minnst af þessu rósadóti sem Englendingar þekkja best. Prýðisstöff.

En ég er allavega heima á herbergi að reyna að ákveða hvort ég eigi að nenna út að finna mér mat. Að lokum er hér vel beygð panorama sem horfir til austurs frá Suleymanyi moskunni

Leave a Comment