1

Að lokinni heimsmeistarkeppni

Posted June 27th, 2018. Filed under ferðalög

HM er lokið – fyrir okkur.

Sit í AirBnB íbúð í Rostov við Don, daginn eftir síðasta leik Íslands á HM 2018. annað stórmótið í röð sem ég fylgi Íslandi á frá upphafi til enda.

Þetta er setning sem mig hefði bara dreymt um segja sem strákur, og þá auðvitað í það villtum draumum að það var ég sem var með númer níu á bakinu, sama hversu augljóst það var að ég var með knattspyrnuhæfileika símastaurs.

En ekki einasta gerðist þetta, heldur fórum við alla leið í fjórðungsúrslit á EM og þó að við hefðum nú á HM dregist i gríðarsterkan riðil þá voru væntingarnar eitthvað svo skrýtnar að þó enginn byggist við neinu, þá bjuggust samt öll við að við færum áfram því við erum jú Ísland.

Jafnteflið við Argentínu var sannarlega einn af hápunktum fotboltaáhorfs míns. Ég fékk að vera fyrir aftan markið sem Alfreð skoraði í og sem Hannes stöðvaði vítið frá Messi í að fara inn í. Eftir það skrúfuðumst við upp og vissum að sigur gegn Nígeríu væri sannarlega möguleiki. En í ofurhitanum í Volgograd var leikurinn aðeins of langur. Fyrri hálfleikurinn var sá besti sem ég hef séð Ísland spila á stórmóti en við náðum ekki að nýta færin. Nígería átti svo seinni hálfleik svikalaust.

VIð vissum fyrir Króatiuleikinn að allt var opið. Króatar settu varaliðið inn á og Ísland átti leikinn að stórum hluta en aftur fórst fyrir að nýta færin.

Þegar Argentína skoraði sigurmark sitt áttum við alla heimsins von í um tvær mínútur áður en Króatar slökktu hana, og hvílík von.

Það er fyrir svona von og þrá sem við horfum á fótbolta. Ekki bara til að vinna mót og sigra andstæðinginn heldur til að upplifa allan þennan tilfinningarússíbana yfir hlutum sem i stóra samhenginun skipta engu máli, en skipta á þessum augnablikum öllu máli.

Þetta var keppnin sem ég bjóst alveg eins við síðast, bara betri. Ég hefði komið heim stoltur stuðningsmaður með þrjú 2-0 töp Íslands að baki, bara ef strákarnir stóðu sig og héldu haus.

Það gerðu þeir svo sannarlega. Jafnteflið gegn Argentínu var frábært, Vonbrigðin yfir Nígeríutapinu yfirskyggðu það góða í þeim leik, og leikurinn í gærkvöldi var frábær skemmtun.

Ísland var ein af þrettán Evrópuþjóðum á HM. Holland, Tyrkland, Skotland, Wales (og Gareth Bale), Írland, Norður-Írland, Tékkar, Slóvakar… og elsku Ítalía mín sem ég fer til á föstudaginn, allar þessar þjóðir sátu heima og horfðu á HM eins og við höfum alltaf gert, án þátttöku.

Við erum það góð í fótbolta að við vildum, og ætluðumst smá til að Ísland væri meðal 16 bestu þjóðanna á HM. En á svona mótum er oft stutt á milli afreka og vonbrigða. Í þetta skiptið voru það vonbrigðin sem unnu, en við megum aldrei hætta að þakka fyrir að fá að sjá Ísland á HM.

Næst er það þjóðadeildin, þar sem verkefnið er að taka stg af Sviss og Belgíu þannig að þegar 10 bestu liðunum af 12 í A deild verður raðað í 10 efstu sætin i riðlunum í undankeppni EM 2020 þá verði Ísland þar á meðal og sleppi við 9 bestu liðin í Evrópu. Og kannske, bara kannske! þá verður Króatía þá ekki andstæðingar okkar úr öðrum styrkleikaflokki.

Þessi hópur eldist og við vitum ekki hvað tekur við, en við vitum að kjarninn í honum getur, ef vel gengur, komið okkur á EM 2020, og síðan á HM 2022.

Ævintýrið getur haldið áfram, sú er vonin.

One Response so far

  1. […] þá var orðið stutt í stóra ævintýrið, HM í Rússlandi. Allir leikir Íslands, endalaus flug, allir Moskvuflugvellir, þokkalegar eða fínar AirBnb […]

Leave a Comment