0

4. kafli – Castello di Spaltenna, Gaiole in Chianti

22. júlí – Laugardagur

Þá var komið að lúxuslegg þessarar ferðar. Eftir gestaherbergi í Veróna og Flórens var komið að því að vera útaf fyrir mig og láta vel við mig í mat og drykk.

Ég skildi við sjálfan mig í Flórensfærslunni á lestarstöðinni í Flórens, sárfættan og þreyttan. Ég tók lest til Siena sem tók smá tíma, enda ekki farið beinustu leið. Þegar þangað var komið hafði ég nokkurn tíma fyrir mig og fór á eðalveitingas… nei reyndar ekki, fór á stjörnutorgið í kringlunni sem var á sjálfri lestarstöðinni og fékk mér tvær pizzasneiðar. Þær voru betri en Dominos. Síðan stutt rölt gegnum undirgöng og upp nokkra stiga til að komast á rútustoppin við stöðina þar tók rútuna til smábæjarins Gaiole in Chianti, í hjarta þess fræga vínhéraðs Chianti. Þá þurfti ég að rölta snarbratta brekku í 10 mínútur að hótelinu. Tærnar kvörtuðu smá, sko.

En hótelið var þess virði. Gamall (hve gamall? ekki hugmynd) sveitakastali sem gerður hefur verið að þessu fína, næstum lúxushóteli. Ég hafði tíma til að bregða mér í laugina til að sóla mig aðeins og sötra einn þið-vitið-orðið-hvað en það var frekar skýjað og eftir ég fór inn að horfa á tapleik Íslands gegn Sviss fór að hellirigna. Gott fyrir mikilvægan gróður.

Ástæðan fyrir því að ég var þangað kominn var samt einföld

Áfangastaðurinn var því frekar veitingastaðurinn, sem nýlega varð sér úti um Michelin stjörnu, frekar en hótelið þó vissulega hafi það verið óaðfinnanlegt.

Það stytti upp um sjö, nógu seint til að veitingastaðurinn vildi ekki dekka borðin í kastalagarðinum, nokkuð sem gesturinn á undan mér varð alveg ægilega foj yfir, heimtaði þau myndu redda þessu einn tveir og þrír. Ég segi ekki hann hafi haft örlítið til síns máls, en hefði mátt vera örlítið rólegri. Eða heilmikið rólegri. En á endanum fannst mér bara þægilegra og meiri lúxus að sitja inni.

Sex rétta smakkseðillinn var hreint frábær. Upp úr stóð gnocchi rétturinn, bragðgæðin fullkomin, dúfan var svo bragðmikil með sósu og öllu að þó skammturinn væri lítill var næstum meira en að segja það að klára! Léttur millieftirréttur hreinsaði munninn og desertinn og petit fours voru jafn bragðgóð og þau líta út á myndinni.

Með matnum var vínvalið auðvelt, þeirra eigin vín. Kannske ekki eins grand og að fá sérvalin vín frá óháðum aðilum en fyrir mig alveg prýðilegt.

Stórkostlegt kvöld.

Pre-amuse bouche

Amuse bouche

Humarhali, foie gras og kornhæna

Humarhali, foie gras og kornhæna

Carpaccio

Fyllt gnocchi

Risotto

Dúfa

Eftirréttur til heiðurs Escoffier og petit four

 

Eitt af því góða við að borða á hótelinu er að það er stutt í rúmið. Eftir þennan fína mat, en eilítið langa dag, var gott að komast í rúmið

23. júlí – sunnudagur

Morgunverðurinn á hótelinu var að sjálfsögðu yndislegur og að njóta hans með þessu frábæra útsýni var enn betra.

Morgunþokunni létti þegar á leið. Ég var ekkert að flýta mér af þessum ágæta stað, borðaði ágætan hádegisverð á sömu terrössu og síðan tók ég leigubíl til Siena þar sem engar rútur gengu á sunnudögum. Ég var kominn um miðjan eftirmiðdag til Siena og þar tekur við næsti kafli ferðarinnar.

Fleiri myndir á Flickr – Castello di Spaltenna

Leave a Comment