0

Ítalía – Pisa

Posted August 4th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Kafli 3 (a) – Pisa

18. júli – þriðjudagur

Ferð um Toskana hlýtur að fela í sér ferð til Pisa, er það ekki? Sjá turninn, tékka við það á ‘100 greatest sights’, og drífa sig svo.

 

En Pisa var bara ansi skemmtileg heimsókn og það voru síður en svo vonbrigði að sjá skakka turninn. Ég tók klukkutíma lest til Písa frá Flórens. Þegar þangað var komið for ég sem leið lá 20 mínútna göngu í átt að helsta kennileiti borgarinnar. Ég miðaði á aðra af tveim brúm yfir Arno og fór um frekar venjulegar jafnvel hráar götur og sá ekki marga utan stóran hóps bakpokakrakka. verð að viðurkenna að mér þótti þá ekki mikið til bæjarins koma.

Síðan birtist turninn og Piazza dei Miracoli. Áður en lengra er haldið verð ég að segja að ef klukknaturninn væri ekki svona skakkur og ljótur væri þetta án efa eitt af fallegri kirkjutorgum heims. Dómkirkjan er hreint gullfalleg. Ég brá mér í miðasöluna og fékk miða í turninn tveim tímum síðar. (Muna krakkar: kaupa á netinu með góðum fyrirvara).

Tölti síðan um í leit að einhverjum þokkalegum mat stað en endaði á Strittendfud sem fær svaka fína einkunn á TripAdvisor en er beisik götu matur. Fékk mjög góðan slíkan, djúpsteikt fyllt zucchiniblóm og arancini.

Svo í turninn. Þar kom sér ágætlega æfingin frá daglegu þrammi af 7. hæð uppá Nítjándu! Reyndar hefur skólinn frétt af því, því í Flórens bjó ég á 4ðu hæð í lyftulausu! Ekki gaman að uppgötva maður gefi gleymt einhverju uppi þegar niður er komið!

En það er ekki ofsagt að engar myndir gera því skil hvernig er að ganga upp turninn þar sem hluti stigans hallar skarpt. Og uppi finnurðu rækilega fyrir hallanum. Mig hálfsundlaði og lá við sjóveiki! Stórkostleg upplifun. Ekki sleppa að fara upp! (Var næstum of seinn maður þarf að setja tösku í geymslu og vera svo mættur við turninn í röðina vel 10 mín fyrir settan tima. En ekki í fyrsta skipti slapp ég. )

Lét ekki taka af mér „halda við turninn“ mynd en það fyndnasta sem ég sá var fólk að taka slíka frá sjónarhorni þar sem hallar ekki. Öss!

Síðan miðaði ég aftur á lestarstöðina og núna fór ég á hina brúna. Þá kom ég á þetta fína breiðstræti. Greinilega “betri” leiðin, og líklega voru fyrstu kynni mín af Pisa ekki alveg rétt, þó það sé nú alltaf gaman að sjá fleiri hliðar á borgum en bara glanshliðina.

Síðan var það bara lestin aftur til Flórens og vísað til fyrri kafla!

Fleiri myndir á Flickr – Pisa 2017

Leave a Comment