0

Ítalía – Flórens

Posted August 3rd, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

3. kafli – Flórens

16. júlí – sunnudagur

Kom til Flórens seinni hluta dags, tók leigubíl að gistingunni minni á vegum skólans, kom mér þar vel fyrir og dreif mig svo út í kvöldmat. Ég gekk sem leið lá í skólann til að kynna mér hana, um 20 mínútna rölt og þegar hann var fundinn var beygt næstu götu til vinstri og blasti þá hin ægifagra dómkirkja við með hvolfþaki Brunelleschi.

Kvöldmaturinn var svo með útsýni og í þetta skiptið einn sá versti slíkur. Mig minnir að það hafi verið gnocchi með ostasósu. En ég sé ekki eftir neinu! Á leiðinni heim fann ég svo ísbúð og átti eftir að koma nokkrum sinnum í þá sömu enda líklega heimablandan þeirra besti ís ferðarinnar, hálfgert nammi í raun.

Og síðan var það aftur heim, ég var með herbergi hjá eldri frú og syni hennar og fékk þar morgunmat, allt frekar staðlað fyrir svona málaskólavist og bara alveg ágætlega þægilegt.

17. júlí – mánudagur

Fyrsti skóladagurinn, stutt próf fyrir fyrsta tíma til að finna mér réttan stað. Ég hef oft verið betri í ítölskunni, búinn að læra allar tíðir og myndir svo sem, en er ansi ryðgað. Lenti bara á ágætum stað, farið yfir hluti sem ég hafði séð áður og auðvelt að rifja upp. Skólinn var sem fyrr segir frekar nálægt dómkirkjunni, þessi mynd úr skólastofunni sýnir það betur.

Skólinn búinn 12:15 og þá farið í góðan göngutúr um Flórens. Ég reyndar gleymdi alveg að ganga upp á hæðina fyrir ofan, sem er eitt af því fáa sem ég man eftir úr dagsferðinni frá Rimini 1988. Ekki gert neitt að ráði, nema jú fara í ísbúð.

Þegar heim var komið hékk ég á netinu, ætlaði út að borða en á endanum nennti ég ekki. Það er ekkert nýtt í utanlandsferðum, svo sem, en á endanum reyndist þetta vera í eina skiptið sem ég dreif mig ekki út. Það er bara nokkuð vel af sér vikið fyrir mig!

18. júli – þriðjudagur

Vakna, skóli, og svo dreif ég mig til Pisa eftir hádegi. Pisa fær sér færslu!

Ég kom fyrir kvöldmat til Flórens og á leiðinni frá lestarstöðinni og heim (skólinn var einmitt á þeirri gönguleið) kom ég við á írskri íþróttakrá og spurði hvort þeir myndu ekki sýna leikinn í Evrópukeppninni. Þeir héldu það nú og ég fór heim, sturtaði mig, klæddi mig upp á og fór aftur út. Þar drakk ég góðan írskan bjór og borðaði líklega versta mat ferðarinnar: Hamborgarar á Ítalíu eru sjaldnast gúrme.

Barinn hafði verið að fyllast af börnum og það verður að segjast að hugurinn hvarflaði 30 ár aftur þegar ég var á þeirra aldri á málaskóla í útlandinu. Þó ég hefði reyndar ekki verið alveg jafn… glaður 😎

Þannig að um leið og leikurinn var búinn hraðaði þessi gamli sér burt og fékk sér ís i sárabætur.

19. júlí – miðvikudagur

Vakna snemma. Hanga á neti og lesa. Skóli til 12:15.

Planið þennan dag var að fara til Lucca. En nei. Loksins kom að því að Google klikkaði illilega. Maps var að reyna að segja mér hvaðan rútan til Lucca færi og laug illilega. Ég hafði nægan tíma, rútan átti að fara frá næsta horni við lestarstöðina kl 13:30, um 10 mínútna gang frá skólanum, ég fór þangað og beint inn á næsta veitingastað til að borða hádegisverð. Risotto reynt enn á ný og var þokkalegt, en ekkert meira.

Síðan út á stoppistöð en engin merki sá ég um Lucca rútu. Spurði inn á miðasölunni: Rútan til Lucca fer frá … og eitthvað nafn. Sagt að taka bara strætó „þaðan“ sem voru svo óljósar upplýsingar að ég fann það ekki. Snerist í hringi um sjálfan mig, argur út í allt og alla, sá að það var 20 mínútna gangur á þessa rútustöð og ákvað á endanum að gefa þetta upp á bátinn enda nú endanlega búinn að missa af 13:30 rútunni og næsta rúta eftir klukkutíma

Í staðinn for ég og steikti á mér höfuðið í tæpan klukkutíma í biðröðinni að Galleria dell’Academia til að heilsa upp á Davíð. Hann var hress og bað að heilsa.

Keypti mér besta ís í bænum og tók svo siestu. Því stundum á ferðalögum þarf maður bara að slökkva á sér í smátíma, með eða án svefns.

Og enn og aftur dreif ég mig út eftir siestuna. Rölti aðeins um bæinn, fékk mér fyrsta Aperol Spritzinn í Flórens (glæpsamlegt að bíða þrjá daga með það!) og ákvað að treysta TripAdvisor fyrir kvöldmat og hitti á meiri háttar stað.

Ég elska gott risotto og sumum kann að finnast um of að borða það tvisvar á dag, en þarna datt ég í lukkupottinn og fékk æðislegt risotto með smjöri, ansjósum, og steiktri brauðmylsnu. (Ansjósur. Já. Ansjósur. Munið hvað ég sagði um sardínur um daginn? Aftur það.)

Lagði ekki í kíló af Flórenssteik en Facebook færsla um það og hvatningar þar við breyttu skoðun minni. Sjá síðar. Fékk samt agalega góða steik og tiramisù á eftir sem var bara næstum jafn gott og mitt eigið.

Borgaði með 100 evru seðli og fékk hann svo aftur til baka með réttu upphæðinni líka. Það var afskaplega feginn karl á kassanum sem skoðaði og sá að enginn hundrað evru seðill var þar þannig það var rétt hjá mér að þeir hefðu næstum verið búnir að borga mér fyrir að borða þennan gómsæta mat.

En ef svo ólíklega vill til að ég hafi í raun sett tvo slíka seðla með og þeir platað mig? Nú þá var þetta bara á góðu Reykjavíkurverði!

Á endanum var þetta bara frábær dagur.

20. júlí – fimmtudagur

Komið að Uffizi.Fyrst þó stálheiðarleg napólsk pizzeria með átta pizzum á matseðli. Ég fékk mér auðvitað Pizza Napolí. Með ansjósum! Þetta var frábær pizza á frábærri búllu, og fékk smá limoncello í kaupbæti.

Uffizi er auðvitað yfirþyrmandi á allan hátt. Myndir af listaverkunum eru til betri alls staðar þannig ég sleppti þeim. Ég vildi ég myndi eitthvað af því sem Ólafur Gíslason sagði mér og öðrum í frábærri leiðsögn um safnið fyrir 29 árum en það er allt horfið nema það að hann mismælti sig og sagði “Fra Lippo Lippi” í stað “Filippo Lippi”. Skilji þau sem vilja.

Eftir siestu skrapp ég í drykk með skólanum sem var bara gaman, ágætlega skemmtilegt fólk, reyndar ekki nema ein úr bekknum mínum þannig ég þekkti þau ekkert fyrir né eftir. Var það lengi að það var rétt tími í þokkalegt trufflupasta fyrir svefninn.

21. júlí – föstudagur

Loksins til Lucca. Fann nýju stoppistöð rútunnar (sem var á endanum jú um 15 mínútna gang frá lestarstöðinni og hafði tíma að fara á nærliggjandi veitingastað og fá mér gríðargott smákolkrabbagnocchi með chili.

Lucca fær sér færslu!

Kom heim síðar en frá Pisa og fór beint í bólið. Með viðkomu í ísbúðinni.

22. júlí – laugardagur

Ekkert annað eftir í Flórens en að fara á lestarstöðina og taka lest til Siena. Nennti ekki að hringja á leigubíl en þrammaði með hafurtask mitt út á lestarstöð, rúmlega hálftíma leið, í nýju skónum. Og nú endanlega tóku þeir sinn toll: Ég var kominn með verulega verki í fæturna á leiðinni og þetta var næstum kvalaganga. En út á lestarstöð komst ég og næsti kafli er stuttur verður stuttur en yndislegur.

Fleiri myndir á Flickr – Flórens 2017

Leave a Comment