0

Ítalía – Veróna

Posted August 2nd, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

2. kafli – Veróna

15. júlí – laugardagur

Frá Sirmione lá leiðin til Veróna.

Ákvað 20 mínútum fyrir brottför að fletta upp miðanum mikilvæga fyrir kvöldið. Minnti jú að email staðfestingin hefði verið skrýtin. Finn ekkert í póstinum. Smá panik. Ákveð mig hefði dreymt miðakaupin. Fer á netið. Finn sölusíðuna. Leita að henni í póstinum. Finn staðfestinguna… um að kortasalan hefði ekki gengið í gegn.  Reyni að kaupa miða. Fæ miða á sama svæði og ætlað var. Ýti á staðfest.

Hljóp svo út, fór vitlausa leið í strætó en komst þó í tæka tíð og það tók um klukkustund að komast til Veróna. Þar var ég í herbergi á AirBnB hjá viðkunnanlegum gestgjafa sem átti mjög vingjarnlegan hund. Mjög þægilegt og alveg beint í miðbænum, um 3 mínútna gang frá Arena di Verona. Fór út og fékk mér hádegisverð við torgið, eins og ég vissi var hann dýrari en annars staðar og líklega aðeins slakari. Risottoið var samt alveg þolanlegt.

Síðan opnuðust himnarnir og valið að fara í smart skónum með gatinu á sólanum varð að röngu vali. Smellti mér upp á herbergi, skipti um skó og fór svo að kaupa aðra á útsölu í gríðarsmart búð. Þau skókaup drógu þó dilk á eftir sér sem síðar verður komið að

Kvöldmaturinn í því sem næst næsta húsi við gistinguna var síðan öldungis frábær. Gnocchi, svínakinnar og kaffi. Fékk líka lystauka og desertauka þannig það var alveg stjanað við mig. 

Svo kom hápunkturinn: Nabucco í Arena. Ég var með fínt sæti og gat notið stórfenglegs sjónarspils (flestir hestar á sviðinu í einu: 10, auk léttivagns) 200 manns í kórnum og glæsileg sviðsmynd. Söngurinn var góður og ekki á hverjum degi sem maður heyrir lög endurtekin í óperum: Va, pensiero er enda án efa innblásturinn að færslu uppsetningarinnar frá Jerúsalem og Babýlon til Ítalíu risorgimento tímans og mátti alveg við endurflutningi.

Hér er upptaka frá þessari uppfærslu í sumar í Arena. Sviðsmyndin var sem sé óperuhús.

Þar sem ég sat var ekki sungið með, enda við flest ferðafólk, en í ódýrari sætunum er sungið hástöfum. Næst!

Frábær dagur!

16. júlí – sunnudagur

Morguninn eftir rölti ég út í morgunmat og síðan steðjaði ég að ráði gestgjafans upp á hæð hinu megin við ána Adige þaðan sem útsýni yfir borgina var fagurt.

Síðan var það leigubíll á lestarstöðina og lestin til Flórens, skipt í Bologna. En það er næsti kafli.

Fleiri myndir á Flickr – Veróna 2017

Leave a Comment