0

Ítalía – Við Gardavatn

Posted August 1st, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Fimm ára blogghlé? Hvers vegna ekki. En ferðablogg eru alltaf skemmtileg og það þarf að festa í net söguna af Ítalíuferðinni góðu.

1. kafli – Við Gardavatn

10. júlí – mánudagur

Flogið með síðdegisflugi Icelandair beint til Mílanó og lent þar síðla að kvöldi. Þá er bara að eitt að gera og það er að gista á flugvallarhótelinu. Splæsti á mig Sheraton á vellinum frekar en að þurfa að finna skutlu og fara kílómetersleið að hinu. Engu að síður var leiðin eftir flugvallargöngunum drjúg og það var þreyttur björn sem skreið í rúmið. Ég hafði reyndar gefið mér tíma til fara á hótelbarinn og njóta fyrstu ítölsku máltíðarinnar: Vel útilátins caprese. Það var eins gott og það átti að vera.

11. júlí – þriðjudagur

Rólegur morgun: Flott morgunverðarhlaðborð og svo út á lestarstöðina sem var næst hótelinu og til Sirmione. Fyrst flugvallarlestin inn á Milano Centrale og þaðan lestin til Verona með viðkomu við Gardavatn. Ég var að reyna að fylgjast með stoppunum á Google Maps en ekki í fyrsta skipti var netsamband slælegt og ég fór stöð of langt, þurfti að finna strætó og síðan bíða í klukkutíma eftir honum. Þannig ég var aðeins seinni á hótelið en ætlað var en loksins um þrjúleytið var ég kominn í langþráð sólbað í almennilegum hita, 33°C. Í eftirmiðdagssnarlið kom gestur, fuglarnir voru ágengir og vildu sitt.

Kvöldmaturinn var á hótelinu sem fékk alveg þokkalega dóma á TripAdvisor og var samt ekki alveg nógu fínn. Kolkrabbinn þolanlegur og tiramisù ekki nógu gott. En það var stutt að labba upp á herbergið á fjórðu hæð (stiginn. alla daga. alltaf.)

Herbergið var annars af betri gerðinni. Stórt og gott, með sturtu og baðkari. Baðkarið reyndar í herberginu sjálfu og opinn gluggi úr sturtuklefanum  með útsýni yfir karið og svalirnar. Ekki herbergi fyrir spéhrætt fólk að deila.

 

12. júlí – miðvikudagur

Sól, sól, sól, sundlaug og sól. Nokkrir Magnum Double Lampone hindberjaísar og einn og einn Aperol Spritz, opinber drykkur ferðarinnar.

Um kvöldið labbaði ég áleiðis að gamla bænum í Sirmione, en ekki alla leið, áfangastaðurinn mjög góður veitingastaður hálfa leið. Fékk þar eina bestu pizzu ævinnar með mozzarella, taleggio osti, porcini sveppum og truffluperlum. Æðislegt.

13. júlí – fimmtudagur.

Meiri sól! Meira sólbað. Meiri ís! Meira Aperol!

Um kvöldið fór ég svo alla leið inn í gamla bæinn í Sirmione sem er undurfallegur. þetta var um 30 mínútna gangur.

Út fyrir þægindarammann byrjaði í fyrra í Frans og það var alltaf planið. Ég fann góðan veitingastað, gat valið um þrjá smakkseðla, vatnsrétti, sjávarrétti, og landrétti Fékk mér smakkseðil “vatnsins” og þó forrétturinn, bleikju karpatsjó hefði ekki verið góður, var pasta með sardínum guðdómlegt, og aðalrétturinn, bleikja, frábær. Já. Ég borðaði þríréttað fiskmeti. Þér finnst það ekki jafn ótrúlegt og mér. Enn ótrúlegra: Mér fannst sardínur æðislegar. Þekki varla sjálfan mig.

Á eftir stoppaði ég við einn af hundrað íssölum í bænum og líklega þann besta. Pistasíuís ætti ekki að vera eiturgrænn enda var þessi náttúrulegur og stórkostlegur.  Naut svo útsýnis í þessum indæla bæ við þetta yndislega vatn og tók strætó heim, svona fyrst hann renndi við þegar ég var við stoppistöðina

14. júlí – föstudagur

Skýjað að mestu. Rölti um Columbare, bæinn sem hótelið er í raun í enda Sirmione víst bara gamli bærinn. stálheiðarleg quattro stagione var hádegisverðurinn. Góð hvíld á hótelinu og síðan gamla Sirmione aftur um kvöldið og engu síður heiðarlegt spaghetti alle vongole. Og þó ég þoli ekki ammrískt kanilnammi for ég að ráðum vinar og fékk mér kanilís. Og hann er bara svona góður! Aftur strætó heim, og smá rölt.

Góðir dagar við Gardavatn gerðu nákvæmlega það sem ætlast var til: Hvíld, sól og base-tan og góður matur í fallegu umhverfi.

Fleiri myndir á Flickr – Sirmione 2017

 

Leave a Comment