Ítalía – Mílanó

Posted August 14th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

6. kafli – Mílanó

26. júlí – miðvikudagur

Kom til Mílanó upp úr hádeginu, frá lestarstöðinni var tekin neðanjarðarlest nokkrar stöðvar til suðurs og svo nokkurra mínútna gangur í örlitlu íbúðina mína. Ég var fljótur að koma mér fyrir og svo var um 12 mínútna gangur norður á Dómkirkjutorgið.

Fyrsta verk var að setjast niður og fá sér einn Aperol, sem í þetta skipti kom með nasli eins og Mílanó kann þegar um aperitivo er að ræða

Síðan var kominn tími á góðan göngutúr um Mílano. Ég gekk út að Castello Sforzesco, því mikla virki Sforza greifanna, og síðan suður til Basilica di Sant’Ambrogio, einnar af elstu kirkjum Mílanó. Ég var einhverjum vikum of seinn að bísa miða á Síðustu kvöldmáltíðina, það kemur næst. Ég hafði lítið gert að skoða inn í kirkjur í þessari ferð, hef séð þær helst til margar, en leit samt inn í þessa og hafði bara smá gaman af að sjá eina gamla og ekki of ofsa stóra.

Síðan aftur upp að dómkirkjutorgi og rölt um miðbæinn þangað til kominn var tími á mat, siktaði út einn stað sem fékk þokkalega dóma þarna rétt hjá og fór síðan í eins mikið grundvallaratriði og hægt er í Milanó. Risotto alla Milanese og síðan Cotoletta alla Milanese. Skammtarnir voru gríðarlegir og ég þurfti því miður að leyfa helmningnum af hvorum. En gott var það!

Ég googlaði mig niður á einn sportbar sem vildi til að var alveg í leiðinni heim, en þegar að kom þá var staðurinn´i sumarfríi þannig ég missti af versta leik Íslendinga í Evrópukeppninni, tapinu slæma gegn Austurríki. Fór nefnilega bara heim og í bólið.

27. júlí – fimmtudagur

Dagur skoðunarferðar. Tiltölulega snemma af stað, kaffi og brioche út á næsta kaffihúsi og síðan út á næstu sporvagnastöð þar sem stigið var upp í leið 15 og stefnt austur.

Sum skoða dómkirkju af áfergju, ég skoða fótboltavelli. Ég hafði reyndar látið þá eiga sig fram að því í þessari ferð, en að sjá Stadio Guiseppe Meazza hefur verið takmark lengi.

Safnið á vellinum er afspyrnuslakt, lítið annað en mikið safn af treyjum leikmanna sem leikið hafa á vellinum. Þjáist án efa af því að þarna deila lið velli og safnið því ekki til minnis um þau.

Skoðunarferðin var samt meiriháttar, ótrúleg upplifun að koma leikmannagöngin og upp á völlinn.

Settist niður í kaffistofunni, kaffi og meððí og svo rölt um búðina þar sem Inter og Milan fengu hvort sinn helminginn.

Síðan sporvagninn aftur til baka, smá rölt og síðan stefnt á aðra helstu menningarmiðstöð borgarinnar, þar sem kórinn er aðeins minni en öllu lagvissari. Skoðunarferð á La Scala er nauðsynleg. Þar er hægt að sjá hvar fyrirfólkið kemur saman fyrir og í hléi og koma inn í stúkurnar. Ekki eru þær stórar, og þar eru tveir stólar með baki, og tveir kollar. Ekki fyrir bakveika, held ég.

Safnið á La Scala er litið en fínt, aðallega málverk og brjóstmyndir af sönghetjum og tónskáldum. Sérsýning um Toscanini var samt alveg sérlega vel uppsett, með myndböndum og tóndæmum.

Hádegisverðurinn á pizzastað í Galleria Vittorio Emmanuele II eins og aperolinn deginum áður, ljúffeng flatbaka þar, og síðan rölt heim aðra leið en áður.

Eftir siestu fór ég síðan aftur á sama veitingastað og fyrr, nú var það annar staðalréttur: Osso Buco með Risotto alla Milenese. Aftur mjög vel útilátið en núna kláraði ég! Tiramisù í eftirrétt, þokkalegt.

Eftir það var ekki annað að gera en að fara heim!

28. júlí – föstudagur

Síðasti heili dagur ferðarinnar. Það var á dagskrá að versla kannske eitthvað en blöðrutær og leti slauðufu því svona að mestu. Í staðinn rölti ég enn meira (og hægar) um miðbæinn. Man ekki einu sinni lengur hvar ég settist niður til að fá mér hádegismat en skömmu seinna var þetta

Naut samt Aperolsins að venju og fór síðan heim í síestu.

Enn á ný kom ég sjálfum mér á óvart og dreif mig út eftir lúr og nú suður á bóginn. um 20 mínútna gangur í yndislegt síkjahverfið, Naviglio. Rölti um, fékk mér fordrykk á einum stað og TripAdvisoraði mig síðan inn á einn besta mat ferðarinnar. þurfti að bíða smá eftir borði en fékk yndislegt borð í bakgarðinum. Dómarnir á TripAdvisor eru reyndar blendnir en ég hitti á gott kvöld. Prosciutto con melone í forrétt og kjöt í aðalrétt. Tiramisù í eftirrétt. Þessi síðasta kvöldmáltíð var eins indæl og ferðin, i indælu umhverfi. Þarna við síkin var skemmtileg stemming og það var fínt að ganga heim.

29. júlí – laugardagur

Síðasti dagurinn. Skrapp út og fékk mér kaffi og meððí á sama stað og síðustu morgna, og svo heim, kláraði að pakka, og yfirgaf íbúðina. Dró töskuna upp á neðanjarðarlestarstöðina og þaðan upp á lestarstöð hvar ég skildi báðar töskur eftir og fór í göngutúr. Leiðin lá niður eina aðal verslunargötuna, Corso Buenos Aires, þó ekkert sæi ég sem gat fengið mig til að reyna að versla. Endaði sem fyrr á svæðinu í kringum dómkirkjuna, fékk mér hádegisverð og síðan síðasta Aperolinn og passaði núna að ekkert Lush væri nálægt.

Ég var orðinn ansi fótlúinn þegar hér var komið sögu, blöðrur á tám orðnar vikugamlar og við bættist að ég gleymdi alltaf að setja flugnafæluna í samband í Mílanó og var orðinn ansi bitinn, og bit höfðu blásið upp í blöðrur á ökklum. Það verður ekki allt á kosið. En ég gekk samt aftur til baka upp á lestarstöð þar sem ég eyddi tímanum frekar, og endaði á að taka lestina í rúman klukkutíma út á flugvöll.

Flugið var á miðnætti að staðartíma og það var þreyttur og sæll Björn sem komst í rúmið sitt um miðja nótt.

Fleiri myndir á Flickr – Milano 2017

Stórkostleg ferð að baki. Ef þið haldið að fótsærið hafi aðeins dregið úr ánægjunni þá er það kannske rétt, en stundum er þetta bara svona.

Get sagt hiklaust að ef mér byðist nákvæmlega eins ferð á morgun, myndi ég ekki hika! Það þýðir ekki að ég ætli að fara á alla þessa staði aftur og gera þetta nákvæmlega eins næst, en þetta var eins fullkomin ferð hvað áfangastaði varðar og hægt var.

5. kafli (a) – San Gimignano, Montalcino og víðar

24. júlí – mánudagur

Nú var kominn tími til að skoða sig betur um í sveitum Toskana og til þess er fátt betra en skipulögð skoðanaferð.

Kom mér út á þarnæsta torg við íbúðina snemma morguns, fékk mér kaffi og kruðerí, og beið þar sem ég átti að bíða. Ég var alltaf að líta til eftir rútu og það var komið nokkuð fram yfir settan tíma þegar kona vatt sér að mér og spurði hvort ég væri á leið í skoðanaferð. “I thought you were Italian” var ástæðan fyrir að hún hafði ekki athugað fyrr og þetta var jú aðalbiðstöð stætóa og rúta í Siena þannig misskilningurinn var fyrirgefanlegur. Hún sótti hina farþegana inn á kaffihúsið og fór að smárútunni sem við fórum á. Við vorum fimm í ferðinn. Ensk hjón frá Plymouth og bandarísk frá Portland (en upphaflega frá NYC. Mjög mikilvægt!)

Næst hæstu turnarnir

Fyrsta stopp var turnaborgin San Gimignano. Litli smábærinn þar sem erjur milli fjölskyldna leiddi til vígbúnaðarkapphlaups í formi turnabygginga. Þegar mest lét voru þeir um 70 en nú eru 14 eftir. Kannske aðeins minna magnað en ég bjóst við en agalega skemmtilegt að koma þarna burtséð frá turnunum, lítið og sætt gamalt þorp

Fengum rúman klukkutíma þar sem var nóg til að rölta helstu stræti og klífa hæsta turninn. 280 þrep þar. Þrammið upp á Nítjándu er alltaf að gefa. Þetta er auðvitað ægifagurt allt, bærinn, turnarnir og líðandi hæðirnar í kring og útsýnið úr turninum var vel þess virði

Næsta stopp var vínhús. Skoðuðum ekkert en komum bara að eins og væri lítill veitingstaður. Þar var okkur gefin að smakka þeirra helstu vín og ég splæsti í eina Brunello di Montalcino. Fengum líka mat, lasagnað hennar langömmu, osta og pylsur.

Næsta stopp var gamalt virki á pílagrímsleiðinni til Jerúsalem. Virkilega flott! Ísinn mjög góður og köttur sem var fædd fyrirsæta.

Síðan var það næsti vínframleiðandinn. Gamli eigandinn sýndi okkur í rykfallnar geymslurnar þar sem voru vín allt frá 1945og var með ýmsan fróðleik. Indæll gaur og svo skýrmæltur að ég skildi hvert orð áður en gædinn þýddi. Svo var auðvitað smakk og ég keypti Brunello di Montalcino Riserva. Bar af hjá þessum.

 

Svo var það loksins smáþorpið Montalcino sjálft og þar snýst sko allt um vín! (Já og jazzhátíðina í kastalanum). Enn meira af líðandi og jafnvel bröttum hæðum í kring og meiri ís. Brunello di Montalcino ís! Af ástæðum sem komu fljótt í ljós var hann ekki seldur í brauðformi heldur bara boxi. Áfengið veldur jú hraðri bráðnun!

Síðan héldum við heim á leið. Þetta var prýðileg ferð til að sjá staði sem ég hefði ekki séð (utan San Gimignano) ef ég hefði verið í einsmennsku. Eins og áður var nefnt er myndasafnið úr ferðinni með Siena myndum:

Fleiri myndir á Flickr – Siena, San Gimignano og Chianti 2017

.

Ítalía – Siena

Posted August 9th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

5. kafli – Siena

23. júlí – sunnudagur

Siena í mínum huga var alltaf borgin hennar Dísu frænku. Í ferðum sínum til Ítalíu var það eins og oftar en ekki hún væri við ítölskunám hér, í góðan tíma í senn. Kannski voru þetta bara 2-3 ferðir en þetta fannst mér. Minning hennar og Teits förunautar hennar var mér mjög í huga þessa daga sem ég dvaldi í bænum.

Sem fyrr segir kom ég til Siena á sunnudagseftirmiðdegi og kom mér vel fyrir í AirBnB íbúð steinsnar frá aðaltorgi bæjarins. Þarna í miðbæ Siena vantar ekki brattar götur og sú sem ég bjó við var ekki síst.  Þar má ekki eiga bíl með bilaða handbremsu!

Það tók mig þrjár mínútur að fara út á Piazza del Campo og sá í fyrsta skipti þetta fræga torg og reyna auðvitað strax að ímynda mér hvernig það liti út stappfullt af fólki og hestum.

Fyrsti kvöldverður með var ágætur í boði TripAdvisor. Eftir fimm mínútur fór ég að hugsa að þetta væri nú fín músík undir borðum, Chet Baker. Fimm mínútum síðar var hugsunin að þetta væri ansi löng útgáfa af laginu. Þegar ég staulaðist út eftir klukkutíma lét ég afgreiðslustúlkuna alveg vita að þó maturinn hefði verið frábær hefði þessi raungerving Barry Manilow Syndrome með sama laginu á rípít allan tímann væri atlaga að geðheilsu! Ég kom mér heim og í rúm enda langur dagur framundan.

24. júlí – mánudagur

Þessum degi eyddi ég í skipulega skoðanaferð um Toscana og það fær sérfærslu!

Um kvöldið var ég túristi og borgaði túristaskattinn fyrir að borða við Campo. Valdi þann stað sem fékk skásta einkunn en pasta með villisvínaragù var engu að síður verra en ég vonaði. Tók aðeins of mikinn séns þar.

25. júlí – þriðjudagur

Ég var snemma á ferli og gat tekið góðan rúnt um miðbæinn án þess að túristar væru að þvælast mikið fyrir en við erum hér auðvitað þúsundum saman. Útsýnið hér er engu líkt og fegurð bæjarins mikil. Ég bjóst samt ekki við hversu áhrifarík heimsókn í virkið hér væri. Ganga á virkisveggjunum var yndisleg og greinilegt að það er staðurinn fyrir skokkara, röltara og aðra heilsubótarleitendur að vera.

Fortezza Medicea

Ég tók pit stop heima og svo ostar og pizza á stað með frábært útsýni og prýðilega flatböku! Ostarnir auðvitað æði.

Síðan heim aftur og nú tekin almennileg siesta og enn einu sinni kom ég mér má á óvart og dreif mig út í kvöldmat. Valdi stað með góð ummæli en spaghetti með rækjum olli vonbrigðum. Alltof salt og eins og að þefa beint af leginum af þíddum rækjum. Hefði svosem átt að hafa vitað.

Trippa Senese

Tók sénsinn í aðalréttinum og fékk mér Trippa Senese – kálfavambir. (Nei, Trippa er ekki “stripes” á ensku, veitingastaður, ég vissi vel hvað ég var að panta) Ekki slæmt en ekki gott. Pastað á undan hjálpaði ekki til. Mun prófa aftur.

Siena er ekki stór bær og það kom ekkert sérlega á óvart að heyra nafnið mitt kallað þar sem ég sat og borðaði. Þar voru bandarísk hjón sem ég var með í ferðinni deginum áður að labba framhjá og sáu mig!

Meðan ég sat þarna inni var greinilega útkall því 10 lögreglubílar með blikkandi ljósum fóru fram hjá. Það var ansi magnað enda ekki mesta breiðgata bæjarins, varla pláss fyrir gangandi þegar bílarnir þustu framhjá!

Tók síðan kvöldið rólega.

26. júlí – miðvikudagur

Var kominn út á rútustöð klukkan 7:20 eftir um 10 mínútna rölt með töskum og hafði tíma í kaffi og súkkulaðihorn, ekki það fyrsta í ferðinni. Ég sleppti kannske namminu alveg í þessari ferð, en þetta telst ekki nammi. Þó það sé með súkkulaði og nutellafyllt!

Ferðin til Flórens með rútunni tók rúman klukkutíma og þar hoppaði ég í lest til Mílanó, síðasta áfangastaðar ferðarinnar.

Myndasyrpa dagsins er með myndum frá Siena, sem og úr mánudagsferðinni!

Fleiri myndir á Flickr – Siena, San Gimignano og Chianti 2017

 

4. kafli – Castello di Spaltenna, Gaiole in Chianti

22. júlí – Laugardagur

Þá var komið að lúxuslegg þessarar ferðar. Eftir gestaherbergi í Veróna og Flórens var komið að því að vera útaf fyrir mig og láta vel við mig í mat og drykk.

Ég skildi við sjálfan mig í Flórensfærslunni á lestarstöðinni í Flórens, sárfættan og þreyttan. Ég tók lest til Siena sem tók smá tíma, enda ekki farið beinustu leið. Þegar þangað var komið hafði ég nokkurn tíma fyrir mig og fór á eðalveitingas… nei reyndar ekki, fór á stjörnutorgið í kringlunni sem var á sjálfri lestarstöðinni og fékk mér tvær pizzasneiðar. Þær voru betri en Dominos. Síðan stutt rölt gegnum undirgöng og upp nokkra stiga til að komast á rútustoppin við stöðina þar tók rútuna til smábæjarins Gaiole in Chianti, í hjarta þess fræga vínhéraðs Chianti. Þá þurfti ég að rölta snarbratta brekku í 10 mínútur að hótelinu. Tærnar kvörtuðu smá, sko.

En hótelið var þess virði. Gamall (hve gamall? ekki hugmynd) sveitakastali sem gerður hefur verið að þessu fína, næstum lúxushóteli. Ég hafði tíma til að bregða mér í laugina til að sóla mig aðeins og sötra einn þið-vitið-orðið-hvað en það var frekar skýjað og eftir ég fór inn að horfa á tapleik Íslands gegn Sviss fór að hellirigna. Gott fyrir mikilvægan gróður.

Ástæðan fyrir því að ég var þangað kominn var samt einföld

Áfangastaðurinn var því frekar veitingastaðurinn, sem nýlega varð sér úti um Michelin stjörnu, frekar en hótelið þó vissulega hafi það verið óaðfinnanlegt.

Það stytti upp um sjö, nógu seint til að veitingastaðurinn vildi ekki dekka borðin í kastalagarðinum, nokkuð sem gesturinn á undan mér varð alveg ægilega foj yfir, heimtaði þau myndu redda þessu einn tveir og þrír. Ég segi ekki hann hafi haft örlítið til síns máls, en hefði mátt vera örlítið rólegri. Eða heilmikið rólegri. En á endanum fannst mér bara þægilegra og meiri lúxus að sitja inni.

Sex rétta smakkseðillinn var hreint frábær. Upp úr stóð gnocchi rétturinn, bragðgæðin fullkomin, dúfan var svo bragðmikil með sósu og öllu að þó skammturinn væri lítill var næstum meira en að segja það að klára! Léttur millieftirréttur hreinsaði munninn og desertinn og petit fours voru jafn bragðgóð og þau líta út á myndinni.

Með matnum var vínvalið auðvelt, þeirra eigin vín. Kannske ekki eins grand og að fá sérvalin vín frá óháðum aðilum en fyrir mig alveg prýðilegt.

Stórkostlegt kvöld.

Pre-amuse bouche

Amuse bouche

Humarhali, foie gras og kornhæna

Humarhali, foie gras og kornhæna

Carpaccio

Fyllt gnocchi

Risotto

Dúfa

Eftirréttur til heiðurs Escoffier og petit four

 

Eitt af því góða við að borða á hótelinu er að það er stutt í rúmið. Eftir þennan fína mat, en eilítið langa dag, var gott að komast í rúmið

23. júlí – sunnudagur

Morgunverðurinn á hótelinu var að sjálfsögðu yndislegur og að njóta hans með þessu frábæra útsýni var enn betra.

Morgunþokunni létti þegar á leið. Ég var ekkert að flýta mér af þessum ágæta stað, borðaði ágætan hádegisverð á sömu terrössu og síðan tók ég leigubíl til Siena þar sem engar rútur gengu á sunnudögum. Ég var kominn um miðjan eftirmiðdag til Siena og þar tekur við næsti kafli ferðarinnar.

Fleiri myndir á Flickr – Castello di Spaltenna

Ítalía – Lucca

Posted August 5th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Kafli 3 (b) – Lucca

21. júlí – föstudagur

Ætli ég hafi ekki fyrst heyrt almennilega um Lucca á blogginu hjá Örvitanum? Fyrst þá og svo aftur þegar ég renndi í gegnum ferðasöguna hans frá Toskana. En líka í þessari bók: Francesco’s Italy, sem Amazon er svo vænt að segja mér strax að ég hafi keypt 2006. Þannig að ég setti ferðalag þangað á listann. Missti af fyrstu áætluðu ferðinni sem fyrr er sagt, en ákvað nú samt að drífa mig, þetta gæti verið gaman. Það var rétt ákvörðun.

Rútuferðin tók um klukkustund. Í Lucca gekk ég um gamla bæinn. Á aðal torginu er allt upptekið af sumarfestivalinu þeirra. Ég beið þó ekki eftir kvöldinu, ekkert spennandi þá , ólíkt vinnufélaga mínum fyrrverand sem sá Robbie Williams sunnudeginum áður. Ég settist samt niður og fékk mér (en ekki hvað) Aperol.

Gekk síðan hringinn um bæinn á gamla virkisveggnum, frá mér numinn af hrifningu á þessum bæ. Ég get eiginlega ekki lýst því og myndir gera því lítil skil, en þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi: Það er ný ást í lífi mínu og það er Lucca.

TripAdvisoraði mig á opinn stað (Osteria Da Rosolo) upp úr sex og for í 800g Bistecca Fiorentina, það hljómaði aðeins viðráðanlegra en kíló og var það, litið annað en sinar og bein eftir þegar yfir lauk. Ævintýralega gott!!

Tiramisùið var svo alveg með því besta sem ég hef fengið og ég ætla að reyna að nota hugmyndir frá því og prófa hvort ég geti gert það heima

Síðan var það bara lestin heim, fyrr og fljótar en Google hélt, mjög þægilegt.

Fleiri myndir á Flickr – Lucca 2017

Ítalía – Pisa

Posted August 4th, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Kafli 3 (a) – Pisa

18. júli – þriðjudagur

Ferð um Toskana hlýtur að fela í sér ferð til Pisa, er það ekki? Sjá turninn, tékka við það á ‘100 greatest sights’, og drífa sig svo.

 

En Pisa var bara ansi skemmtileg heimsókn og það voru síður en svo vonbrigði að sjá skakka turninn. Ég tók klukkutíma lest til Písa frá Flórens. Þegar þangað var komið for ég sem leið lá 20 mínútna göngu í átt að helsta kennileiti borgarinnar. Ég miðaði á aðra af tveim brúm yfir Arno og fór um frekar venjulegar jafnvel hráar götur og sá ekki marga utan stóran hóps bakpokakrakka. verð að viðurkenna að mér þótti þá ekki mikið til bæjarins koma.

Síðan birtist turninn og Piazza dei Miracoli. Áður en lengra er haldið verð ég að segja að ef klukknaturninn væri ekki svona skakkur og ljótur væri þetta án efa eitt af fallegri kirkjutorgum heims. Dómkirkjan er hreint gullfalleg. Ég brá mér í miðasöluna og fékk miða í turninn tveim tímum síðar. (Muna krakkar: kaupa á netinu með góðum fyrirvara).

Tölti síðan um í leit að einhverjum þokkalegum mat stað en endaði á Strittendfud sem fær svaka fína einkunn á TripAdvisor en er beisik götu matur. Fékk mjög góðan slíkan, djúpsteikt fyllt zucchiniblóm og arancini.

Svo í turninn. Þar kom sér ágætlega æfingin frá daglegu þrammi af 7. hæð uppá Nítjándu! Reyndar hefur skólinn frétt af því, því í Flórens bjó ég á 4ðu hæð í lyftulausu! Ekki gaman að uppgötva maður gefi gleymt einhverju uppi þegar niður er komið!

En það er ekki ofsagt að engar myndir gera því skil hvernig er að ganga upp turninn þar sem hluti stigans hallar skarpt. Og uppi finnurðu rækilega fyrir hallanum. Mig hálfsundlaði og lá við sjóveiki! Stórkostleg upplifun. Ekki sleppa að fara upp! (Var næstum of seinn maður þarf að setja tösku í geymslu og vera svo mættur við turninn í röðina vel 10 mín fyrir settan tima. En ekki í fyrsta skipti slapp ég. )

Lét ekki taka af mér „halda við turninn“ mynd en það fyndnasta sem ég sá var fólk að taka slíka frá sjónarhorni þar sem hallar ekki. Öss!

Síðan miðaði ég aftur á lestarstöðina og núna fór ég á hina brúna. Þá kom ég á þetta fína breiðstræti. Greinilega “betri” leiðin, og líklega voru fyrstu kynni mín af Pisa ekki alveg rétt, þó það sé nú alltaf gaman að sjá fleiri hliðar á borgum en bara glanshliðina.

Síðan var það bara lestin aftur til Flórens og vísað til fyrri kafla!

Fleiri myndir á Flickr – Pisa 2017

Ítalía – Flórens

Posted August 3rd, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

3. kafli – Flórens

16. júlí – sunnudagur

Kom til Flórens seinni hluta dags, tók leigubíl að gistingunni minni á vegum skólans, kom mér þar vel fyrir og dreif mig svo út í kvöldmat. Ég gekk sem leið lá í skólann til að kynna mér hana, um 20 mínútna rölt og þegar hann var fundinn var beygt næstu götu til vinstri og blasti þá hin ægifagra dómkirkja við með hvolfþaki Brunelleschi.

Kvöldmaturinn var svo með útsýni og í þetta skiptið einn sá versti slíkur. Mig minnir að það hafi verið gnocchi með ostasósu. En ég sé ekki eftir neinu! Á leiðinni heim fann ég svo ísbúð og átti eftir að koma nokkrum sinnum í þá sömu enda líklega heimablandan þeirra besti ís ferðarinnar, hálfgert nammi í raun.

Og síðan var það aftur heim, ég var með herbergi hjá eldri frú og syni hennar og fékk þar morgunmat, allt frekar staðlað fyrir svona málaskólavist og bara alveg ágætlega þægilegt.

17. júlí – mánudagur

Fyrsti skóladagurinn, stutt próf fyrir fyrsta tíma til að finna mér réttan stað. Ég hef oft verið betri í ítölskunni, búinn að læra allar tíðir og myndir svo sem, en er ansi ryðgað. Lenti bara á ágætum stað, farið yfir hluti sem ég hafði séð áður og auðvelt að rifja upp. Skólinn var sem fyrr segir frekar nálægt dómkirkjunni, þessi mynd úr skólastofunni sýnir það betur.

Skólinn búinn 12:15 og þá farið í góðan göngutúr um Flórens. Ég reyndar gleymdi alveg að ganga upp á hæðina fyrir ofan, sem er eitt af því fáa sem ég man eftir úr dagsferðinni frá Rimini 1988. Ekki gert neitt að ráði, nema jú fara í ísbúð.

Þegar heim var komið hékk ég á netinu, ætlaði út að borða en á endanum nennti ég ekki. Það er ekkert nýtt í utanlandsferðum, svo sem, en á endanum reyndist þetta vera í eina skiptið sem ég dreif mig ekki út. Það er bara nokkuð vel af sér vikið fyrir mig!

18. júli – þriðjudagur

Vakna, skóli, og svo dreif ég mig til Pisa eftir hádegi. Pisa fær sér færslu!

Ég kom fyrir kvöldmat til Flórens og á leiðinni frá lestarstöðinni og heim (skólinn var einmitt á þeirri gönguleið) kom ég við á írskri íþróttakrá og spurði hvort þeir myndu ekki sýna leikinn í Evrópukeppninni. Þeir héldu það nú og ég fór heim, sturtaði mig, klæddi mig upp á og fór aftur út. Þar drakk ég góðan írskan bjór og borðaði líklega versta mat ferðarinnar: Hamborgarar á Ítalíu eru sjaldnast gúrme.

Barinn hafði verið að fyllast af börnum og það verður að segjast að hugurinn hvarflaði 30 ár aftur þegar ég var á þeirra aldri á málaskóla í útlandinu. Þó ég hefði reyndar ekki verið alveg jafn… glaður 😎

Þannig að um leið og leikurinn var búinn hraðaði þessi gamli sér burt og fékk sér ís i sárabætur.

19. júlí – miðvikudagur

Vakna snemma. Hanga á neti og lesa. Skóli til 12:15.

Planið þennan dag var að fara til Lucca. En nei. Loksins kom að því að Google klikkaði illilega. Maps var að reyna að segja mér hvaðan rútan til Lucca færi og laug illilega. Ég hafði nægan tíma, rútan átti að fara frá næsta horni við lestarstöðina kl 13:30, um 10 mínútna gang frá skólanum, ég fór þangað og beint inn á næsta veitingastað til að borða hádegisverð. Risotto reynt enn á ný og var þokkalegt, en ekkert meira.

Síðan út á stoppistöð en engin merki sá ég um Lucca rútu. Spurði inn á miðasölunni: Rútan til Lucca fer frá … og eitthvað nafn. Sagt að taka bara strætó „þaðan“ sem voru svo óljósar upplýsingar að ég fann það ekki. Snerist í hringi um sjálfan mig, argur út í allt og alla, sá að það var 20 mínútna gangur á þessa rútustöð og ákvað á endanum að gefa þetta upp á bátinn enda nú endanlega búinn að missa af 13:30 rútunni og næsta rúta eftir klukkutíma

Í staðinn for ég og steikti á mér höfuðið í tæpan klukkutíma í biðröðinni að Galleria dell’Academia til að heilsa upp á Davíð. Hann var hress og bað að heilsa.

Keypti mér besta ís í bænum og tók svo siestu. Því stundum á ferðalögum þarf maður bara að slökkva á sér í smátíma, með eða án svefns.

Og enn og aftur dreif ég mig út eftir siestuna. Rölti aðeins um bæinn, fékk mér fyrsta Aperol Spritzinn í Flórens (glæpsamlegt að bíða þrjá daga með það!) og ákvað að treysta TripAdvisor fyrir kvöldmat og hitti á meiri háttar stað.

Ég elska gott risotto og sumum kann að finnast um of að borða það tvisvar á dag, en þarna datt ég í lukkupottinn og fékk æðislegt risotto með smjöri, ansjósum, og steiktri brauðmylsnu. (Ansjósur. Já. Ansjósur. Munið hvað ég sagði um sardínur um daginn? Aftur það.)

Lagði ekki í kíló af Flórenssteik en Facebook færsla um það og hvatningar þar við breyttu skoðun minni. Sjá síðar. Fékk samt agalega góða steik og tiramisù á eftir sem var bara næstum jafn gott og mitt eigið.

Borgaði með 100 evru seðli og fékk hann svo aftur til baka með réttu upphæðinni líka. Það var afskaplega feginn karl á kassanum sem skoðaði og sá að enginn hundrað evru seðill var þar þannig það var rétt hjá mér að þeir hefðu næstum verið búnir að borga mér fyrir að borða þennan gómsæta mat.

En ef svo ólíklega vill til að ég hafi í raun sett tvo slíka seðla með og þeir platað mig? Nú þá var þetta bara á góðu Reykjavíkurverði!

Á endanum var þetta bara frábær dagur.

20. júlí – fimmtudagur

Komið að Uffizi.Fyrst þó stálheiðarleg napólsk pizzeria með átta pizzum á matseðli. Ég fékk mér auðvitað Pizza Napolí. Með ansjósum! Þetta var frábær pizza á frábærri búllu, og fékk smá limoncello í kaupbæti.

Uffizi er auðvitað yfirþyrmandi á allan hátt. Myndir af listaverkunum eru til betri alls staðar þannig ég sleppti þeim. Ég vildi ég myndi eitthvað af því sem Ólafur Gíslason sagði mér og öðrum í frábærri leiðsögn um safnið fyrir 29 árum en það er allt horfið nema það að hann mismælti sig og sagði “Fra Lippo Lippi” í stað “Filippo Lippi”. Skilji þau sem vilja.

Eftir siestu skrapp ég í drykk með skólanum sem var bara gaman, ágætlega skemmtilegt fólk, reyndar ekki nema ein úr bekknum mínum þannig ég þekkti þau ekkert fyrir né eftir. Var það lengi að það var rétt tími í þokkalegt trufflupasta fyrir svefninn.

21. júlí – föstudagur

Loksins til Lucca. Fann nýju stoppistöð rútunnar (sem var á endanum jú um 15 mínútna gang frá lestarstöðinni og hafði tíma að fara á nærliggjandi veitingastað og fá mér gríðargott smákolkrabbagnocchi með chili.

Lucca fær sér færslu!

Kom heim síðar en frá Pisa og fór beint í bólið. Með viðkomu í ísbúðinni.

22. júlí – laugardagur

Ekkert annað eftir í Flórens en að fara á lestarstöðina og taka lest til Siena. Nennti ekki að hringja á leigubíl en þrammaði með hafurtask mitt út á lestarstöð, rúmlega hálftíma leið, í nýju skónum. Og nú endanlega tóku þeir sinn toll: Ég var kominn með verulega verki í fæturna á leiðinni og þetta var næstum kvalaganga. En út á lestarstöð komst ég og næsti kafli er stuttur verður stuttur en yndislegur.

Fleiri myndir á Flickr – Flórens 2017

Ítalía – Veróna

Posted August 2nd, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

2. kafli – Veróna

15. júlí – laugardagur

Frá Sirmione lá leiðin til Veróna.

Ákvað 20 mínútum fyrir brottför að fletta upp miðanum mikilvæga fyrir kvöldið. Minnti jú að email staðfestingin hefði verið skrýtin. Finn ekkert í póstinum. Smá panik. Ákveð mig hefði dreymt miðakaupin. Fer á netið. Finn sölusíðuna. Leita að henni í póstinum. Finn staðfestinguna… um að kortasalan hefði ekki gengið í gegn.  Reyni að kaupa miða. Fæ miða á sama svæði og ætlað var. Ýti á staðfest.

Hljóp svo út, fór vitlausa leið í strætó en komst þó í tæka tíð og það tók um klukkustund að komast til Veróna. Þar var ég í herbergi á AirBnB hjá viðkunnanlegum gestgjafa sem átti mjög vingjarnlegan hund. Mjög þægilegt og alveg beint í miðbænum, um 3 mínútna gang frá Arena di Verona. Fór út og fékk mér hádegisverð við torgið, eins og ég vissi var hann dýrari en annars staðar og líklega aðeins slakari. Risottoið var samt alveg þolanlegt.

Síðan opnuðust himnarnir og valið að fara í smart skónum með gatinu á sólanum varð að röngu vali. Smellti mér upp á herbergi, skipti um skó og fór svo að kaupa aðra á útsölu í gríðarsmart búð. Þau skókaup drógu þó dilk á eftir sér sem síðar verður komið að

Kvöldmaturinn í því sem næst næsta húsi við gistinguna var síðan öldungis frábær. Gnocchi, svínakinnar og kaffi. Fékk líka lystauka og desertauka þannig það var alveg stjanað við mig. 

Svo kom hápunkturinn: Nabucco í Arena. Ég var með fínt sæti og gat notið stórfenglegs sjónarspils (flestir hestar á sviðinu í einu: 10, auk léttivagns) 200 manns í kórnum og glæsileg sviðsmynd. Söngurinn var góður og ekki á hverjum degi sem maður heyrir lög endurtekin í óperum: Va, pensiero er enda án efa innblásturinn að færslu uppsetningarinnar frá Jerúsalem og Babýlon til Ítalíu risorgimento tímans og mátti alveg við endurflutningi.

Hér er upptaka frá þessari uppfærslu í sumar í Arena. Sviðsmyndin var sem sé óperuhús.

Þar sem ég sat var ekki sungið með, enda við flest ferðafólk, en í ódýrari sætunum er sungið hástöfum. Næst!

Frábær dagur!

16. júlí – sunnudagur

Morguninn eftir rölti ég út í morgunmat og síðan steðjaði ég að ráði gestgjafans upp á hæð hinu megin við ána Adige þaðan sem útsýni yfir borgina var fagurt.

Síðan var það leigubíll á lestarstöðina og lestin til Flórens, skipt í Bologna. En það er næsti kafli.

Fleiri myndir á Flickr – Veróna 2017

Ítalía – Við Gardavatn

Posted August 1st, 2017. Filed under ferðalög Italia 2017

Fimm ára blogghlé? Hvers vegna ekki. En ferðablogg eru alltaf skemmtileg og það þarf að festa í net söguna af Ítalíuferðinni góðu.

1. kafli РVi̡ Gardavatn

10. júlí – mánudagur

Flogið með síðdegisflugi Icelandair beint til Mílanó og lent þar síðla að kvöldi. Þá er bara að eitt að gera og það er að gista á flugvallarhótelinu. Splæsti á mig Sheraton á vellinum frekar en að þurfa að finna skutlu og fara kílómetersleið að hinu. Engu að síður var leiðin eftir flugvallargöngunum drjúg og það var þreyttur björn sem skreið í rúmið. Ég hafði reyndar gefið mér tíma til fara á hótelbarinn og njóta fyrstu ítölsku máltíðarinnar: Vel útilátins caprese. Það var eins gott og það átti að vera.

11. júlí – þriðjudagur

Rólegur morgun: Flott morgunverðarhlaðborð og svo út á lestarstöðina sem var næst hótelinu og til Sirmione. Fyrst flugvallarlestin inn á Milano Centrale og þaðan lestin til Verona með viðkomu við Gardavatn. Ég var að reyna að fylgjast með stoppunum á Google Maps en ekki í fyrsta skipti var netsamband slælegt og ég fór stöð of langt, þurfti að finna strætó og síðan bíða í klukkutíma eftir honum. Þannig ég var aðeins seinni á hótelið en ætlað var en loksins um þrjúleytið var ég kominn í langþráð sólbað í almennilegum hita, 33°C. Í eftirmiðdagssnarlið kom gestur, fuglarnir voru ágengir og vildu sitt.

Kvöldmaturinn var á hótelinu sem fékk alveg þokkalega dóma á TripAdvisor og var samt ekki alveg nógu fínn. Kolkrabbinn þolanlegur og tiramisù ekki nógu gott. En það var stutt að labba upp á herbergið á fjórðu hæð (stiginn. alla daga. alltaf.)

Herbergið var annars af betri gerðinni. Stórt og gott, með sturtu og baðkari. Baðkarið reyndar í herberginu sjálfu og opinn gluggi úr sturtuklefanum  með útsýni yfir karið og svalirnar. Ekki herbergi fyrir spéhrætt fólk að deila.

 

12. júlí – miðvikudagur

Sól, sól, sól, sundlaug og sól. Nokkrir Magnum Double Lampone hindberjaísar og einn og einn Aperol Spritz, opinber drykkur ferðarinnar.

Um kvöldið labbaði ég áleiðis að gamla bænum í Sirmione, en ekki alla leið, áfangastaðurinn mjög góður veitingastaður hálfa leið. Fékk þar eina bestu pizzu ævinnar með mozzarella, taleggio osti, porcini sveppum og truffluperlum. Æðislegt.

13. júlí – fimmtudagur.

Meiri sól! Meira sólbað. Meiri ís! Meira Aperol!

Um kvöldið fór ég svo alla leið inn í gamla bæinn í Sirmione sem er undurfallegur. þetta var um 30 mínútna gangur.

Út fyrir þægindarammann byrjaði í fyrra í Frans og það var alltaf planið. Ég fann góðan veitingastað, gat valið um þrjá smakkseðla, vatnsrétti, sjávarrétti, og landrétti Fékk mér smakkseðil “vatnsins” og þó forrétturinn, bleikju karpatsjó hefði ekki verið góður, var pasta með sardínum guðdómlegt, og aðalrétturinn, bleikja, frábær. Já. Ég borðaði þríréttað fiskmeti. Þér finnst það ekki jafn ótrúlegt og mér. Enn ótrúlegra: Mér fannst sardínur æðislegar. Þekki varla sjálfan mig.

Á eftir stoppaði ég við einn af hundrað íssölum í bænum og líklega þann besta. Pistasíuís ætti ekki að vera eiturgrænn enda var þessi náttúrulegur og stórkostlegur.  Naut svo útsýnis í þessum indæla bæ við þetta yndislega vatn og tók strætó heim, svona fyrst hann renndi við þegar ég var við stoppistöðina

14. júlí – föstudagur

Skýjað að mestu. Rölti um Columbare, bæinn sem hótelið er í raun í enda Sirmione víst bara gamli bærinn. stálheiðarleg quattro stagione var hádegisverðurinn. Góð hvíld á hótelinu og síðan gamla Sirmione aftur um kvöldið og engu síður heiðarlegt spaghetti alle vongole. Og þó ég þoli ekki ammrískt kanilnammi for ég að ráðum vinar og fékk mér kanilís. Og hann er bara svona góður! Aftur strætó heim, og smá rölt.

Góðir dagar við Gardavatn gerðu nákvæmlega það sem ætlast var til: Hvíld, sól og base-tan og góður matur í fallegu umhverfi.

Fleiri myndir á Flickr – Sirmione 2017