0

Brasilía – São Paulo

Posted July 9th, 2011. Filed under Uncategorized

Eins og Ríó er São Paulo ansi hreint stór og mörg hverfi. Ég var þó ekki lengi í borginni og verð að viðurkenna að ég fór ekki víða. Ég var á gistiheimili í Jardins hverfinu sem skv ferðahandbókinni er eitt það notalegasta í borginni og held það hljóti að vera rétt. Þarna voru litlar götur með búðum og ein þeirra greinilega flottust, öll helstu tískumerkin, að mestu í litlum búðum, mjög fínt.
Hverfið liggur vestan við eina aðalbreiðgötu borgarinnar, Avenida Paulista og föstudagurinn fór í að rölta þá götu. Þar tókst mér þó að fara í fyrsta skipti í ferðinni á safn, listasafn meira að segja. Museu de Arte de São Paulo, MASP Þeir eru með ágætt safn af minni verkum evrópsku meistaranna sem var gaman að skoða, og í kjallaranum var verið að sýna ‘6 milljarðar annara’. Geysilega athyglisverð sýning byggða á viðtölum við hundruðir eða þúsundir? jarðarbúa sem greina frá lífi sínu, draumum og hugsunum. Eyddi dágóðum tíma í þetta.
Museu de Arte de São Paulo, MASP
Um kvöldið fór ég út á næsta götuhorn, hvar var fínn írskur bar. Þar var sjónvarp sem ég horfði á Argentínu spila fyrsta leikinn í Copa America og gekk vægast sagt illa. Aðrir á staðnum voru í meira djammstuði en ég en ég fékk þó að horfa óáreittur. Fékk mér ágætissvínarif, nokkra bjóra og fór heim þegar hæst lét.
Á laugardeginum hafði ég ætlað að fara í klukkutímaferð til hafnarborgarinnar Santos, og skoða Pelé safnið þar, en komst að því að það var lokað um helgar, til allrar hamingju áður en ég lagði í hann þó. Þess í stað gekk ég austur frá Paulistabreiðgötunni og yfir í það sem kalla má miðbæ. Má kannske segja að það sýni hvað mér þótti fátt áhugavert þar að ég tók engar myndir. Þetta var samt ágætisgöngutúr og ég fékk ágæta steik á ferðahandbókarmeðmæltum stað i hádeginu.
Um kvöldið fann ég pizza stað í Jardins og naut ágætrar pizzu á uppsprengdu verði, enda var allt geysilega dýrt, bæði í Ríó og í São Paulo. Sunnudeginum eyddi ég í ráf um Paulista og Jardins, endaði á að fara inn á bar og horfa á Brasilíu eiga í mesta basli í sínum fyrsta Copa leik. Ekki voru margir þarna að horfa en einn hópur þó og gátu þeir lítið fagnað 0-0 jafntefli. Hef smá áhyggjur af hvort Brasilíu tekst að vinna sinn riðil sem er jú nauðsynlegt fyrir mig þar sem fjórðungsúrslitaleikurinn sem ég á miða á er einmitt með téðum riðilssigurvegara.
Þannig nýtti ég tímann í São Paulo illa að sumu leyti en naut þess samt ágætlega og hvíldi mig vel. Á mánudeginum var síðan komið að næsta landi, haldið í veturinn í Montevideo.

Leave a Comment