0

Brasilía – Ríó, annar hluti

Posted July 9th, 2011. Filed under Uncategorized

Við skildum við hetju okkar á á mánudegi í Ríó. Seinni part mánudagsins fór ég í miðbæinn og rölti nokkuð um. Verð að viðurkenna ég var ekkert upprifinn af þessu, en samt alltaf gaman að koma á nýja staði.
Þriðjudaginn tók ég síðan túristapakkann með trukki. Tók strætó út að Sykurhleif, Pão de Açúcar. Síðan kláf upp á minna fjall og þaðan annan upp á sjálfan hleifinn og naut þaðan mikilfenglegs útsýnis yfir Ríó.
Rio de Janeiro 114
Síðan aftur niður, strætó út að Botafogo metróstöð, niður í bæ og út að sporvagnastöðinni sem gerir ekki annað en að þjóna Santa Teresa hverfinu. Þetta er lítið og sætt hverfi þar sem er víst ágætt að taka fyrsta drykk á djammkvöldi, en ég gerði ekki annað en að leita uppi matsölustað og fá mér að borða. Þetta var Norður-Brasilískur staður og ég fékk hálfþurrkað og steikt nautakjöt, mikill og stór skammtur með steiktum yams, svörtum baunum, og manioc mjöli. Gat næstum klárað!
iphone Sao Paulo 019
Síðan næsta skref, tók strætó niður í Lapa hverfið (sem er staðurinn til að fara á eftir fordrykkinn í Santa Teresa, en sem fyrr segir djammaði ég ekkert) og þaðan annan strætó út að endastöðinni fyrir lestina sem fer með mann upp á tind Corcovado. Einhverjum bjöllum kann það nafn að hringja hjá sumum, en allir þekkja staðinn, því þar er Jesústyttan fræga sem gnæfir þarna yfir í 710 metra hæð. Útsýnið yfir borgina er enn frábærara þarna og ég var þarna fram yfir sólsetur til að sjá borgina ljóma. Aðrir en ég geta komið með beittar athugasemdir um kaldhæðni þess að stærsta Jesústytta í heimi horfi niður á alla þá mannlegu eymd sem fátækrahverfin í Ríó hafa að geyma, ég hef ekki alveg hugmyndaflug í að koma hugsunum mínum um það fram á hnitmiðaðan hátt.
Rio de Janeiro 171
Einhver hefði haft vit á því að það gæti verið kalt þarna uppi, en ekki ég og það var orðið ansi napurt að vera þarna á stuttbuxum og stuttermabol. Ég tók síðan aftur strætó út á Ipanema, tók um klukkustund og var feginn að komast í ból.
Á miðvikudeginum gerði ég ekki neitt. Ég var eiginlega búinn að taka svona Greatest Hits af Ríó, og ákvað að ég gæti lifað án þess að taka favela tour, eða leiðsögn um fátækrahverfi. Það er eflaust einstök upplifun, en ég gat ekki horfst í augu við það. Nóg er nú samt. Þannig ég rölti um strandveginn, síðan upp í ekki-mjög-flottan almenningsgarð og sat þar í sólinni, hlustaði á músík á iSímanum og las af honum einhverja reyfara. Í hádeginu fór ég á TexMex stað sem hét Rota 66. Eins og sjá má:
TexMex á Rota 66
Eins og þeir sem fylgja mér á Foursquare vita, var ég búinn að finna bar og veitingastað sem var þarna alveg við hliðina á hótelinu sem var með ókeypis WiFi, ágætan mat og frábærar caipirinhur, og nýtti ég mér hann vel. Á miðvikudagskvöldið fór ég þar, borðaði og tók nokkra drykki að auki. Verið var að sýna fótbolta í sjónvarpinu, Flamengo vann Minas Gerais, og á næsta borði voru Flamengostyðjandi strákar sem ég tók á tal og við gátum spjallað vel um boltann það sem eftir lifði kvölds. Fór meira að segja að dæmi þeirra og fékk mér cachaça skot í stað þess að drekka það blandað í caipirinha og það var bara eðaldrykkur sem auðvelt var að dreypa á. Eftir að þeir voru farnir kom Botafogo mér síðan vel á óvart og vann topplið deildarinnar, São Paulo, 2-0 og voru eitthvað skárri en á sunnudeginum.
Á fimmtudeginum var síðan kominn tími til að pakka saman og fara til São Paulo.

Leave a Comment