Flugið til Montevideó er um 3 tímar og ég kom síðla dags. Flestir farþegarnir virtust reyndar vera að fara í tengiflug, skv flugblaðinu er flugfélagið vinna í að gera Montevideo að höbb… eins og alls staðar. Eins og sést af þessum ferðum mínum er yfirleitt erfitt að finna bein flug milli landa sem ekki eru aðliggjandi, höbbarnir rúla.
Um leið ég kom út úr vélinni og fór upp í rútuna sem keyrði okkur að flugstöðinni vissi ég að veturinn var kominn. Brrr… Síðan splæsti ég mér í taxa sem ég sá ekki eftir, geysi falleg leið eftir strö… árbakkanum.
Ég gisti á gömlu en þokkalegu hóteli á mörkum gamla og nýja miðbæjarins og var strax fengið í hendurnar kort sem sýndi hvar var öruggt að fara eftir myrkur og var mestur hluti gamla miðbæjarins utan þess svæðis. Ég var alveg rólegur yfir því enda ætlaði ég mér lítið út á kvöldin. Nema þetta fyrsta kvöld fór ég niður á næsta horn og horfði á Úrúgvæ rétt hafa jafntefli í fyrsta leik sínum í Copa. Vandræði stóru liðanna halda áfram.
Daginn eftir fór ég í þokkalega göngutúr og sá að það væri líklega göngufært út á eina bókaða staðinn sem ég þyrfti nauðsynlega að skoða, Estadio Centenario.
Fann líka eina flottustu bókabúð sem ég hef séð. Ekki frá því ég hafi einhvern tímann séð myndir af henni á netinu.
Montevideo 18
Daginn eftir var ég þó lengi að drífa mig út (netið heillar alltaf) og endaði á að rölta góðan spöl eftir aðalgötunni, fá mér hádegisverð og taka síðan taxa út á völl.
Þar byrjaði ég á að skoða fótboltasafnið sem þar er, mjög skemmtilegt safn, en ansi svarthvítt, enda var gullöld Úrúgvæ 1924-30, Ólympíumeistarar ’24 og ’28 og auðvitað heimsmeistarar á Estadio Centenario 1930, og héldu keppnina vegna Ólympíusigranna.
Montevideo 25
Þarna voru ýmsar minjar frá þessum árum, treyjur, skór og fleira, ánægjulegt að sjá hvað geymst hefur.
Síðan var hægt að fara út á stæðin. Það verður að segja að völlurinn er geysilega beisik, en samt gaman að koma.
Montevideo 41
Síðan gekk ég aftur til baka, og var kominn á kunnuglegar slóðir eftir hálftíma, þrjú kortér.
Þá var ekki annað að gera en að rölta meira um bæinn, fá sér í svanginn og síðan heim á hótel.
Þetta stopp í Montevideo var kannske ekki það merkilegasta sem ég hef gert, en það var gaman að koma þarna. Að mörgu leyti virkaði þetta frekar heimilisleg borg. Það var ansi kalt, um 5°C, og bæjarbúar bjuggu sig vel, dúðaðir í úlpur og ullarfrakka, nær öll með trefla og flest með húfur. Vildi til að að var aldrei rigning þannig þetta var nú ekki svo slæmt eftir allt saman.
Montevideo 22
Á fimmtudeginum var síðan enn komið að því að ferðast, ég sveiflaði bakpokanum á mig og gekk í gegnum gamla bæinn út að höfn þar sem ég tók þægilega þriggja tíma ferjusiglingu yfir upp ána Rio de la Plata til Buenos Aires.

Brasilía – São Paulo

Posted July 9th, 2011. Filed under Uncategorized

Eins og Ríó er São Paulo ansi hreint stór og mörg hverfi. Ég var þó ekki lengi í borginni og verð að viðurkenna að ég fór ekki víða. Ég var á gistiheimili í Jardins hverfinu sem skv ferðahandbókinni er eitt það notalegasta í borginni og held það hljóti að vera rétt. Þarna voru litlar götur með búðum og ein þeirra greinilega flottust, öll helstu tískumerkin, að mestu í litlum búðum, mjög fínt.
Hverfið liggur vestan við eina aðalbreiðgötu borgarinnar, Avenida Paulista og föstudagurinn fór í að rölta þá götu. Þar tókst mér þó að fara í fyrsta skipti í ferðinni á safn, listasafn meira að segja. Museu de Arte de São Paulo, MASP Þeir eru með ágætt safn af minni verkum evrópsku meistaranna sem var gaman að skoða, og í kjallaranum var verið að sýna ‘6 milljarðar annara’. Geysilega athyglisverð sýning byggða á viðtölum við hundruðir eða þúsundir? jarðarbúa sem greina frá lífi sínu, draumum og hugsunum. Eyddi dágóðum tíma í þetta.
Museu de Arte de São Paulo, MASP
Um kvöldið fór ég út á næsta götuhorn, hvar var fínn írskur bar. Þar var sjónvarp sem ég horfði á Argentínu spila fyrsta leikinn í Copa America og gekk vægast sagt illa. Aðrir á staðnum voru í meira djammstuði en ég en ég fékk þó að horfa óáreittur. Fékk mér ágætissvínarif, nokkra bjóra og fór heim þegar hæst lét.
Á laugardeginum hafði ég ætlað að fara í klukkutímaferð til hafnarborgarinnar Santos, og skoða Pelé safnið þar, en komst að því að það var lokað um helgar, til allrar hamingju áður en ég lagði í hann þó. Þess í stað gekk ég austur frá Paulistabreiðgötunni og yfir í það sem kalla má miðbæ. Má kannske segja að það sýni hvað mér þótti fátt áhugavert þar að ég tók engar myndir. Þetta var samt ágætisgöngutúr og ég fékk ágæta steik á ferðahandbókarmeðmæltum stað i hádeginu.
Um kvöldið fann ég pizza stað í Jardins og naut ágætrar pizzu á uppsprengdu verði, enda var allt geysilega dýrt, bæði í Ríó og í São Paulo. Sunnudeginum eyddi ég í ráf um Paulista og Jardins, endaði á að fara inn á bar og horfa á Brasilíu eiga í mesta basli í sínum fyrsta Copa leik. Ekki voru margir þarna að horfa en einn hópur þó og gátu þeir lítið fagnað 0-0 jafntefli. Hef smá áhyggjur af hvort Brasilíu tekst að vinna sinn riðil sem er jú nauðsynlegt fyrir mig þar sem fjórðungsúrslitaleikurinn sem ég á miða á er einmitt með téðum riðilssigurvegara.
Þannig nýtti ég tímann í São Paulo illa að sumu leyti en naut þess samt ágætlega og hvíldi mig vel. Á mánudeginum var síðan komið að næsta landi, haldið í veturinn í Montevideo.

Brasilía – Ríó, annar hluti

Posted July 9th, 2011. Filed under Uncategorized

Við skildum við hetju okkar á á mánudegi í Ríó. Seinni part mánudagsins fór ég í miðbæinn og rölti nokkuð um. Verð að viðurkenna ég var ekkert upprifinn af þessu, en samt alltaf gaman að koma á nýja staði.
Þriðjudaginn tók ég síðan túristapakkann með trukki. Tók strætó út að Sykurhleif, Pão de Açúcar. Síðan kláf upp á minna fjall og þaðan annan upp á sjálfan hleifinn og naut þaðan mikilfenglegs útsýnis yfir Ríó.
Rio de Janeiro 114
Síðan aftur niður, strætó út að Botafogo metróstöð, niður í bæ og út að sporvagnastöðinni sem gerir ekki annað en að þjóna Santa Teresa hverfinu. Þetta er lítið og sætt hverfi þar sem er víst ágætt að taka fyrsta drykk á djammkvöldi, en ég gerði ekki annað en að leita uppi matsölustað og fá mér að borða. Þetta var Norður-Brasilískur staður og ég fékk hálfþurrkað og steikt nautakjöt, mikill og stór skammtur með steiktum yams, svörtum baunum, og manioc mjöli. Gat næstum klárað!
iphone Sao Paulo 019
Síðan næsta skref, tók strætó niður í Lapa hverfið (sem er staðurinn til að fara á eftir fordrykkinn í Santa Teresa, en sem fyrr segir djammaði ég ekkert) og þaðan annan strætó út að endastöðinni fyrir lestina sem fer með mann upp á tind Corcovado. Einhverjum bjöllum kann það nafn að hringja hjá sumum, en allir þekkja staðinn, því þar er Jesústyttan fræga sem gnæfir þarna yfir í 710 metra hæð. Útsýnið yfir borgina er enn frábærara þarna og ég var þarna fram yfir sólsetur til að sjá borgina ljóma. Aðrir en ég geta komið með beittar athugasemdir um kaldhæðni þess að stærsta Jesústytta í heimi horfi niður á alla þá mannlegu eymd sem fátækrahverfin í Ríó hafa að geyma, ég hef ekki alveg hugmyndaflug í að koma hugsunum mínum um það fram á hnitmiðaðan hátt.
Rio de Janeiro 171
Einhver hefði haft vit á því að það gæti verið kalt þarna uppi, en ekki ég og það var orðið ansi napurt að vera þarna á stuttbuxum og stuttermabol. Ég tók síðan aftur strætó út á Ipanema, tók um klukkustund og var feginn að komast í ból.
Á miðvikudeginum gerði ég ekki neitt. Ég var eiginlega búinn að taka svona Greatest Hits af Ríó, og ákvað að ég gæti lifað án þess að taka favela tour, eða leiðsögn um fátækrahverfi. Það er eflaust einstök upplifun, en ég gat ekki horfst í augu við það. Nóg er nú samt. Þannig ég rölti um strandveginn, síðan upp í ekki-mjög-flottan almenningsgarð og sat þar í sólinni, hlustaði á músík á iSímanum og las af honum einhverja reyfara. Í hádeginu fór ég á TexMex stað sem hét Rota 66. Eins og sjá má:
TexMex á Rota 66
Eins og þeir sem fylgja mér á Foursquare vita, var ég búinn að finna bar og veitingastað sem var þarna alveg við hliðina á hótelinu sem var með ókeypis WiFi, ágætan mat og frábærar caipirinhur, og nýtti ég mér hann vel. Á miðvikudagskvöldið fór ég þar, borðaði og tók nokkra drykki að auki. Verið var að sýna fótbolta í sjónvarpinu, Flamengo vann Minas Gerais, og á næsta borði voru Flamengostyðjandi strákar sem ég tók á tal og við gátum spjallað vel um boltann það sem eftir lifði kvölds. Fór meira að segja að dæmi þeirra og fékk mér cachaça skot í stað þess að drekka það blandað í caipirinha og það var bara eðaldrykkur sem auðvelt var að dreypa á. Eftir að þeir voru farnir kom Botafogo mér síðan vel á óvart og vann topplið deildarinnar, São Paulo, 2-0 og voru eitthvað skárri en á sunnudeginum.
Á fimmtudeginum var síðan kominn tími til að pakka saman og fara til São Paulo.