1

Í öllum plönum mínum fyrir þessa ferð hafði Venesúela hlutinn alltaf verið stærsta spurningin. Í upphafi hafði ég gert ráð fyrir fjórum vikum í Guatemala, þrem í Perú og einni auðri, og vissi að Galápagos var ofar á listanum fyrir auðu vikuna. Ég var samt bara með bókaðan skólann í Guate í þrjár vikur, og vissi að ég myndi geta stytt Perú með smá vilja. Þannig að ég var í raun alltaf með eina viku auka. Og eins og komið hefur á daginn hef ég nýtt það þannig.
En frá því ég sá þetta myndskeið úr bestu náttúrúlífsþáttum allra tíma vissi ég að mig dreymdi um að sjá Salto Angel, hæsta foss í heimi.

Ferðahandbókin mín var ekki alltof skýr, og ekki heldur gúgl, nákvæmlega hvernig best væri að skoða fossinn og lengi bjóst ég við að ég myndi bara taka flug frá Canaima flugvelli og hringsóla um fossinn í fimmtán mínútur, þar sem ýjað var að bátsferðin þangað væri erfið. En á fimmtudaginnn í síðustu viku þegar ég var í Puerto Ayora dreif ég mig í að velja eina ferðaskrifstofu sem mælt var með í Footprint bókinni minni, Bernal Tours, finna hana aftur á vefnum (sem ég hafði reyndar gert áður, ásamt um 20 öðrum Salto Angel síðum) og bóka þriggja daga/tveggja nátta ferð.
Ég hafði síðan ekkert heyrt frá þeim á sunnudeginum þegar ég var á Bogotá flugvelli, (hefði átt að kíkja í kæfumöppuna í póstinum) og hringdi og staðfesti. Þá reddaði gaurinn mér líka og bókaði flug þá um kvöldið frá Caracas til Ciudad Bolivar. Ég hringdi lika í gistiheimili í Ciudad Bolivar og bókaði herbergi.
Eina vesenið var að það var ekki nema tveir tímar frá því að vélin mín lenti frá Bogotá og þangað til vélin fór til CB. Síðan seinkaði auðvitað vélinni til Caracas og þegar ég komst að farangursbeltinu var um klukkutími til stefnu. Taskan mín kom síðan um fjörutíu mínútum síðar. Aldrei á ævinni hef ég séð jafnhægvirk farangursskil. Ég var auðvitað alveg að fara á límingunum og í stöðugu símasambandi við minn mann. Loksins kom bakpokinn (fór reyndar framhjá mér tvisvar á bandinu af því hann var svo miklu minni vel innpakkaður í plast en venjulega)
Við tók svakalegur sprettur yfir í innanlandsflugstöðina og einhvern veginn tókst mér að finna leið sem leiddi mig beint inn að hliði án þess að fara í gegnum tékkinn. Þar var fullt af fólki þannig að ekki var byrjað að fara um borð. Eftir smá vesen við hliðið var mér bent á að fara að tala við yfirmann. Þá þurfti ég auðvitað að fara út um öryggishlið og útað tékkinninu. Þar reddaðst þetta allt og minn maður var meira að segja búinn að borga ferðina fyrir mig. Ástæðan fyrir að allir nema ég voru salírólegir yfir öllu þegar tekið var á móti mér var auðvitað sú að fluginu hafði seinkað um meira en klukkutíma!
Þannig að ég komst á leiðarenda um kvöldið og var ánægður að hitta ferðaskrifstofugaurinn sem hafði hjálpað mér að halda einhverjum sönsum í öllu þessu. Þá kom í ljós að ég hafði átt að vera búinn að fá póstinn frá honum áður og hann hafði bókað hostel og alles, en ég fór nú samt á það sem ég hafði valið. Ekki vandamál.
Á mánudagsmorgni var hann svo mættur kl 7 og skutlaði mér út á flugvöll. Eftir nokkra bið fór ég loks um borð í litla Cessnu og flaug í klukkutíma til Canaima. Það er miðstöð þjóðgarðarins og er við lítið lón sem áin Rio Carrao rennur í fram af litlu hamrabelti í nokkrum breiðum og ægifögrum fossum.
Canaima021
Ég var sem fyrr segir nokkuð seinn og var drifinn niður að lóni þar sem þrír aðrir ferðalangar biðu og með okkur var siglt yfir lónið að búðum Bernal Tours þar. Við fengum hádegisverð og síðan var smá hvíld áður en við gengum í um klukkutíma að Salto Sapo fossinum. Hann var um helmingur af venjulegri breidd enda ekki rignt í nokkra daga. Regntíminn byrjaði þó í maí þannig að hálf breiddin var ágæt. Stóri punkturinn þarna var gönguleið bak við fossinn. Hann er ekki hár en þeim mun breiðari þannig þetta var svaka fjör.
Canaima085
Síðan var gengið til baka og byrjaði að rigna þegar við lögðum frá fossinum og fengum við að kynnast óspart hvernig hitabeltisrigning. Vorum auðvitað gegndrepa eftir fossgönguna (og sumir höfðu stukkið í ána, ég sleppti því, þurfti að stökkva soltið frá hamrinum og ég treysti mér ekki) Göngustígarnir sem við fórum eftir voru eins og lækir og það var gott að komast í búðirnar. Eg hafði ekki bókað herbergi þarna þannig að ég svaf í rúmi sem var þarna með öðrum rúmum og hengikojum undir þaki en ekki innan veggja. Hin þrjú voru í herbergi þannig ég var einn þarna og það var bara ágætt.
Canaima049
Hefði verið gríðarlega heitt ef ekki fyrir rigninguna sem entist fram á nótt og kældi allt niður þannig ég var ánægður undir þrem teppum (og moskítóneti). Ræs var rólegt morguninn eftir því við þurftum að ná í fleiri ferðalanga út á flugvöll.
Þau þrjú sem voru með mér fyrir voru Spánverji… fyrirgefið Katalóni frá Barcelona sem vann í Caracas, vinnufélagi hans frá Trinidad og vinkona hans frá Barcelona. Átta manna hópur sem við sóttum út á flugvöll var spænskur hópur frá Baskalandi, eða eins og ég orðaði það, þið eruð öll spænsk án þess að vera spænsk. Keyrðum upp með ánni til að komast upp fyrir fossana og síðan var farið um borð í bátinn og stímt af stað. Það var alveg búið að gera okkur ljóst að við myndum holdvotna i bátnum. Farangurinn var allur vafinn í þykkt plast og allt sem við vorum með var í plastpokum, verst að það var alltaf vesen að draga fram myndavélina úr þrem plastpokum þegar myndefni birtist. Ekki höfðum við siglt lengi þegar við tókum land og þurftum að ganga í um 20 mínútur – hálftíma meðan báturinn fór yfir verstu flúðir ferðarinnar. Væntanlega hefur regn gærdagsins hjálpað vel til að ekki voru fleiri verri.
Auðvitað var lítil minjagripabúð innfæddra á gönguleiðinni, en ég sleppti að kaupa blásturspípur þar.
Næsta stoppp var við frábærlega fallegan foss úr hliðará, alveg við megin ána. Þar stungum við okkur til sunds í litlum hyl og tókum smá sturtu undir fossinum. Síðan voru samlokur á röðina.
Canaima104
Eftir þetta stopp fóru að birtast stórfengleg hamrabelti Auyantepui fjallsléttunnar. Þetta er 650 ferkílómetra fjall sem gnæfir þarna yfir og það tók alveg um klukkutíma eða meira (ekkert úr) frá því við komum að fyrstu hömrunum þangað til við komum að Salto Angel og myndavélin var mikið munduð á leiðinni en myndir gera í raun lítið til að gefa í skyn hvernig er að sigla þarna undir. Útsýnið var fullkomið, nær ekkert mistur og skýin voru rétt yfir fjöllunum og náðu sjaldnast niður í hlíðarnar.
Canaima131
En loks birtist Salto Angel í fjarska.
Orð fá ekki lýst…
Canaima147
Við tókum síðan land og gengið var í klukkutíma gegnum regnskóginn. Seinni hlutinn var ansi mikið á brattann og það var stórkostlegt að sjá fossinn loksins í gegnum þykknið.
En meginútsýnispallurinn var aðeins ofar, með fullkomnu útsýni.
Canaima176
Fossinn er 983 metrar en þá eru meðtaldar flúðirnar þarna og þessi líka fallegi foss sem sést þarna neðst.
Frjálsa fallið mun þó vera hæsti foss veraldar þó hitt sé ekki með talið.
Við áðum þarna í einhverjar 20 mínútur, hálftíma, öll þessi ferð til Venesúela í raun bara fyrir þá stund. Þetta var svo þess virði. Bátsferðalagið og fegurð fjallgarðsins og hin fossaskoðunin var í raun bara frábær bónus.
Síðan var farið sömu leið til baka, niður að á, yfir ána í búðirnar þar. Þær voru mun frumstæðari en hinar, ekkert rafmagn, salernin sturtuð með fötu sem flaut í vatnstunnu fyrir framan, hengikojur undir þaki svefnstaðurinn. Maturinn var samt ágætur, steiktur kjúklingur og hrísgrjón. Alveg kominn tími á að ég væri ekki í góðu prívatherbergi. Þrátt fyrir að ég hefði smá áhyggjur af því að sofa í hengirúmi í fyrsta skipti á ævinni var áreynsla dagsins alveg næg og ég svaf eins og engill. Ræs var í birtingu sem var ansi mjúk ef svo má segja enda alskýjað og mikið mistur og við sáum ekki fossinn frá búðunum sem hafði verið flottur þaðan daginn áður. Gott að vera ekki í svoleiðis útsýni.
Canaima206
Bátsferðin til baka var síðan ekki í frásögur færandi og við vorum komin í búðir um 10 leytið. Afslapp, hádegismatur og klukkan eitt fór ég enn yfir lónið og út á flugvöll og í Cessnunni til Ciudad Bolivar og aftur á sama gistiheimili og fyrr. Í morgun var síðan ræs fyrir fimm, út á flugvöll og flogið til Caracas.
Ég tek enga sénsa hér í Caracas, fór beint af flugvellinum yfir á hótelið ekki langt frá flugvellinum (og langt frá miðborginni). Þetta er fínt og nokkuð dýrt hótel, en ég hef ekkert að gera hér annað en að vera á netinu og slaka á, Caracas er ekki til þess að skoða svona upp á einsdæmi, amk ekki ef maður er áhættufælinn.
Í fyrramálið fer ég síðan út á flugvöll, flýg til Panama og vona að fjörutíu mínútur séu nægur tími til að koma mér yfir í flugvélina til Rio de Janeiro. Fór um flugvöllinn á leiðinni frá Kúbu þannig ég kannast við hann, og ef ekki verður seinkun ætti þetta alveg að takast.
[viðbót: Flickr upphlaðið var svo hægvirkt þarna í Caracas að ég beið með að setja inn þessa færslu þar til nú, er í Ríó, rétt búinn með morgunmat á gistiheimili á Copacabana, kom 2 í nótt… en farangurinn kemur víst og vonandi í dag…]

One Response so far

  1. hildigunnur says:

    Gaman að lesa og þetta er ekki smá ævintýri hjá þér!

Leave a Comment