0

Per̼ РMachupicchu

Posted June 7th, 2011. Filed under Uncategorized

Lestin til Machupicchu fer frá Poroy, sem er um 20 mínútna leigubílsferð frá Cusco. Þangað var ég kominn um hálf sjö á mánudagsmorgni til að taka Vistadome lestina sem er með sérstökum útsýnisgluggum til að njóta útsýnis bæði til hliðar og upp, enda er farið um djúpa dali þar sem fjöllin gnæfa yfir. Verð að segja meira að segja íslenskt landslag bliknar í samanburði.
Machu Picchu 016
Þó leiðin sé ekki nema um 97 mílur tekur ferðin um þrjá tíma enda hægt farið.
Þegar til Aguas Calientes var komið… eða Machupicchu Pueblo eins og menn vilja nú víst kalla þorpið byrjaði ég að finna skrifstofuna þar sem aðgöngumiðar að Machupicchu eru seldir og keypti mér tvo, einn fyrir hvorn dag. Dýrt, en þess virði. Síðan fór ég að finna herbergið mitt. Fínt útsýni þar, beint á foss í ánni sem rennur gegnum þorpið. Hafði áhyggjur af árniðinum, en það kom á daginn að það var ekki vandamál þegar glugganum hafði verið lokað.
Þá var kominn tími á að drífa sig út. Fór og keypti tvo rútumiða, til að vera tilbúinn daginn eftir og síðan tók við hálftíma rúta upp fjallið til Machupicchu sem er um fjögurhundruð metrum hærra en þorpið er. Keypti mér síðan strax gæd til að lóðsa mig um svæðið, fékk hann útaf fyrir mig. Kostaði auðvitað sitt, en hann vann fyrir kaupinu sínu, sagði frá öllu sem segja þurfti og tók myndir.
Machu Picchu 059
Einfalt er að segja frá því að heimsóknin stóð undir væntingum. Stórfenglegur staður og ótrúleg mannvirki, ekki síst þegar litið er til þess hveru fáir bjuggu þar í raun og veru.
Samt er ég eiginlega á því að Tikal sé í raun jafn stórfenglegur staður. Ég er bara feginn að ég kom á báða staðina í sömu ferð. Forréttindi.
Fór niður af fjallinu eftir um þrjá og hálfan tíma og hitti Kana í rútunni sem bentu mér á að tila ð komast sem fyrst upp daginn eftir væri ráð að vera kominn í rúturöðina um hálfsex leytið. Gædinn hafði bent mér að að sólarupprás væri nokkru fyrir sjö.
Ég fór að þessum ráðum og í ískulda um hálfsexleytið var ég í röðinni, um tvö hundruð manns á undan mér. Vildi svo til að gædinn minn kom þarna á sama tíma og hló nokkuð að mér fyrir að finnast kalt.
Ég var síðan kominn upp uppúr sex og beið síðan sólarupprásar. ótrúlegt nokk hitti ég þarna síðan James þann sem ég hafði reddað gistiheimilinu fyrir í Lima nokkrum dögum áður! Hann hafði gengið upp.
Eyddi ég síðan næstu þrem tímum þarna, en því miður fór að gera vart við sig magakveisa sem átti eftir að endast nokkuð. Ég missti t.a.m. af því að sjá sólina koma upp fyrir næsta fjall þar sem ég þurfti að skeiða á salerni. Dagurinn versnaði síðan, og ég var ekki hressasti pilturinn í lestinni í eftirmiddaginn en eftir nokkrar hremmingar róaðist þetta og þegar ég kom til Poroy var ég orðinn nokkuð góður. Ég hafði ákveðið að kuldinn á gistiheimilum undanfarinna daga hafði verið nægur og passaði að finna mér hótel í Cusco sem lofaði rafmagnsofni.
Það var því í hlýju og góðu herbergi undir góðri sæng sem Björninn hélt til hvílu á þriðjudagskvöldi.

Leave a Comment