0

Lokadagurinn

Posted July 11th, 2010. Filed under fótbolti HM 2010

Á síðasta degi á fríi í útlöndum erum við oftast búin að fá nóg, búin að njóta þess vel og alveg tilbúin að fara heim.
Hvernig eru tilfinningar á síðasta degi HM? Ekki alveg ósvipaðar, nema hvað að hápunkturinn er eftir. Stærsti dagur í lífi 28 manna, 31 ef þú telur dómarana. Stærsti dagur allra hollenskra knattspyrnumanna sem ekki muna 1978, stærsti dagur allar spænskra knattspyrnuáhugamanna, nema jú auðvitað einhvers (stórs?) hluta baska og katalóna.
Og ég? Veit ekki. Hlakka minna til en ég hélt, líklega aðallega af því ég get ekki haldið með Hollandi eins og mig langar til. Og svo er það líka Víkingur – KA núna klukkan tvö sem þarf að klára.
Undanúrslitaleikirnir voru ekki bestu leikir keppninnar, ekki í fyrsta skipti, en þó frekar spennandi. Holland vann Úrúgvæ nokkuð örugglega, þó að síðustu mínúturnar væru spennandi hafði Úrúgvæ misst niður leikinn næsta kortérið á undan og fór sem fór. Flott mörkin hjá Forlan og sérlega van Bronckhorst, en rangstöðufnykur af marki Sneijder.
Spánverjar héldu svo boltanum á móti Þjóðverjum og náðu á endanum sigri. Þjóðverjarnir söknuðu Müller en sigurinn var sanngjarn. Raddir hafa heyrst um að leiðinlegt sé að horfa á Spán af því þeir haldi bara boltanum og séu bitlausir. Mesta bull, það. Þeir eru auðvitað langbesta lið í að halda boltanum og að senda á milli, en til að það gangi þarf hvort tveggja, frábæra sendingamenn en ekki síður þurfa menn alltaf að vera lausir og bjóða sig til að hægt sé að senda á þá. Það er ekki skrýtið þó liðin sem spili á móti þeim, nú eða Barcelona, spili stífan varnarleik og reyni, stundum með árangri að halda Spánverjum fyrir utan.
Leikurinn um þriðja sætið í gær var frábær skemmtun, einn skemmtilegasti leikur mótsins, minna stress og meiri bolti. Það hefði verið snilld ef aukaspyrna Forlan á síðustu mínútu hefði endað inni, en Þjóðverjar áttu bronsið skilið. Forlan og Müller eru líklega tveir bestu menn mótsins.
En þá er ekkert eftir nema úrslitaleikurinn. Hann fer auðvitað 1-0, og það verða Spánverjarnir sem taka þetta. Því miður er of mikið í húfi, þannig að úrslitaleikur HM er oftast aldrei mjög opinn og skemmtilegur, en spennandi verður þetta!

Leave a Comment