Uppgjörið

Posted July 18th, 2010. Filed under fótbolti HM 2010

Heimsmeistarakeppnin er búin og kaldur raunveruleikinn tekinn við. Þá er ekki annað eftir en að gera upp keppnina eftir að hafa trassað það alla vikuna.
Heimsmeistarakeppnin 2010 var ekki frábær. Það er víst alveg ljóst. En hvenær er hún það? Eftir að hafa séð hina og þessa umræðuhalana er ljóst að keppnin sem hver og einn sá á aldrinum 10-14 ára, þ.e.a.s. fyrsta keppnin sem lítill fótboltaáhugamaður fylgist með af fullri einbeitingu er besta keppnin. Reyndar í mínu tilviki er það frekar ’86 en ’82, en þetta heldur nokkuð vel. Meira að segja Italia’90 sem almennt er talin leiðinlegasta og versta keppnin frá upphafi hefur fengið prik í umræðunum.
Mitt mat er að þrátt fyrir arfaslaka byrjun og frekar leiðinlega riðlakeppni hafi útstláttarkeppnin verið ein af þeim betri og keppnin í heild líklega sú besta síðan ’94. Fáar vítakeppnir, og hörkuleikir.
Og svo kom úrslitaleikurinn. Holland, mitt Holland, óboj. Búinn að bíða eftir svona gengi Hollendinga í mörg ár, smá von ’98 en annars aldrei neitt. Og loksins þegar svona vel gekk þá var það gert svona. Þetta er eins og að komast á deit með, tja, Elle McPherson eftir að hafa dáðst að súpermódelinu í mörg ár og komast að því að hún sé andfúl, heimsk og leiðinleg.
Ófáir pixlar hafa farið undir staðhæfingar um að Spánverjar séu hreinlega leiðinlegir að horfa á, skori lítið af mörkum etc og ekki síður færri pixlar undir gagnrök.
Það er nefnilega eitt af því skemmtilegasta við þessa keppni að blogg og twitter hafa gert hana að mestu internetHM allra tíma. Gæði sumra HM-bloggana voru stórfengleg. Og þau hafa haft svigrúm til að ræða hluti eins og ‘Spánverjar eru leiðinlegir’ á dýpri og betri hátt en dagblöð hafa nokkurn tímann getað fjallað um keppnina.
Sjálfur viðurkenni ég að það hefði stundum getað verið meira spennandi að horfa á Spánarleikina en það er að mestu vegna þess að leiðin til að spila móti Spáni er, nema landið sé Chile, að pakka í vörn, leyfa Spánverjum að eiga miðjuna og vona að veggurinn haldi. Og það tókst ekki.
Einfalda niðurstaðan er: Besta liðið á HM vann mótið.
Að öðru leyti er ég mjög ánægður með niðurstöðurnar, skemmtilegasta liðið hlaut þriðja sætið og hreif alla, nema umboðsmann Michael Ballack1. Besti leikmaður mótsins að mínu mati hlaut gullboltann og skemmtilegasti maður mótsins gullskóinn.
Það segir samt söguna um hvað lítið var um að einstaklingar sköruðu fram úr að lið mótsins sem maður hefur séð valin eru oft mjög mismunandi, sér í lagi í vörninni. Það er hreint stórfyndið að sjá að lið mótsins valið af gestum á fifa.com er með þrjá hægri bakka. Wisdom of crowds hvað?
Engir tveir hafa líka sama markmann, Casillas oftar en aðrir, líklega aðallega útaf medalíunni.
Lýk þessu með að vísa í nokkrar greinar um keppnina sem eru alveg þess virði að lesa

Tom Humphries vill meina að Fifa hafi misnotað Suður Afríku
Forsíður blaða um víða veröld meðan á HM stóð

Cynical challenge fannst bresku þulirnir slakir og Two Hundred Percent hakkar þá í sig líka og
vill líka breytingar á fótbolta í sjónvarpi

Telegraph velur bestu mörk keppninnar

Tölfræðinördar Opta með þrjátíu staðreyndir

Run of Play hafnar því að HM hafi verið leiðinlegt
Guardian (besta fótboltaumfjöllun nokkurs ensks blaðs) skríbentar dæma HM
Left back in the changing room um HM

Ghost Goal velur lið keppninar og Equaliser líka

Og loksins smá um taktík:
Hvað verður um 4-4-2
Yfirlit yfir taktík á HM frá Back Page Football
og annað frá Tom Willliams
Zonal Marking greinir úrslitaleikinn í fjórum greinum: 1, 2, 3 og 4


1Ef þýska liðið spilar hommabolta, þá er spurning hvort maður þurfi að fara að kíkja á leiki hjá Strákafélaginu Styrmi….

Lokadagurinn

Posted July 11th, 2010. Filed under fótbolti HM 2010

Á síðasta degi á fríi í útlöndum erum við oftast búin að fá nóg, búin að njóta þess vel og alveg tilbúin að fara heim.
Hvernig eru tilfinningar á síðasta degi HM? Ekki alveg ósvipaðar, nema hvað að hápunkturinn er eftir. Stærsti dagur í lífi 28 manna, 31 ef þú telur dómarana. Stærsti dagur allra hollenskra knattspyrnumanna sem ekki muna 1978, stærsti dagur allar spænskra knattspyrnuáhugamanna, nema jú auðvitað einhvers (stórs?) hluta baska og katalóna.
Og ég? Veit ekki. Hlakka minna til en ég hélt, líklega aðallega af því ég get ekki haldið með Hollandi eins og mig langar til. Og svo er það líka Víkingur – KA núna klukkan tvö sem þarf að klára.
Undanúrslitaleikirnir voru ekki bestu leikir keppninnar, ekki í fyrsta skipti, en þó frekar spennandi. Holland vann Úrúgvæ nokkuð örugglega, þó að síðustu mínúturnar væru spennandi hafði Úrúgvæ misst niður leikinn næsta kortérið á undan og fór sem fór. Flott mörkin hjá Forlan og sérlega van Bronckhorst, en rangstöðufnykur af marki Sneijder.
Spánverjar héldu svo boltanum á móti Þjóðverjum og náðu á endanum sigri. Þjóðverjarnir söknuðu Müller en sigurinn var sanngjarn. Raddir hafa heyrst um að leiðinlegt sé að horfa á Spán af því þeir haldi bara boltanum og séu bitlausir. Mesta bull, það. Þeir eru auðvitað langbesta lið í að halda boltanum og að senda á milli, en til að það gangi þarf hvort tveggja, frábæra sendingamenn en ekki síður þurfa menn alltaf að vera lausir og bjóða sig til að hægt sé að senda á þá. Það er ekki skrýtið þó liðin sem spili á móti þeim, nú eða Barcelona, spili stífan varnarleik og reyni, stundum með árangri að halda Spánverjum fyrir utan.
Leikurinn um þriðja sætið í gær var frábær skemmtun, einn skemmtilegasti leikur mótsins, minna stress og meiri bolti. Það hefði verið snilld ef aukaspyrna Forlan á síðustu mínútu hefði endað inni, en Þjóðverjar áttu bronsið skilið. Forlan og Müller eru líklega tveir bestu menn mótsins.
En þá er ekkert eftir nema úrslitaleikurinn. Hann fer auðvitað 1-0, og það verða Spánverjarnir sem taka þetta. Því miður er of mikið í húfi, þannig að úrslitaleikur HM er oftast aldrei mjög opinn og skemmtilegur, en spennandi verður þetta!

Úrúgvæ – Holland

Posted July 6th, 2010. Filed under fótbolti HM 2010

Eins og ég hef áður tæpt á þá er áratugastuðningur minn við Hollendinga veikur í ár. Ég held að þegar á hólminn verði komið muni ég styðja Úrúgvæ. Það yrði engu að síður ekkert slæmt við að sjá Hollendinga í úrslitum þannig að ég er bara rólegur fyrir kvöldið, það er ekki eins og t.d. 2002 þegar tradisjónalistanum í mér (nú eða fordómafulla Vestur-Evrópubúanum) hraus hugur við tilhugsuninni um Tyrkland – Suður-Kóreu í úrslitum. Spái enda Hollendingum naumum sigri, það verður á endanum sú vörn sem gerir færri mistök sem fleytir liðinu sínu áfram:
Fyrri leikir:
Úrúgvæ – Frakkland 0-0: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report 200 percent report Wikipedia report
Suður Afríka – Úrúgvæ 0-3: Guardian report Telegraph report Independent report Equaliser report Wikipedia report
Mexíkó – Úrúgvæ 0-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report Wikipedia report
Úrúgvæ – Suður Kórea 2-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Wikipedia report
Úrúgvæ – Ghana 5-3: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report Wikipedia report

Holland – Danmörk 2-0: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report 200 percent report Wikipedia report
Holland – Japan 1-0: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report Wikipedia report
Kamerún – Holland 1-2: Guardian report Telegraph report Independent report 200 percent report Wikipedia report
Holland – Slóvakía 2-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report Wikipedia report
Holland – Brasilía 2-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report Wikipedia report

Leikir síðasta laugardags

Posted July 6th, 2010. Filed under fótbolti HM 2010

Var aldrei búinn að hafa mig í að skrifa um síðasta laugardag, þessir leiklausu dagar liðu alltof fljótt!
Þó ekki jafnaðist alveg á við föstudaginn, þá sá laugardagurinn um að þessi fjórðungsúrslit eru örugglega þau viðburðaríkustu í sögunni. Segi það og stend við það

Argentína-Þýskaland

Thomas Müller skoraði strax á þriðju mínútu og setti Diego greyið í uppnám. Þjóðverjarnir nutu marksins allan hálfleikinni, voru betri án þess að sýna of mikið, en Argentína komst ekki inn í leikinn. Seinni hálfleikur var fjörugur framan af en Þjóðverjar gerðu verskuldað út um hann með tveim mörkum um miðjan hálfleik, fyrst Klose, svo Friedrich, bæði mörkin eftir fallegar sóknir sem sýndu getu Þjóðverjanna og þá aðallega Müller og Schweinsteiger. Sá fyrrnefndi fékk reyndar guld fyrir hendi sem engin var og missir af undanúrslitunum. Klose rak síðan smiðshöggið á glæsilegan sigur rétt fyrir leikslok og er tveim mörkum frá meti Ronaldo. Frábær leikur!

Paragvæ – Spánn

Fyrirfram og eftirá ætlaður minnst spennandi leikur umferðarinnar. En dramað lét ekki á sér standa og kom allt á um þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik. Paragvæ fékk réttilega víti, Pique reyndi að toga hendina af Cardozo einhverra hluta vegna. Casillas varði slakt víti Cardozo sem hefur reyndar verið mjög öflugur frá punktinum með Benfica í vetur. Innan við tveim mínútum síðar fékk Spánn víti. Alcaraz hljóp Villa niður aftan frá, eina ástæðan fyrir að dómari gaf ekki rautt hlýtur að hafa verið einhvers konar sárabót fyrir að Paragvæ var búið að klúðra víti. Alonso skoraði úr vítinu en dómarinn lét endurtaka þar sem nokkrir Spánverjar voru komnir vel inn í teig. Það var óskiljanlegra fyrir það að í víti Paragvæ voru mun fleiri Spánverjar í teignum og Paragvæ hefði því hiklaust átt að fá að endurtaka. Úr endurteknu víti varði Villar vel, missti boltann frá sér og felldi Fabregas þegar báðir reyndu að komast í boltann. En dómarinn klikkaði enn og heyktist á að dæma á það.
Annað var það ekki, nema að pressa Spánverja fékk að lokum verðlaun, Villa setti boltann í báðar stangir og inn og Spánn kemst áfram, ekki þó sannfærandi.

Dramatískasti dagur þessarar keppni, og þó leitað sé langt aftur var í gær.

Holland – Brasilía

Í hálfleik var ekkert sem benti til annars en öruggs brasilísks sigurs. Tvöhundruðprósent birtir leikskýrsluna eins og hann var byrjaður að skrifa hana í hálfleik og það segir allt. 1-0 var virkilega vel sloppið frá hálfleiknum, sending Felipe Melo á Robinho alger rústun á hollensku vörninni og snyrtilegt mark niðurstaðan. Markvarsla Stekelenburg á snilldarskoti Kaká verður seint vanmetin út frá því sem síðar gerðist. Og það sem gerðist var alger bráðnun í brasilíska liðinu. Michel Bastos átti að fá sitt annað gula spjald í leiknum fyrir allt of seina tæklingu á Robben. Eina ástæðan fyrir að það varð ekki var að Robben flaug aðeins of laglega á hausinn. En úr aukaspyrnunni ákvað andi Waldir Perez að taka sér bólfestu í líkama Júlio César og fara í glórulaust úthlaup, og trufla Felipe Melo nægilega til að sá síðarnefndi skallaðiinn. Ef ekki fyrir það hvað sú keppni er hörð væri þetta öruggur sigurvegari klaufalegasta marks keppninnar. Vörn Brasilíu ákvað síðan að Wesley Sneijder fengi að skora fyrsta mark sitt með skalla á ferlinum, hlægileg dekkning í horni.
Nú voru Brassar alveg búnir að missa það, allt fór í taugarnar á þeim og Felipe Melo ákvað að traðka á lærinu á Arjen Robben eftir að hafa fyrst sparkað hann niður. Nú eru svo sem fáir leikmenn leiðinlegri en Robben en ef þú ætlar að fá rautt fyrir viljandi líkamsárás þá er kannske spurning um að gera það á áhrifaríkari hátt. Hárrétt rautt og spurning hvort Felipe Melo fer eitthvað heim til Brasilíu á næstunni.
Leikurinn eftir þetta var hálfgerð vitleysa. Brassar brjálaðir yfir öllum smáatriðum hvort sem var með eða móti þeim. Það var virkilega fyndi að sjá Robinho missa sig yfir meintum leikaraskap Robben, sem var klárlega ekki leikur, en margur heldur mig sig. Einn af þeim leikmönnum sem er meira pirrandi en Robben er augljóslega Mark van Bommel, og hann var heppinn að sleppa við gult í leiknum, og hefði jafnvel mátt fá tvö. Glórulausar tæklingar og spörk út um allt á lokamínútum.
Sanngjarn sigur Hollendinga þegar öllu er á botninn hvolft!

Úrúgvæ – Gana

Ef fyrri leikurinn var dramatískur þá skrúfaði sá síðari það upp í 11.
Úrúgvæ byrjuðu mun betur og sóttu vel framan af hálfleik en síðan tóku Ganverjar völdin og skoruðu þegar mínúta og fjörutíu sekúndur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma, tveimur mínútum var bætt við. Markið hjá Muntari sérlega glæsilegt skot utan af velli.
Slæmur tími til að fá á sig mark en Úrúgvæarnir létu þetta ekki slá sig út. Besti maður þeirra, Diego Forlan jafnaði úr aukaspyrnu utan af vinstri kanti, annað glæsimark leiksins. Leikurinn var síðan jafn það sem eftir var og alla framlenginguna, en síðustu mínútur framlengingarinnar sóttu Ganverjar ákaft. Á síðustu mínútunni kom aukaspyrna inn á teiginn, Kevin-Prince Boateng skallaði áfra, Appiah og Adiyiah voru þá báðir rangstæðir, annar Ganverji fór upp með Muslera og boltinn barst til Appiah, sem var orðinn réttstæður þegar síðari skallinn kom en hagnaðist greinilega á rangstöðunni. Skot Appiah fór í hné Suárez sem var kominn á marklínuna, boltinn fór út aftur og Appiah skallaði að marki og í þetta skipti blakaði Suárez boltanum af marklínunni, víti og rautt spjald. Gyan þrumaði hins vegar í slána og yfir og milljón umræður um hversu mikill skíthæll og svindlari Luis Suárez er upphófust.
Það var eiginlega viðbúið að Gana tapaði vítakeppninni. Mensah og Adiyiah tóku arfaslök víti sem Muslera varði. Það bjargaði ekki að Maxi Pereira þrumaði himinhátt yfir, Panenkavíti Abreu gerði út um leikinn.
Þetta er keppni hinna umdeildu ákvarðana og siðferðilegu spurninga. Það er án nokkurs vafa að ekkert af því sem gerðist á þessari lokamínútu var ekki eftir reglanna hljóðan, jú nema ef vera skyldi að dæma hefði átt rangstöðu. Það er hins vegar enn á ný kór þeirra sem vilja á einhvern hátt breyta reglunum. Í rúgbý má dæma ‘penalty try’ ef snertimark er haft af liði með leikbroti. Á að dæma mark ef boltinn er örugglega á leiðinni inn? En ef markmaður fellir mann sem er að komast fram hjá honum? Hvenær hindrar maður mark og hvenær hindrar maður ekki mark?
Manuel Neuer benti ekki dómaranum á að boltinn var langt innfyrir línuna og Luis Fabiano harðneitaði við dómarann að hafa handleikið boltann. Eru þeir ekki hvorir tveggja mun meiri svindlarar og óheiðarlegir skíthælar?
Uppröðun leikja eftir fyrri dag fjórðungsúrslita
En í dag eru tveir leikir.

Argentína – Þýskaland

Þetta verður svakaleikur! Ekki síðri hasar en í gær. Spái Argentínu 3-2 sigri, hugsanlega í framlengingu. Tilhlakk!!
Argentína – Nígería 1-0: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report
Argentína – Suður Kórea 4-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report 200 percent report
Grikkland – Argentína 0-2: Guardian report Telegraph report Independent report 200 percent report
Argentína – Mexíkó 3-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report

Þýskaland – Ástralía 4-0: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report 200 percent report
Þýskaland – Serbía 0-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report
Ghana – Þýskaland 0-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report
Þýskaland – England 4-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report

Paragvæ – Spánn

Allt annað en yfirgangur Spánverja mun koma öllum á óvart. Ætla það ekki, Spánn tekur þetta 2-0.
Ítalía – Paragvæ 1-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report 200 percent report
Slóvakía – Paragvæ 0-2: Guardian report Telegraph report Independent report
Paragvæ – Nýja Sjáland 0-0: Guardian report Telegraph report Independent report 200 percent report
Paragvæ – Japan 1-0: Guardian report Telegraph report Independent report

Spánn – Sviss 0-1: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report 200 percent report
Spánn – Hondúras 2-0: Guardian report Telegraph report Independent report Equaliser report 200 percent report
Chíle – Spánn 1-2: Guardian report Telegraph report Independent report Equaliser report
Spánn – Portúgal 2-0: Guardian report Telegraph report Independent report Zonal Marking report Equaliser report 200 percent report