0

Ég spáði réttum þjóðum áfram en þetta fór aðeins öðruvísi en ég bjóst við.
England liggur í sárum eftir gærdaginn. Sorpblöðin og sumir aðrir kalla eftir afsögn Capello og fá hana eflaust, en þeir sem hugsa dýpra ganga svo langt að reyna að benda á leik Englands við Ungverja 1953 og kalla eftir gagngerum uppskurði á enska kerfinu. Enda ekki nema von, meinið er að finna í allri þjálfun í Englandi frá yngstu flokkum og uppúr. Boltatækni er ekki til. Það verður að segja ensku pressunni til smá hróss að þeir eru ekki að velta sér of mikið upp úr hrikalegri dómgæslu aðstoðardómarans, enda var yfirspilunin slík að það er aukaatriði. Þjóðverjar eru hins vegar svolítið glaðir yfir henni. (biðst smá afsökunar fyrir að tengja á Bild…)
Mexíkanar mega hins vegar vera aðeins súrari yfir jafn hrottalegum mistökum í þeirra leik. Fram að því að Tevez skoraði eitt mesta rangstöðumark sem ég hef séð lengi höfðu þeir haft yfirhöndina í leiknum. Osorio ákvað síðan að gefa Higuain annað mark og það var lítið við því að gera. Í seinni hálfleik skoraði síðan Tevez gull af marki og leikurinn hefði átt að vera búinn. Litla baunin Javier Hernandez vissi hins vegar að ég var búinn að spá honum marki og hlýddi mér. Mexíkó sótti þó nokkuð og voru betri það sem eftir var og hefðu fyllilega átt skilið að minnka muninn en það fór sem fór.
Sókn Argentínu heldur því áfram að brillera og vörnin er brothætt. Þýskaland – Argentína verður vonandi frábær leikur!

Leave a Comment