0

Svindl og svínarí

Posted June 21st, 2010. Filed under fótbolti HM 2010

Það er eitthvað hjartnæmt við það að dómarinn hafi spurt Luis Fabiano að því hvort hann hafi nokkuð notað hendina við að skora. Ætli hann hafi búist við heiðarlegu svari? Dagurinn í gær endaði á fínum leik Brasilíu og Fíla… Côte d’Ivoire. Brassarnir sýndu fínan leik, annað liðið í keppninni sem á tvo góða leiki í röð, ásamt Argentínu. Mörkin voru næsta brasilísk líka, þó að vissulega hafi boltameðhöndlun Luis Fabiano í öðru markinu verið meira í ætt við Óla Stef en Péle. En var þetta ekki annars tvígrip?
Það er ekki ljóst hvort hægt verður að senda Kader Keïta í bann fyrir stórfenglegan leikaraskap. Kaká gerði ekkert annað en að bíða staðfastur eftir að Keïta hlypi á hann. Það er ólíklegt að Kaká sleppi við bannið, sem hittir Côtara verst fyrir sjálfa enda má búast við að þeir þurfi á að halda að Brasilía vinni Portúgal. Eins er alveg eins líklegt að Kaká hefði verið hvíldur í þeim leik þannig að það skiptir í sjálfu sér litlu.
Rétt er að halda til haga að byrjunarlið Brasilíu var með númer eitt til ellefu á bakinu, alltaf gaman að sjá það og rifjar upp gamla tíma (þó ekki á HM í sjálfu sér, enda hópnúmer verið reglan þar)
En aftar í tímann.
Fyrsti leikur dagsins sá Paragvæ skella slökum Slóvökum, 2-0 síst of stór sigur og ég hef lítið um þann leik að segja. Paragvæar fara áfram… nema…
En miðleikur dagsins var bomban. Fyrir leikinn vissi ég að öll úrslit væru góð fyrir mig, enda slær mitt fjölskipta hjarta bæði til Ítalíu og Nýja Sjálands. Skemmst er frá að segja að Nýsjálendingar sóttu sinn stærsta áfanga á fótboltavellinum, jafntefli við heimsmeistarana. Það hefur eflaust glatt suma bloggara að sjá fyrrum leikmann Halifax Town koma Nýsjálendingum yfir strax á 7. mínútu. Reyndar hefið átt að dæma Smeltz rangstæðan en hvorki dómarinn né aðstoðardómari hafa séð snertinguna frá Reid. Mér datt strax í hug hvort leikurinn frá ’66 þegar Pak Doo Ik skoraði sigurmark Norður Kóreu, einmitt á 7. mínútu gegn Ítaliu. Svo varð þó ekki. Ítalir fengu víti fyrir peysutog á de Rossi, rétt en mjög sjaldséð dómgæsla, líklega af því að boltinn fór rétt framan við de Rossi og því missti hann af upplögðu færi. Nýsjálendingar fengu besta færið á síðustu mínútunum, táningurinn Wood skaut rétt framhjá fjær. Nú er bara að sjá hvort fótbolti veltir rúbbí úr toppsætinu í nýsjálenskum íþróttaheimi. Ég verð að segja, ég vona ekki!
Leikir dagsins:
Portúgal – Norður Kórea: 1966 dúkkar upp aftur! Ég væri alveg til í að sjá sömu úrslit og þá, en ’10 útgáfan af Norður Kóreu spilar stífan varnaleik en ekki fljótandi sóknarleik. Portúgali vantar senter og þetta fer 0-0!
Chile – Sviss: Úrslitaleikur um toppsætið! Skyldi þó aldrei vera… Þetta fer 1-1, barátta þessara snilldartaktíkera, Bielsa og Hitzfeld er stál í stál og þeir skilja jafnir.
Spánn – Hondúras. Spánverjar þurfa svo sannarlega að girða í brók. Ég ætla að spá því að það verði, og 2-0 er niðurstaðan. Kannske ekki 6-0 en dugar til að vekja risann.

Leave a Comment