0

Þetta var fínn dagur í gær! Chile skoraði reyndar ekki nema þetta eina mark, en spilaði alveg ágætan bolta og lofar góðu.
Svo kom að Spánverjum að setja líf í keppnina. Og það gerðu þeir svikalaust, ekki með flugeldasýningu heldur með ósannfærandi frammistöðu gegn sterku og velskipulögðu svissnesku liði Ottmar Hitzfeld. Sigur Sviss var sanngjarn (t.a.m. hefðu bæði Pique og Casillas getað fengið rautt fyrir brot þegar Sviss skoraði) og setur líf í þennan riðil svo um munar. Mætast Spánn og Brasilía í annarri umferð? Leikurinn sem margir spáðu sem úrslitaleik!
Þá var fyrstu umferð riðlakeppninar lokið, umferð fárra marka, vel skipulagðra varna og varkárni.
Það lá því beint við hjá mér að spá 0-0 í leik Suður Afríku og Úrúgvæ, en ekki 0-3 eins og ég gerði fyrir mótið. Hefði betur ekki breytt! Suður Afríka sá drauminn hverfa, Úrúgvæ spilaði vel og Diego Forlan eins og sá sem valdið hefur.
Nú í hádeginu taka Argentínumenn á móti Suður Kóreu. Endurskoðuð spá mín hljóðar upp á eitt eitt jafntefli og byggir á því fyrsta umferðin sé fordæmisgefandi, sem klikkaði svo mjög í leiknum í gær. Mikið vildi ég samt að Messi og félagar rífi þá spá í tætlur.
Nígería tekur svo Grikkland og vinnur þá sanngjarnt 2-0.
Gleðilega þjóðhátíð!!

Leave a Comment