Athafnir.

Posted September 25th, 2007. Filed under trú

Eitt af því sem felst í því að vera trúlaus er aðskilnaður frá öllum helstu merkisathöfnum mannlífs á Íslandi, fyrir utan afmæli. Þessar stóru vörður á lífsleiðinni, nafngift, manndómsvígsla, brúðkaup og dánarkveðja eru rígnegldar við kirkjudyrnar.
Og þó. Síðustu 20 ár hefur borgaraleg ferming náð fótfestu og er það vel, enda eru þáttakendur í fermingunni á þeim aldri sem er hvað viðkvæmastur fyrir að vera ekki eins og aðrir og að veita þeim tækifæri til að finna sér hóp er ómetanlegt.
En eftir standa hinir þrír. Siðmennt veitir upplýsingar um allar fjórar tegundir athafna, en það er fyrst nú sem fréttnæmt verður að haldið er veraldlegt brúðkaup.
Í tengslum við umræðurnar um veraldlegu hjónavígsluna tók ég fyrst og fremst eftir einu, og líklega ekki því sama og aðrir. Það var athafnastjóratitill Jóhanns Björnssonar.
Samkvæmt bloggi Jóhanns kemur í ljós að “hafa nokkrir einstaklingar núþegar tekið námskeið í veraldlegri útfarastjórn”. Þetta er löngu tímabært og mikið fagnaðarefni.
Mikið verk er enn óunnið og langt í land. Hin ótrúlegu viðbrögð Salarins í Kópavogi að neita að halda athöfnina, og skítkast út í Siðmennt á bloggsíðum sýna það.
Hvað svo sem halda má fram um hversu rétt það er að halda veraldlega athöfn í Fríkirkjunni eða ekki, þá er það verulegt umhugsunarefni að það hreinlega vantar staði sem eru jafn fallegir og tignarlegir, hvort sem fyrir brúðkaup eða jarðarför. Það er vel hægt að segja “ef þú vilt ekki kirkjubrúðkaup ferðu bara til sýslumanns”, en þetta er jafn fjarstæðukennt og að halda fram að valið standi milli trúarlegrar útfarar og að vera huslaður í kyrrþey utan kirkjugarðsveggjar. Það er ekki trúin á Guð sem gerir brúðkaup að þeirri hátíðarstund sem það er. Og kveðjustund látins sem er ekki á leiðina í einhverja ‘eilífð’ á síst að vera veigaminni en hin.
Siðmennt má ekki vera ‘trúfélag’ og ég er reyndar alls ekki viss um að ég myndi vilja sjá ‘opinbert’ trúleysisfélag , en eins og staðan er nú, þá er ekki hægt að brjóta múrana á annan hátt. Til dæmis held ég að athafnarstjórar erlendis (celebrants) séu ekki endilega beintengdir einhverjum húmanistafélögum, en meðan viðurkenning á nauðsyn ótrúartengds hlutverks sem slíku er ekki til, verður Siðmennt að ryðja brautina.
Að baki þessu öllu liggur einfaldur sannleikur. Þegar veraldlegar nafngiftir, brúðkaup og jarðarfarir verða orðnar daglegt brauð, og jafn hátíðlegar og fallegar og kirkjuathafnirnar mun nefnilega trúarþörf Íslendinga snarminnka.
Það skyldi þó aldrei vera að einhverjir væru á móti því?
P.s. ég er ekki félagi í Siðmennt, en sem ég skrifaði þennan póst sá ég að ég varð að ganga í félagið. Og gerði það rétt í þessu.

Meira HM

Posted September 16th, 2007. Filed under íþróttir krikket rúgbí

Það eru fleiri HM í gangi, nú rétt í þessu voru Svarthettir að vinna Indland í fyrsta leiknum í milliriðlum í heimsmeistarakeppninni í tuttugu20 krikket, útgáfunni fyrir þá sem líður yfir þegar þeir heyra minnst á fimmdaga leiki og sofna yfir einsdags leikjum.
Svo var bara mynd í Mogga í dag úr England – Suður Afríku leiknum frá á föstudag, “Ekki fylgi sögunni” hvernig leikurinn fór, það kemur ekki á óvart að blaðamenn Morgunblaðsins kunni ekki að gúgla. Enda ekki í þeirra verkahring að miðla upplýsingum.
Keflavíkurferð á eftir. Taugarnar eru þandar.

Skyldan

Posted September 15th, 2007. Filed under íþróttir fótbolti rúgbí

Það segir svosem ýmislegt um íþróttina að lið númer 1 í heiminum sigrar lið númer 22 108 – 13 í heimsmeistarakeppni. En skyldusigur á Portúgal er að baki og nú eru menn að hafa áhyggjur af því að Alsvartir séu ekki með nægilega sterka mótherja í riðlinum til að búa sig undir útsláttir. Og þó, Skotar eru eftir, og aldrei að vita nema að þeir veiti smá viðnám. Ástralir eru smátt og smátt að brjóta niður Wales á Þúsaldarvellinum í Cardiff og þó ekki sé það algert burst enn, þá held ég að Þríþjóðirnar séu rækilega að stimpla sig inn í þessa keppni.
Ferdinand í síðasta leik, Vidic núna. WTF? Er United hið nýja Arsenal? Nei ætli það, hef fulla trú að við finnum aftur okkar létta og skemmtilega leikstíl. Nóg eftir og núna er komið að Evrópukeppninni, Nani og Ronaldo heimsækja fornar slóðir í Lissabon á miðvikudaginn.

Englandi rústað.

Posted September 14th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Kom heim frá London í eftirmiddaginn, í tæka tíð til að sjá Suður Afríku rústa Englendingum, 36-0. Auðvelt. Nú þarf England að vinna Samóa eftir viku, England ætti ekki að klúðra því, en það er ekki alveg eins öruggt ef Englendingar taka sig ekki saman í andlitinu eftir þessa upprúllun.

Ítölsk martröð

Posted September 8th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Það tók mína menn 1 mínutu og 3 sekúndur að skora fyrsta snertimarkið, núna eru 20 mínútur liðnar og staðan er 38-0. Þetta ætti að vinnast. Ég ætla ekki að fara að vorkenna Ítölum nema þetta fari yfir 100…
Sem sé, æðislegt!

Óvænt!

Posted September 7th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Óvænt úrslit strax í fyrsta leik! Púmurnar náðu að skora snertimark í fyrri hálfleik og leiða 17-9. Og þrátt fyrir japl jaml og fuður náðu Frakkar aðeins einu víti í síðari hálfleik og leikurinn fór 17-12. Eins og bíbísí segir, engin þjóð hefur tapað í riðlum og orðið meistari, og það er bara tímaspursmál þangað til Argentína verður með í annað hvort sexþjóða eða þríþjóða. Hið síðarnefnda liggur beinar við.
En þetta þýðir bara eitt. ‘Við’ mætum Frökkum í fjórðungsúrslitum. Nema eitthvað frekara óvænt gerist. Eins og t.d. að Írar taki Frakka? Þá verður kelkonnað duglega í híbýlum Parísardömunnar!

Heimsmeistarakeppnin byrjar

Posted September 7th, 2007. Filed under íþróttir rúgbí

Tvær mínútur liðnar af fyrsta leiknum í þeirri heimsmeistarakeppni sem er númer þrjú á vinsældalistanum mínum. Fylgdist með minni fyrstu á eftirminnilegan hátt sumarið 1995, úrslitin voru auðvitað ekkert nema þjófnaður með matareitrun. Man minna eftir 1999 en fyrir fjórum árum gat ég fylgst betur með, nema þá var tímasetning leikjanna (og núna skorar Argentína fyrstu stig keppninnar) erfið.
Nú er ekkert til fyrirstöðu því að sjá sem flesta leiki, allt á skikkanlegum tíma og í riðlakeppninni eru nær allir leikir sem skipta máli um helgar.
Það sem er auðvitað verst er að 20 liða keppni með fjórum riðlum er ekki mikill vafi um það hvaða lið komast áfram (og Frakkar jafna). Það er ekki nema helst spurning um hvort Ítalía nái að skjóta Skotum ref fyrir rass.
Nú er auðvitað mál að kynna keppnina almennilega til sögunnar, þetta er auðvitað heimsmeistarakeppnin í rúgbí. Haldin í Frakklandi í þetta sinn (að mestu, Skotland og Wales fá að spila aðeins á heimavöllum) og ef Frakkar keppa ekki við Alsvarta í úrslitum (Argentína kemst aftur yfir) þá verða allir afskaplega hissa. Ítalía er nýbúin að fá að vera með í Fimmþjóðakeppninni, sem heitir núna Sex þjóða. Síðan er suðurhvels þriggjaþjóða keppnin og þá erum við komin með níu bestu þjóðirnar. Annars er það helst Argentína sem er með almennilegt lið, en Írland ætti að vera of sterkt fyrir þá í riðlakeppninni. Suðurhafseyjarnar líða fyrir að flestir bestu leikmanna þeirra enda hjá Alsvörtum eða Áströlum, en ég held í vonina að Samóa vinni England. Þá glotti ég.
Nema hvað, stuðningur minn er sem ætíð eindreginn með Alsvörtum sem eins og venjulega hafa verið með yfirburðalið milli keppna, en hafa verið með eindæmum óheppnir eða klaufskir þegar á hólminn er komið. Nú er kominn tími á titil númer tvö og Daniel Carter sýnir að hann er langbestur.