Fyrir mörgum árum bjó ég til safnkassettu sem hét Uppáhaldslögin 2. Af því að fyrir mörgummörgum árum varð til, jú, Uppáhaldslögin. Held að það að búa til bara *tvær* safnkassettur af diskum og plötum sé undir landsmeðaltali, en á sér ýmsar skýringar. Átti fyrir það fyrsta ekki stórt plötusafn og síðan voru uppáhaldslögin ekkert mikið fleiri á þeim tíma.

Í tiltektinni um daginn var ég kominn að kassettusafninu (góður slatti af útvarpsupptökum auðvitað) og tók þá til handargagns þessar tvær, og endurgerði þær sem spilunarlista í iTunes. 2 er næsta komplett, enda var ég þá alfarið kominn í diskana, en það eru nokkur göt í númer eitt. Á ekki einusinni plötuspilara núna til að húkka upp við tölvuna til að rippa. En alla vega.

Það eru nokkrar vikur síðann listinn varð til, en núna fyrst er ég að hlusta á hann. Það er eins og ég sé hræddur við að lögin séu ekki eins góð. Eða að ég haldi að mér finnist þau ekki eins góð. Eins og ég treysti ekki sjálfum mér. “Jú jú Bjössi þetta var ókei hér í denn en þú ýkir nú alltaf svo mikið fyrir sjálfum þér hvað allt sé gott”

Þvílíkt bull og vitleysa. Snilldarlög öll sem eitt. Samt tek ég eftir að sum lögin eru bara með fjórar stjörnur hjá mér. Það er auðvelt að leiðrétta.

Angi af þessu er að stundum tekst mér að sannfæra mig um að Queen séu eiginlega ekki besta hljómsveit allra tíma. Og spila þá ekki á iPoddnum mjög mikið. En auðvitað er það vitleysa. Þeir voru bestir, og lögin þeirra eru enn þau bestu.

Og þetta allt leiðir til einfaldrar staðhæfingar:

Freddie Mercury og Jussi Björling voru bestu söngvarar 20. aldarinnar.

Vona að einhverjir mæli gegn því í athugasemdum og leggi fram aðra kandídata, það fátt skemmtilegra en heilbrigð umræða. Ég hlakka til að taka þátt í þeim umræðum, og leggja fram sönnunargögn.

Súrt og sætt

Posted June 26th, 2004. Filed under Uncategorized

Súrt: Ég er að fá hálsbólgu. Hún byrjaði að gera vart við sig í afmælisveislunni í gær, þannig að ég var rólegri en ég planaði.

Sætt: Afmælisveislan var fín, náðum að skokka út á Victor og horfa á síðustu 10 mínúturnar af Frakkland-Grikkland. Næsta fyndin úrslit þar, en íslenska landsliðið getur lært af Grikkjum hvernig spila á fótbolta.

Síðan var snæddur prýðismatur, en ég hélt heim til fundar við te strax að mat loknum. Bæði sítrónu og kamillu fyrir svefninn til að reyna að berja á bólgunni. Sit nú og sötra sítrónute með hunangi í morgunsárið.

Burt með Tjallann

Posted June 24th, 2004. Filed under Uncategorized

Sanngjörn úrslit. Betra og skemmtilegra liðið vann. Undanúrslitin verða skemmtilegri hvort sem þeir mæta Niðurlendingum eða Svíum.

Loksins, loksins…

Posted June 23rd, 2004. Filed under Uncategorized

… vannst leikur. Settum þrjú mörk hvorki meira né minna! Jermaine Palmer með tvö mörk á þrem mínútum eða svo.

Og svona bara þessi fínu úrslit á EM líka.

Nýtt leikfang og MR myndir

Posted June 22nd, 2004. Filed under Uncategorized

Var búinn að lofa mér nýju leikfangi þegar ég væri búinn að hreinsa til í tölvuhýðinu, og fékk mér nýjan Epson 1670 Photo skanna í gær. Átti einu sinni gamlan leiðinda SCSI skanna sem var hægur og leiðinlegur, og henti honum þegar ég flutti. Var því búinn að skanna mest af myndunum sem ég tók áður en ég fór að fá myndir á CD en skannaði tvær skemmtilegar í gær. Annars vegar er það fótboltalið MR sirka 1928-9 og svo er það mynd af gamla fjórða bekknum mínum í MR. Ekki viss um að allir bekkjarfélagar mínir þakki mér fyrir þá síðarnefndu 🙂

Fyrir þá sem ekki þekkja okkur, þá erum við pabbi þessir með hárið í öftustu röð!

Fríið gert upp

Posted June 20th, 2004. Filed under Uncategorized

Jæja, þá er rétt rúmlega þriggja vikna fríi að verða lokið. Mæting í Borgartúnið í fyrramálið. Búið að vera feykigott frí, tvær vikur á Spáni, prófi hespað af, rækilega tekið til í húsinu, núna eru allir kassar í húsinu tómir, og allt komið á sinn stað og síðast en ekki síst tveir leikir á dag síðustu 13 daga.

Fór í Kópavoginn í dag og fékk lánað aukasjónvarp og horfði á leikina tvo eins og á að horfa á tvo leiki á sama tíma!

Býst frekar við að það verði viðbrigði að fara að vinna aftur, þannig að fátt kemst að annað en vinna og bolti næstu vikuna. Þarf reyndar að kíkja á fræðin aðeins líka.

Síðan er málið að kíkja í bílskúrinn og taka það til, mest reyndar búið að vera í kössum í einhver ár, ættu að komast að mestu í geymsluna inni, skúrinn ekki hentugur geymslustaður fyrir blöð og bækur.

Auk þess vil ég taka fram að besta veðrið er auðvitað í Fossvoginum

iTunes Music Shop

Posted June 15th, 2004. Filed under Uncategorized

iTMS er komið til Evrópu. En bara til Frakklands, Englands og Þýskalands. Er það ekki brot á EES að selja bara í sumum löndum?

Skv. flugumönnum í tónabransanum munum við komast þarna inn einhvern tímann á næstunni.

Prófið.

Posted June 14th, 2004. Filed under Uncategorized

Náði prófinu. Þá er það búið og ég get snúið mér að nokkurra daga fríi í viðbót.

England óhóhóhó…

Posted June 13th, 2004. Filed under Uncategorized

Skyldu Gerrard, Heskey og James verða hengdir? Þvílík mistök. Indælt.

Nýji vörulistinn frá Össuri?

Posted June 13th, 2004. Filed under Uncategorized

Ætli þetta sé nýji vörulistinn frá Össuri

Ef ekki þá held ég að þeir ættu að kíkja á að setja nefndan aukabúnað í sínar vörur. Best að gauka þessu að þeim 🙂

Sprenging í byrjun

Posted June 12th, 2004. Filed under Uncategorized

Svona á þetta að vera. Svaðalegt upset í fyrsta leik, Grikkir sýndu hvernig á að spila gegn tæknilegu liði, svona á Ísland að spila, þetta hefðu vel getað verið við!

Ronaldo var besti Portúgalinn, auðvitað!

Hátíðin er að byrja!

Posted June 12th, 2004. Filed under Uncategorized

Hæ hó jibbí jæ og jibbí jei,

stórmót í fótbolt’ er að byrja!

Þetta verður hörkuspenna! Allavega sex lið eiga mjög góða möguleika á að vinna: Frakkar, Hollendingar, Ítalir, Spánverjar, Tékkar og Þjóðverjar. Að auki gætu Króatar, Búlgarir, og Englendingar gert skurk. Það eru mörg hörkulið, og öll með einhverja stóra veikleika.

Frakka vita allir um, ekki búnir að tapa í 18 leikjum, 11 án þess að fá á sig mark, en vörnin er samt að eldast. Þetta gæti verið keppnin þar sem ellin nær í skottið á Desailly. Hollendingar þurfa að koma sér upp góðum liðsanda, og vörnin er brothætt. Ítalir eru alltaf hættulegir, eru með hörkulið, en Buffon hefur átt slæmt tímabil. Spánverjar hafa alltaf liðið fyrir að vera ekki ein þjóð í raun og yfirleitt skitið á sig á stórmótum. Tékkar eru aftur komnir upp og eiga einu bestu miðju í heimi. Poborski, Rosicky, Galasek og Nedved. Þjóðverjar hafa átt í varnarvandræðum, og í raun eiga allir markmenn möguleika á stöðunni. Kahn byrjar og ef hann gerir einhver mistök rýkur hann. Ég spá því að Timo Hildebrandt verði aðalmarkmaður áður en keppninni lýkur.

Króatar og Búlgarir eru að koma upp með ný lið, og jafnvel England á smá séns.

Ég held að í hæsta lagi eitt lið detti út með núll stig, jafnvel neðstu liðin eiga eftir að rífa til sín stig, engir 9-6-3-0 riðlar…

Ég held með Hollendingum sem eiga alltaf að geta spilað besta boltann og Ítölum, því Ítalía er flottust landa.

Ef Danir komast í úrslit ætla ég að horfa á úrslitaleikinn á Ráðhústorginu 🙂

Svo vona ég að Englendingar geti ekki neitt. Þeir verða svo óþolandi þegar vel gengur.

Haraldur leirkerasmiður

Posted June 11th, 2004. Filed under Uncategorized

Nú liggur fyrir að það eru einar þrjár myndir sem eru þess virði að skella sér á, og best að byrja sem fyrst. Harry Potter í kvöld. Ekki á morgun heldur hinn og Eilíft sólskin óflekkaðs huga einhvern næstu daga þegar ég er ekki uppgefinn eftir EM störu og IKEA skápasamsetningu.

Heim í hýðið

Posted June 10th, 2004. Filed under Uncategorized

Kominn heim eftir tvær góðar vikur hér. Brúnn og sællegur.

Nú tekur við meiri afslöppun, próflestur fyrir mánudag og svo meira frí, bara heima.

Hækkið á termostatinu, takk.

Posted June 10th, 2004. Filed under Uncategorized

Er á leið heim, vinsamlega skrúfið upp hitann í Reykjavík og dragið úr rokinu. 25°C væri fínt svona um hádegisbilið.

Þakka góða þjónustu, ég veit ég get treyst á ykkur.

Sólstingur

Posted June 8th, 2004. Filed under Uncategorized

Hef verið með sólsting í síðustu færslu…

Til skýringar: Apple búnir að boða blaðamannafund í London 15 *júlí* (ekki apríl) þeas næsta þriðjudag. Því er slegið föstu að tilkynna eigi um iTunes Music Shop (iTMS) Europe. Ég er alveg sjúríklár á því að við fljótum ekki með í því battaríi.

iTunes Evrópa

Posted June 7th, 2004. Filed under Uncategorized

Ef iTunes Evrópa tekur til Íslands skal ég hundur heita.

Ég vona heitt og innilega að 15 apríl verði ég ofboðslega hamingjusamur hundur.

En við vitum öll að við búum ekki í alvöru landi og við erum ekki í Evrópu og að öllum öðrum í heiminum gæti ekki verið meira sama.